Merkir áfangar nást á góðu rekstrarárangri
Ávarp stjórnarformanns
Árið 2024 var gott rekstrarár fyrir LSR eftir erfiðar aðstæður á mörkuðum síðustu tvö árin þar á undan. Hrein raunávöxtun sjóðsins í heild var 7,1%, sem er rúmlega tvöfalt ávöxtunarviðmið íslenskra lífeyrissjóða. Í ágúst síðastliðnum fór eignasafn sjóðsins í fyrsta sinn yfir 1.500 milljarða og var LSR þar með fyrstur íslenskra lífeyrissjóða til að rjúfa þann múr. Einungis um fimm ár eru síðan eignasafnið náði 1.000 milljörðum og sjóðurinn er því í örum vexti.
Fleiri merkir áfangar náðust á árinu 2024. Í heildina námu lífeyrisgreiðslur úr A- og B-deildum LSR ríflega 102 milljörðum króna og er það í fyrsta sinn sem greiðslur sjóðsins úr samtryggingarsjóðum fara yfir 100 milljarða á einu ári. Lífeyrisþegar voru að meðaltali rúmlega 33.000 á árinu og þýðir það í raun að LSR er einn allra stærsti og umfangsmesti launagreiðandi landsins.
Þá er það einnig jákvætt að í árslok var tryggingafræðileg staða A-deildar jákvæð um 1,2% og er það í fyrsta sinn síðan árið 2016 sem eignir deildarinnar eru umfram skuldbindingar. Gott jafnvægi milli eigna og skuldbindinga er lykilforsenda fyrir því að lífeyrissjóður geti sinnt hlutverki sínu til framtíðar og því er afar jákvætt fyrir A-deildina að tryggingafræðileg staða sé réttu megin við núllið.
Lífeyrissjóðir ávaxta fjármuni sjóðfélaga yfir mjög langan tíma og því er það langtímaárangurinn sem skiptir máli. Tímabundnar sveiflur munu ávallt eiga sér stað á fjármálamörkuðum, en reynslan hefur sýnt okkur að með skynsamlegri áhættudreifingu og langtímahugsun í fjárfestingum næst besta ávöxtunin yfir lengri tíma. Á endanum stendur þessi ávöxtun svo undir verulegum hluta af lífeyrisgreiðslum framtíðarinnar en tíu ára meðaltal hreinnar raunávöxtunar A-deildar er 4,2%.
Stafræn vegferð LSR heldur áfram
Stafræn vegferð LSR hélt áfram á árinu og fjölmörg verkefni voru unnin sem miðuðu að því að efla þjónustu við sjóðfélaga. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu sjóðsins, sem segir að sjóðurinn skuli leggja áherslu á fyrirmyndarþjónustu og öfluga upplýsingatækni. Sýnilegast var að nýr vefur og Mínar síður sjóðfélaga voru sett í loftið. Þar er sérstök áhersla lögð á að bæta upplýsingagjöf og auka þjónustu. Með því að færa þessa mikilvægu þjónustuþætti í nútímahorf er starfsfólki jafnframt gert kleift að þróa stafrænar lausnir fyrir sjóðfélaga hraðar og betur en áður. Við erum hvergi nærri hætt á þessari braut og fleiri umbótaverkefni sem tengjast stafrænni þjónustu eru þegar komin í vinnslu.
Að auki hafa ýmsar aðrar nýjungar sem snúa að innri kerfum verið innleiddar eða eru í þróun. Þar ber hæst viðskiptamannakerfi sem gerir starfsfólki kleift að veita markvissari þjónustu og sinna sjóðfélögum enn betur en áður. Það er umfangmikið verkefni sem skiptist í nokkra áfanga. Hver og einn þessara áfanga mun efla þjónustu LSR enn frekar á komandi misserum.
