Meðalfjárhæð lífeyris hjá B-deild LSR og LH

08.05.2015

Meðalfjárhæð greidd til lífeyrisþega í desember 2014 var 170 þúsund kr. hjá B-deild LSR en 231 þúsund kr. hjá LH. Hærri meðalfjárhæð lífeyris hjá LH skýrist af tvennu; Annars vegar voru meðalviðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris hærri hjá LH eða 457 þúsund kr. á móti 411 þúsund kr. hjá B-deild LSR og hins vegar var meðalréttindaprósentan hærri hjá LH. Að meðaltali hafa lífeyrisþegar hjá LH áunnið sér 48,9% réttindi af lokalaunum en 37,4% hjá B-deild LSR.

Fyrir fullt starf ávinnur sjóðfélagi sér 2% réttindi á ári. Að meðaltali er því um að ræða áunnin réttindi í rúmlega 24 ár hjá LH og tæplega 19 ár hjá B-deild LSR, miðað við fullt starf.

Sjóðfélagi sem greitt hefur meirihluta starfsævi sinnar til sjóðanna ætti að vera kominn með að lágmarki 70% lífeyrisréttindi miðað við fullt starf. Ef miðað er við vegin meðalviðmiðunarlaun í desember 2014 myndu ellilífeyrisgreiðslur til slíks sjóðfélaga nema 320 þúsund kr. á mánuði hjá B-deild LSR og 335 þúsund kr. hjá LH.

Einnig er vert að nefna að til viðbótar við greiðslur frá LSR og LH fá lífeyrisþegar jafnframt greiðslur frá TR og eftir atvikum frá öðrum lífeyrissjóðum.