Lykilstærðir B-deildar
Hrein eign til greiðslu lífeyris
233,2
ma.kr.
Hreinar fjárfestingartekjur
30,4
ma.kr.
Nafnávöxtun
13,8%
Hrein raunávöxtun
8,3%
Rekstrarkostnaður
0,29%
í hlutfalli af meðalstöðu eigna
Hlutfall eigna í erlendum gjaldmiðlum
40,5%
Hlutfall verðtryggðra eigna
36,4%
Iðgjöld
0,9
ma.kr.
Lífeyrir
76,2
ma.kr.
Meðalfjöldi virkra sjóðfélaga
671
Meðalfjöldi lífeyrisþega
18.984
Um B-deild LSR
B-deild LSR á rætur að rekja til stofnunar lífeyrissjóðs fyrir embættismenn árið 1919, en árið 1944 varð sjóðurinn fyrir alla ríkisstarfsmenn og nafni sjóðsins breytt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Sjóðnum var skipt upp í tvær deildir 1997, þegar A-deild sjóðsins var stofnuð fyrir nýtt réttindakerfi, en eldra réttindakerfi fékk nafnið B-deild. Um leið var B-deildinni lokað fyrir nýjum sjóðfélögum.
Við lokun B-deildar voru greiðandi sjóðfélagar rúmlega 19 þúsund, en þeim hefur fækkað jafnt og þétt síðan þá. Á árinu 2024 greiddi einungis 671 sjóðfélagi iðgjöld til B-deildar að meðaltali, sem er fækkun um 172 frá árinu áður. Meðalfjöldi þeirra sem fengu greiddan lífeyri úr deildinni var 18.984, sem er fjölgun 429 milli ára.
Stöðug fækkun greiðandi sjóðfélaga undanfarin ár ásamt háu hlutfalli lífeyrisþega hefur leitt til þess að útflæði úr deildinni í formi lífeyrisgreiðslna umfram innflæði iðgjalda hefur verið mikið. Síðustu tíu ár hefur hrein eign engu að síður aukist um 5,8 ma.kr., sem helgast m.a. af því að fjárfestingartekjur tímabilsins námu um 208 mö.kr. Því til viðbótar hefur ríkissjóður greitt aukagreiðslur inn á skuldbindingar sínar við deildina, en nánar er fjallað um það í kaflanum um skuldbindingar hér neðar.
Verðbréf
Í árslok 2024 nam verðbréfaeign B-deildar 234,6 mö.kr. Verðbréfaeignin í árslok skiptist samkvæmt meðfylgjandi töflu sem sýnir jafnframt fjárfestingarstefnu B-deildar fyrir árið 2025. Fjárfestingarstefna B-deildar tekur annars vegar mið af því að draga úr áhættu í eignasafni deildarinnar og hins vegar af því að eignir deildarinnar fara minnkandi þar sem útgreiðslur eru hærri en inngreiðslur. B-deild þarf því að selja verðbréf til að standa undir mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum.
Á árinu seldi B-deild verðbréf umfram fjárfestingar fyrir 27,1 ma.kr. og var sala umfram fjárfestingar mest í erlendum hlutabréfum. Nettófjárfestingar B-deildar má sjá á grafinu hér fyrir neðan.
Iðgjöld og réttindaávinnsla
Iðgjald til B-deildar er 12% af dagvinnulaunum, persónuuppbót, orlofsuppbót og vaktaálagi vegna reglubundinna vakta. Hluti sjóðfélaga er 4% og launagreiðanda 8%. Réttindi sjóðfélaga miðast við þann tíma sem greitt hefur verið í sjóðinn ásamt starfshlutfalli.
Fækkun sjóðfélaga í B-deild leiddi til þess að iðgjaldagreiðslur lækkuðu um 15,1% frá fyrra ári og námu 904 m.kr. Þetta er í fyrsta sinn sem iðgjaldagreiðslur deildarinnar fara undir 1 milljarð króna á einu ári.