„Nýlegar kannanir hafa sýnt að LSR er í fremstu röð hvað varðar ánægju sjóðfélaga með þjónustu síns lífeyrissjóðs.“
LSR vinnur með persónuupplýsingar sjóðfélaga á degi hverjum og við gerum okkur fulla grein fyrir mikilvægi þess að tryggja öryggi upplýsingatæknilausna sjóðsins. Því hefur sífellt aukin áhersla verið lögð á að efla varnir sjóðsins gegn hvers konar stafrænum ógnum, sem fara vaxandi með hverju árinu.
Þá má einnig nefna að nýleg lagabreyting heimilar lífeyrissjóðum að senda sjóðfélögum upplýsingar með rafrænum hætti. Það gerði LSR kleift að senda sjóðfélögum regluleg yfirlit ársins 2024 rafrænt í stað þess að prenta út og senda tugþúsundir pappírsyfirlita. Það er mikið framfaraskref sem minnkar pappírsnotkun auk þess að lækka kostnað við prentun og póstburð.
Það er ánægjulegt að áherslur LSR á aukna þjónustu við sjóðfélaga eru farnar að skila árangri. Nýlegar kannanir meðal sjóðfélaga íslenskra lífeyrissjóða hafa sýnt að LSR er í fremstu röð hvað varðar ánægju sjóðfélaga með þjónustu síns lífeyrissjóðs og hefur ánægja sjóðfélaga LSR aukist síðustu misseri. Enn fleiri verkefni sem tengjast þjónustu við sjóðfélaga eru í vinnslu og undirbúningi og verður spennandi að fylgjast með afrakstri þeirra.
Ákall um þátttöku í íslensku viðskiptalífi
Á síðasta ári fór fram lífleg opinber umræða um hlutverk lífeyrissjóða sem eigenda, bæði hvað varðar þátttöku á aðalfundum, stjórnarkjör eða aðkomu að einstökum málum hvers félags. Sitt sýnist hverjum í þessum efnum en við sem sitjum í stjórn LSR höfum heyrt skýrt ákall frá okkar sjóðfélögum um að sjóðurinn eigi ekki að sitja hjá við ákvarðanatöku í þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn á hlut í. Við viljum bregðast við því, en ávallt með fagleg vinnubrögð að leiðarljósi þar sem mál fá vandaða málsmeðferð í samræmi við eigenda- og sjálfbærnistefnur sjóðsins. Þannig tekur LSR hlutverk sitt sem þátttakanda í íslensku atvinnulífi alvarlega. Við leggjum áherslu á að hafa jákvæð áhrif með virku samtali við þau félög sem sjóðurinn fjárfestir í og munum grundvalla ákvarðanir á þeim viðskiptalegu langtímahagsmunum sem okkur er falið að standa vörð um, eins og segir í eigendastefnu sjóðsins.
„Við sem sitjum í stjórn LSR höfum heyrt skýrt ákall frá sjóðfélögum um að sjóðurinn eigi ekki að sitja hjá við ákvarðanatöku í þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn á hlut í.“
Sjálfbærni skiptir lykilmáli
Þegar við lítum á stóru myndina eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavettvangi. Síðustu misserin höfum við því miður horft upp á aukinn stríðsrekstur víða um heim og uppgang öfga- og sundrungarafla. Þá hafa milliríkjasamskipti og alþjóðaviðskipti verið sett í uppnám með nýjum og óútreiknanlegum áherslum stjórnvalda í Bandaríkjunum. Erfitt er að sjá fyrir endann á þeirri atburðarás, en ljóst er að tollamúrar og átakasækni hafa neikvæð áhrif á markaði og ef ekki rætist úr er hætt við að þetta verði erfitt ár fyrir fjárfesta. Í óvissuástandi sem þessu er ljóst að við þurfum að stíga varlega til jarðar og horfa til góðrar áhættudreifingar.
Við megum þó ekki gleyma því að líta enn lengra fram í tímann. Samhliða þessari neikvæðu þróun á alþjóðavettvangi virðist því miður hafa orðið ákveðið bakslag í umræðu um sjálfbærni, sem gengur gegn eðlilegri skynsemi og öllum meginstraumi vísindalegrar þekkingar. Þetta er varhugaverð þróun.
