Fara á efnissvæði

Ávöxtun LSR

Nafnávöxtun LSR á árinu 2024 var 12,4% sem samsvarar 7,3% raunávöxtun. Hrein raunávöxtun, þ.e. þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá hreinum fjárfestingartekjum, var 7,1% samanborið við 1,0% árið 2023. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm árin er 2,8% og meðaltal síðustu tíu ára er 4,2%. Ávöxtun einstakra deilda LSR má sjá í töflunum hér fyrir neðan. Ávöxtun er reiknuð samkvæmt reglum um ársreikninga lífeyrissjóða. 

Ávöxtun ársins

Ávöxtun ársins A-deild  B-deild LSR
Nafnávöxtun 12,2% 13,8% 12,4%
Hrein raunávöxtun 6,9% 8,3% 7,1%
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára 3,0% 2,5% 2,8%
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 10 ára 4,4% 4,0% 4,2%

Ávöxtun ársins - Séreign

Ávöxtun ársins Séreign Leið I Séreign Leið II Séreign Leið III Tilgreind séreign
Nafnávöxtun 13,8% 11,9% 7,0% 11,3%
Hrein raunávöxtun 8,5% 6,7% 2,1% 6,1%
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára 2,6% 0,7% 0,7% -
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 10 ára 4,1% 2,7% 1,3% -

Hrein raunávöxtun

Fimm ára meðaltal hreinnar raunávöxtunar

Hrein eign LSR til greiðslu lífeyris var 1.566,7 ma.kr. í árslok 2024 sem er um 161,5 ma.kr. hækkun á milli ára, eða 11,5%. Markaðir voru nokkuð sveiflukenndir á árinu, en á endanum var ávöxtun góð af bæði innlendum og erlendum hlutabréfum og skuldabréf skiluðu ágætri ávöxtun.

Hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins voru 173,1 ma.kr. fyrir árið 2024, sem er talsvert meira en árið áður þegar fjárfestingartekjurnar voru 118,8 ma.kr. Töluverðar sveiflur hafa verið á verðbréfamörkuðum undanfarin 10 ár, en eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan hafa fjárfestingartekjur sjóðsins verið yfir 100 ma.kr. fimm af síðustu sex árum. Þar sker árið 2022 sig talsvert úr, enda er það eina árið síðasta áratuginn sem skilaði neikvæðum fjárfestingartekjum.

Hreinar fjárfestingartekjur

Hrein eign til greiðslu lífeyris

Frá upphafi árs 2015 til ársloka 2024 hefur samanlögð hrein eign til greiðslu lífeyris aukist um 1.031,3 ma.kr., úr 535,5 ma.kr. í 1.566,7 ma.kr. Af aukningu eigna á tímabilinu voru fjárfestingartekjur 84,9% eða 875,2 ma.kr. Innborganir ríkissjóðs inn á skuldbindingar og uppgjör skuldbindinga ásamt greiðslu lífeyrisauka námu 216,8 ma.kr. á tímabilinu. Á móti hafa greiðslur lífeyris og kostnaður verið 87,4 ma.kr. umfram iðgjaldagreiðslur og greiðslur vegna lífeyrishækkana í B-deild.

Inn- og útflæði einstakra deilda sjóðsins hefur verið afar ólíkt undanfarin tíu ár og þar af leiðandi hefur þróun eigna verið það einnig. Eignir A-deildar hafa til dæmis aukist um 1.006,4 ma.kr. á tímabilinu á meðan aukning á eignum B-deildar nemur 5,8 ma.kr. Eignir Séreignar hafa aukist um 19,0 ma.kr. eða 153,7% á síðustu tíu árum.

Greining á hækkun eigna LSR 2015-2024