Viðburðaríkur maímánuður

01.06.2016

Árlega heldur LSR kynningarfundi fyrir sjóðfélaga og lífeyrisþega með það að markmiði að efla upplýsingagjöf og vitund um lífeyrismál. Metþátttaka var á kynningarfundum í ár en yfir 350 sjóðfélagar á lífeyri sátu kynningar- og samráðsfund þann 10. maí sl. og yfir 350 sjóðfélagar sóttu kynningar- og fræðslufundi um lífeyrismál dagana 18. og 19. maí sl.

Frá kynningarfundi sjóðfélaga á lífeyri á Hilton Nordica hóteli 10. maí 2016

LSR heldur einnig kynningar – og fræðslufundi á vinnustöðum þegar eftir því er leitað, ásamt því að mæta með fræðsluerindi inn á námskeið á vegum stéttarfélaga.

Stefnt er að því að fjölga kynningarfundum framvegis til að koma til móts við aukinn áhuga á fræðslu um lífeyrismál. Fræðsla um lífeyrismál er mikilvæg og LSR fagnar auknum áhuga sjóðfélaga á að fræðast um sinn lífeyrisrétt.

LSR er eitt af þeim fyrirtækjum sem hlutu viðurkenningu sem fyrirmyndarstofnun SFR árið 2016Í maí hlaut LSR viðurkenningu SFR sem fyrirmyndarstofnun 2016 en árlega gerir SFR könnun á meðal starfsmanna fyrirtækja og stofnana á opinberum og almennum markaði á starfsánægju starfsmanna, aðbúnaði á vinnustað og fleiri þáttum sem snúa að starfsmönnum. Hjá LSR tóku allir starfsmenn lífeyrissjóðsins þátt í könnuninni, óháð því hvort þeir væru félagsmenn í SFR eða öðrum stéttarfélögum.

Niðurstaðan var mjög ánægjuleg fyrir lífeyrissjóðinn og var LSR eitt af þeim fyrirtækjum sem hlutu viðurkenningu sem fyrirmyndarstofnun SFR árið 2016.