„Fyrirtæki sem sóa auðlindum sínum, hvort sem þær eru náttúrlegar eða í formi mannauðs eru ekki góð fjárfesting til langs tíma.“
Það er ljóst að á síðustu áratugum höfum við gengið of hratt á auðlindir heimsins með alvarlegum afleiðingum fyrir umhverfið. Ef við náum ekki að snúa þessari þróun við verður sífellt ólíklegra að komandi kynslóðir geti notið svipaðra lífsgæða og við höfum borið gæfu til. Við verðum að gera okkur grein fyrir að ef mikilvægar auðlindir verða uppurnar eða stór landsvæði óbyggileg mun tímabundinn ágóði af ósjálfbærri starfsemi í fortíðinni verða lítil huggun fyrir afkomendur okkar.
Það er fjárhagslega skynsamlegt að fjárfesta í sjálfbærum rekstri. Augljóst er að fyrirtæki sem sóa auðlindum sínum, hvort sem þær eru náttúrlegar eða í formi mannauðs eru ekki góð fjárfesting til langs tíma. Fyrirtæki sem hugsa lengra fram í tímann og vilja raunverulega hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt samhliða góðum rekstri eru líklegri til að dafna og skila eigendum sínum arði til langs tíma. Ég er stoltur af þeirri auknu áherslu sem LSR hefur lagt á sjálfbærni síðustu misserin og munum við halda ótrauð áfram á þeirri braut.
Fallist á rök lífeyrissjóðanna
Undir lok síðasta árs kvað Hæstiréttur upp dóm um að aðgerðir Lífeyrissjóðs verslunarmanna vegna hækkandi lífaldurs og breyttra aðferða við útreikning á lífaldri hefðu verið lögmætar. Þar með var stórum óvissuþætti eytt úr starfsemi LSR, því sjóðurinn fór svipaða leið í sínum aðgerðum. Aðferðafræði LSR og þeirra lífeyrissjóða sem fóru þessa leið miðaðist við að tryggja hverri kynslóð sanngjörn eftirlaunaréttindi og koma í veg fyrir tilflutning fjármuna milli kynslóða. Við úrskurð sinn féllst Hæstiréttur á þessi rök, sem leiddi til sanngjörnustu niðurstöðunnar í þessu máli að mati okkar í stjórn LSR.
Það þarf öflugan hóp til að stýra eignasafni sem er yfir 1.500 milljarðar, greiða lífeyri sem í hverjum mánuði nemur um 8,5 milljörðum króna til tugþúsunda sjóðfélaga og standa undir öllum öðrum þeim kröfum sem gerðar eru til stærsta lífeyrissjóðs landsins. Ég vil nýta tækifærið nú og þakka starfsfólki sjóðsins fyrir störf sín á árinu. LSR býr við mikla gæfu í mannauði starfsfólks sjóðsins. Störf þeirra eru ekki mjög sýnileg launafólki og lífeyrisþegum en fyrir mig, sem hef nú um þriggja ára skeið kynnst þeim metnaði sem ríkir í vinnubrögðum starfsfólks LSR, hefur það verið mikil og jákvæð reynsla. Það er risaverkefni að standa vörð um stærsta lífeyrissjóð landsins og ég get fullvissað okkur sem treystum á verklag og vinnuframlag þeirra sem daglega vinna að því að byggja sjóðinn áfram upp sem þann stærsta að við erum með hágæðafólk í hverri stöðu og verkferlar sjóðsins til hreinnar fyrirmyndar.
Í lok þessa ávarps vil ég þakka sjóðfélögum, launagreiðendum og öðrum samstarfsaðilum sjóðsins fyrir farsæla samfylgd á árinu.
Áfram LSR, upp og hærra!
Magnús Þór Jónsson
formaður stjórnar LSR