Lykilstærðir A-deildar
Hrein eign til greiðslu lífeyris
1.302,4
ma.kr.
Hreinar fjárfestingartekjur
139,9
ma.kr.
Nafnávöxtun
12,2%
Hrein raunávöxtun
6,9%
Rekstrarkostnaður
0,11%
í hlutfalli af meðalstöðu eigna
Hlutfall eigna í erlendum gjaldmiðlum
48,6%
Hlutfall verðtryggðra eigna
31,3%
Iðgjöld
48,8
ma.kr.
Lífeyrir
25,9
ma.kr.
Meðalfjöldi virkra sjóðfélaga
31.053
Meðalfjöldi lífeyrisþega
14.054
Um A-deild
A-deild LSR var stofnuð árið 1997 með jafnri réttindaávinnslu. Á árinu 2017 var réttindaávinnslu A-deildar breytt úr jafnri ávinnslu í aldurstengda auk þess sem óbein bakábyrgð launagreiðenda á lífeyrisréttindum var felld niður.
A-deild LSR hefur starfað í 28 ár sem þykir ekki ýkja langur tími fyrir lífeyrissjóð. Þrátt fyrir það er deildin orðin næststærsti lífeyrissjóður landsins í eignum talið. Deildin hefur vaxið um 1.006 ma.kr. á síðastliðnum tíu árum og eru 64,9% þess vaxtar komin til vegna ávöxtunar.
Verðbréf
Verðbréfaeign A-deildar nam 1.290,9 mö.kr í árslok 2024 og skiptist samkvæmt töflunni hér fyrir neðan sem sýnir jafnframt fjárfestingarstefnu A-deildar fyrir árið 2025. Fjárfestingarstefnan gerir ráð fyrir að hlutfall hlutabréfa í safni sjóðsins lækki lítillega á komandi árum en á móti fari hlutfall skuldabréfa örlítið hækkandi. Áfram er lögð áhersla á eigna- og áhættudreifingu í eignasafninu með hagkvæmasta samvali verðbréfa.
Á árinu keypti A-deild verðbréf og veitti lán fyrir samtals 57,8 ma.kr. að teknu tilliti til seldra bréfa og uppgreiddra lána. Nettófjárfestingar A-deildar má sjá í grafinu hér fyrir neðan.
Iðgjöld og réttindaávinnsla
Iðgjald til A-deildar er 15,5% af heildarlaunum, hlutur sjóðfélaga er 4% og launagreiðanda 11,5%.
Iðgjöld til A-deildar hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár og má rekja hækkunina að hluta til fjölgunar á sjóðfélögum. Meirihluti greiðandi sjóðfélaga starfar hjá ríkinu en að uppfylltum ákveðnum aðildarskilyrðum geta einstaklingar sem starfa hjá öðrum launagreiðendum greitt í A-deild.
2024 | 2023 | Breyting | |
Iðgjöld í m.kr. | 48.761 | 46.184 | 5,6% |
Meðalfjöldi virkra sjóðfélaga | 31.053 | 30.293 | 2,5% |
Fjöldi með réttindi í árslok | 82.641 | 80.071 | 3,2% |
Réttindaávinnsla hefur verið aldurstengd frá árinu 2017 en meirihluti sjóðfélaga er þó enn í jafnri ávinnslu samkvæmt eldra fyrirkomulagi. Þar sem allir nýir sjóðfélagar fara í aldurstengda ávinnslu á meðan engin nýliðun er í jafnri ávinnslu eykst hlutfall sjóðfélaga í aldurstengdri ávinnslu jafnt og þétt með hverju ári.
Að meðaltali voru greiðandi sjóðfélagar í aldurstengdri ávinnslu 13.595 í hverjum mánuði á árinu 2024 á meðan sjóðfélagar í jafnri ávinnslu voru 17.533 að meðaltali. Eins og sjá má grafinu hér fyrir neðan minnkar bilið milli þessara hópa jafnt og þétt með hverju árinu og má búast við að sjóðfélagar í aldurstengdri ávinnslu verði komnir í meirihluta á árinu 2026.
Lífeyrir
Sjóðfélagar A-deildar ávinna sér rétt til ævilangra eftirlauna. Auk þess njóta þeir réttar til örorkulífeyris ef orkutap verður 40% eða meira. Þá á maki rétt á makalífeyri við fráfall sjóðfélaga og börn sjóðfélaga eiga rétt á barnalífeyri við orkutap eða fráfall þeirra.
Hægt er að hefja töku eftirlauna hvenær sem er frá 60 til 80 ára aldurs og ekki er nauðsynlegt að láta af störfum þegar taka eftirlauna hefst. Sama gildir um töku á hálfum lífeyri. Við útreikning eftirlauna er miðað við 67 ára viðmiðunaraldur og lækka eftirlaun hlutfallslega ef eftirlaunataka hefst fyrir þann aldur, en hækka ef eftirlaunatakan hefst síðar. Í jafnri réttindaávinnslu ávinnur sjóðfélagi sér árlegan eftirlaunarétt sem nemur 1,98% af meðallaunum. Sjóðfélagar í aldurstengdri réttindaávinnslu ávinna sér réttindi út frá réttindatöflum sjóðsins.
