Lífeyrisskuldbindingar og lífeyrishækkanir

Ríkissjóður ábyrgist greiðslur lífeyris úr B-deild

Iðgjöld launagreiðanda standa ekki nema að hluta undir lífeyrisgreiðslum B-deildar. Þegar launagreiðandi greiðir iðgjöld skuldbindur hann sig um leið til að taka þátt í lífeyrisgreiðslum sjóðfélaganna þegar að því kemur að þeir fá greiddan lífeyri. 

Hlutdeild launagreiðanda í áætluðum framtíðarlífeyrisgreiðslum nefnist lífeyrisskuldbinding.

Þegar sjóðfélagar hefja töku lífeyris er fyrsta greiðsla til þeirra svokölluð stofnupphæð, hana greiðir LSR en launagreiðandi stendur straum af þeim lífeyrishækkunum sem verða eftir það.

Hafi sjóðfélagi greitt iðgjald til B-deildar vegna starfa hjá fleiri en einum launagreiðanda skiptist hækkun á lífeyri milli þeirra í hlutfalli við réttindaávinning sjóðfélaga meðan hann starfaði hjá hverjum fyrir sig.

Lífeyrishækkanir eru innheimtar mánaðarlega og er gjalddagi 15. hvers mánaðar.

Launagreiðandi sem leggur niður starf ber ábyrgð á réttindum sem sjóðfélagi ávinnur sér með þeirri einstaklingsaðild sem hann fékk í kjölfar niðurlagningarinnar.