Hrein raunávöxtun LSR 8,9% á árinu 2014

13.04.2015

Ávöxtun eigna LSR á árinu 2014 var mjög góð. Nafnávöxtun sjóðsins var 10,1% sem svarar til 8,9% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm árin var 5,7%. Tekjur af fjárfestingarstarfsemi á árinu 2014 voru 49,5 milljarðar króna og heildareignir LSR voru 535,5 milljarðar króna í árslok 2014.

Undanfarin þrjú ár hafa eignir LSR aukist um 156 milljarða króna. Það má að stærstum hluta rekja til ávöxtunar sjóðsins því á sama tíma hafa tekjur af fjárfestingum numið 150,1 milljarði króna.

Góð eignadreifing er í verðbréfasafni LSR. Í árslok 2014 voru 52% af eignum sjóðsins í skuldabréfum, þar af 32,5% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 12,1% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 31,2% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 4,6% í innlánum.

Ávöxtun innlendra og erlendra hlutabréfa var góð á árinu. Nafnávöxtun innlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina var 12,4% á árinu sem jafngildir 11,3% raunávöxtun. Nafnávöxtun erlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina var 15,6% á árinu sem jafngildir 14,4% raunávöxtun.

Á árinu 2014 fengu 18.542 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum, samtals 32,9 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 29.569 sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins á árinu, samtals að fjárhæð 22,9 milljarðar króna.

Upplýsingar um einstakar deildir LSR 2014


A-deild LSR

Nafnávöxtun var 8,7% á árinu 2014 sem svarar til 7,5% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir A-deildar námu 296 milljörðum króna í lok árs 2014.

Í árslok 2014 var 58% af eignum A-deildar í skuldabréfum, þar af 38,2% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 15,3% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 22,5% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 4,2% í innlánum.

Á árinu 2014 fengu 4.251 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá A-deild, samtals 3,3 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 23.313 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 19,8 milljarðar króna.

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati voru eignir A-deildar 4,8 milljarðar króna umfram áfallnar skuldbindingar eða 1,6%. Heildarstaða A-deildar var neikvæð um 55,6 milljarða eða 9,6%.


B-deild LSR

Nafnávöxtun var 12,2% á árinu 2014 sem svarar til 10,9% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir B-deildar námu 227,3 milljörðum króna í lok árs 2014.

Verðbréfaeign deildarinnar í árslok 2014 skiptist þannig að 45,6% voru í skuldabréfum, þar af 25,6% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 8,4% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 43,1% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 2,9% í innlánum.

Á árinu 2014 fengu 13.713 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá B-deild, samtals 29 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 3.450 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 2,2 milljarðar króna.

Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2014 var 634,9 milljarðar og hækkaði hún um 5,9% á árinu. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 270,7 milljörðum króna af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem deildin á sjálf að standa undir eru því 364,2 milljarðar króna. Endurmetin hrein eign sjóðsins var 227,8 milljarðar króna í árslok skv. úttektinni en munurinn á skuldbindingum og eignum sjóðsins er á ábyrgð ríkissjóðs.


Séreign LSR

Fjárfestingarleiðir Séreignar LSR eru með mismunandi eignasamsetningu og sveiflast ávöxtun þeirra því mismikið. Nafnávöxtun Leiðar I var 8,9% sem svarar til 7,7% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar II var 7,8% sem svarar til 6,7% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 3,2% á síðasta ári sem svarar til 2,1% hreinnar raunávöxtunar.

Heildareignir Séreignar LSR námu 12,2 milljörðum króna í árslok 2014 og jókst hrein eign um 1 milljarð króna eða 9%.

Verðbréfaeign Leiðar I í árslok 2014 skiptist þannig að 44,8% voru í skuldabréfum, þar af 39,3% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 11,3% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 40,6% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 3,4% í innlánum.

Verðbréfaeign Leiðar II um áramót var þannig að 50,3% var í skuldabréfum, þar af 41,1% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 6,1% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 31,6% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 12% í innlánum.

Á árinu 2014 fengu 578 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá Séreign LSR eða nýttu sér tímabundna heimild til útgreiðslu séreignasparnaðar, samtals 534 milljónir króna. Að meðaltali greiddu 2.805 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 909 milljónir króna.