Lífeyrisgreiðslur A-deildar námu 25.944 m.kr. á árinu 2024 og hækkuðu um 24,2% milli ára en alls fengu 16.190 lífeyrisþegar greiðslur á árinu 2024. Á liðnu ári hófu 1.714 sjóðfélagar töku eftirlauna samanborið við 1.653 árið áður.
Meðalaldur lífeyrisþega í árslok 2024 var 69,3 ár og voru 71% af þeim konur en 29% karlar, reiknað án þeirra sem fá greiddan barnalífeyri.
Lífeyrisbyrði deildarinnar þ.e. hlutfall lífeyris af iðgjöldum, er lág enda deildin ung að árum. Lífeyrisbyrði á árinu 2024 var 52,6% en var 45,1% árið áður.
Lífeyrisgreiðslur
2024 | 2023 | Breyting | |
Eftirlaun | 20.423 | 16.021 | 27,5% |
Örorkulífeyrir | 4.741 | 4.185 | 13,3% |
Makalífeyrir | 499 | 428 | 16,6% |
Barnalífeyrir | 281 | 253 | 11,0% |
Samtals | 25.943 | 20.887 | 24,2% |
Fjárhæðir eru í milljónum kr.
Fjöldi lífeyrisþega
2024 | 2023 | Breyting | |
Eftirlaun | 12.032 | 10.594 | 13,6% |
Örorkulífeyrir | 2.575 | 2.474 | 4,1% |
Makalífeyrir | 651 | 602 | 8,1% |
Barnalífeyrir | 932 | 912 | 2,2% |
Samtals | 16.190 | 14.582 | 11,0% |
Meðalfjárhæðir árlegra lífeyrisgreiðslna
2024 | 2023 | Breyting | |
Eftirlaun | 1.697 | 1.512 | 12,2% |
Örorkulífeyrir | 1.841 | 1.691 | 8,8% |
Makalífeyrir | 767 | 711 | 7,8% |
Barnalífeyrir | 301 | 277 | 8,6% |
Heildarmeðaltal | 1.602 | 1.432 | 11,9% |
Fjárhæðir eru í þúsundum kr.
Skuldbindingar
Tryggingafræðileg staða A-deildar er reiknuð í samræmi við ákvæði 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Útreikningurinn er gerður af tryggingastærðfræðingi hjá Talnakönnun hf. sem hefur til þess tilskilda staðfestingu frá Fjármálaeftirlitinu og starfar sjálfstætt utan sjóðsins.
Athugun á tryggingafræðilegri stöðu hefur þann tilgang að meta eignir á móti þeim skuldbindingum sem felast í réttindum sjóðfélaga til lífeyris. Skuldbindingin er útreiknuð fjárhæð sem endurspeglar loforð til sjóðfélaga um lífeyrisgreiðslur í framtíðinni. Sjóðurinn þarf að eiga eignir til að standa undir þeim loforðum.
Skuldbinding A-deildar samanstendur annars vegar af áfallinni skuldbindingu, sem miðast við þau réttindi sem sjóðfélagar hafa þegar áunnið sér af greiddum iðgjöldum og hins vegar framtíðarskuldbindingu, þ.e. þeim réttindum sem áætlað er að núverandi sjóðfélagar muni ávinna sér í framtíðinni fram að töku eftirlauna. Skuldbinding A-deildar var 1.898,4 ma.kr. í árslok 2024 og hækkaði hún um 145,4 ma.kr. milli ára eða 8,3%.
Tryggingafræðileg úttekt miðað við árslok 2024 sýnir að heildarstaða sjóðsins er jákvæð um 1,2% samanborið við 1,5% neikvæða stöðu í árslok 2023. Bætt tryggingafræðileg staða skýrist mestmegnis af góðri ávöxtun á árinu 2024. Raunávöxtun ársins var 7,0% en í tryggingafræðilegum forsendum er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir nái að meðaltali 3,5% raunávöxtun til lengri tíma.
Verði mismunur á heildareignum og heildarskuldbindingum meiri en 10% ber að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum deildarinnar. Einnig þarf að gera breytingar ef munurinn er umfram 5% í aðra hvora áttina fimm ár í röð.
Í tryggingafræðilegum forsendum er miðað við að ávöxtun eigna deildarinnar til lengri tíma verði 3,5% umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Til samanburðar hefur meðaltal hreinnar raunávöxtunar verið 3,6% frá stofnun deildarinnar fyrir 27 árum. Samkvæmt þessu hafa forsendur um ávöxtun sem notaðar eru við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu staðist en það vegur hins vegar á móti að lífslíkur hafa aukist og er nú gert ráð fyrir að sjóðfélagar lifi talsvert lengur en gert var ráð fyrir við stofnun A-deildar.
Ef núverandi lífslíkur með spá um lengingu meðalævi eru bornar saman við upphaflegar forsendur um ævilengd sem notaðar voru við stofnun A-deildar sést þessi munur vel. Árið 1997 var reiknað með að meðallífaldur sjóðfélaga sem var 45 ára þá, þ.e. fæddur 1952, væri 81,6 ár. Þegar spáð er í dag um meðallífaldur 45 ára sjóðfélaga, þ.e. einstaklings sem fæddur er 1980, með núverandi forsendum, er meðallífaldurinn 88,6 ár sem er um sjö árum lengri.
Gerð er nánari grein fyrir skuldbindingum A-deildar í ársreikningi, bæði í sérstöku yfirliti og í skýringarliðum nr. 14 og 15.