2024 | 2023 | Breyting | |
Iðgjöld í m.kr. | 904 | 1.064 | -15,1% |
Meðalfjöldi virkra sjóðfélaga | 671 | 843 | -20,5% |
Fjöldi með réttindi í árslok | 34.065 | 34.728 | -1,9% |
Lífeyrir
Sjóðfélagar í B-deild ávinna sér rétt til ævilangra eftirlauna auk þess að njóta réttar til örorkulífeyris ef orkutap verður 10% eða meira. Þá á maki rétt á ævilöngum makalífeyri við fráfall sjóðfélaga en makalífeyrir ávinnst á hjúskapartíma og haldast áunnin réttindi þrátt fyrir hjúskaparslit. Börn sjóðfélaga eiga rétt á barnalífeyri við orkutap eða fráfall þeirra.
Almennur réttur til töku eftirlauna er við 65 ára aldur. Virkum sjóðfélaga er þó heimilt að hefja töku lífeyris fyrr ef samanlagður lífaldur og greiðslutími til sjóðsins er 95 ár eða meira (95 ára reglan) en þó aldrei fyrir 60 ára aldur.
Lífeyrir reiknast sem hlutfall af launum við starfslok en í ákveðnum tilvikum sem hlutfall af launum vegna 10 ára starfsaldurs í hærra launuðu starfi. Lífeyrisgreiðslur breytast í takt við þróun dagvinnulauna hjá opinberum starfsmönnum, annað hvort hjá eftirmanni í starfi eða samkvæmt vísitölu sem Hagstofa Íslands gefur út mánaðarlega og mælir breytingar sem verða á dagvinnulaunum opinberra starfsmanna. Á árinu 2024 hækkaði vísitalan um 5,4% en hækkunin árið á undan var 9,8%.
Lífeyrisgreiðslur B-deildar námu 76,2 ma.kr. og jukust um 6,1% á milli ára. Alls fengu 21.542 lífeyrisþegar greiðslur á árinu en meðalfjöldi þeirra sem fékk mánaðarlegar greiðslur var 18.984. Á liðnu ári hófu 1.152 sjóðfélagar töku eftirlauna samanborið við 1.193 árið áður.
Meðalaldur lífeyrisþega í árslok var 75,7 ár, reiknað án þeirra sem fá greiddan barnalífeyri.
Lífeyrisgreiðslur
2024 | 2023 | Breyting | |
Eftirlaun | 65.442 | 61.566 | 6,3% |
Örorkulífeyrir | 1.092 | 1.128 | -3,2% |
Makalífeyrir | 9.612 | 9.077 | 5,9% |
Barnalífeyrir | 4 | 4 | -10,1% |
Samtals | 76.151 | 71.776 | 6,1% |
Fjárhæðir eru í milljónum kr.
Fjöldi lífeyrisþega
2024 | 2023 | Breyting | |
Eftirlaun | 17.342 | 16.925 | 2,5% |
Örorkulífeyrir | 1.091 | 1.153 | -5,4% |
Makalífeyrir | 3.045 | 3.033 | 0,4% |
Barnalífeyrir | 64 | 70 | -8,6% |
Samtals | 21.542 | 21.181 | 1,7% |
Meðalfjárhæð árlegra lífeyrisgreiðslna
2024 | 2023 | Breyting | |
Eftirlaun | 3.774 | 3.638 | 3,7% |
Örorkulífeyrir | 1.001 | 979 | 2,3% |
Makalífeyrir | 3.157 | 2.993 | 5,5% |
Barnalífeyrir | 59 | 60 | -1,7% |
Heildarmeðaltal | 3.535 | 3.389 | 4,3% |
Fjárhæðir eru í þúsundum kr.
Af þeim 76,2 ma.kr. sem greiddur var í lífeyri úr B-deild á síðasta ári voru 32,7 ma.kr. fjármagnaðir með greiðslum frá launagreiðendum til sjóðsins. Samkvæmt lögum um LSR er launagreiðendum í B-deild skylt að standa straum af þeim hluta lífeyris sem tilkominn er vegna hækkunar á áður úrskurðuðum lífeyri fyrrum starfsmanna sinna, svokallaðar lífeyrishækkanir. LSR stendur skil á öllum áunnum réttindum til lífeyrisþega en sjóðurinn eignast kröfu á launagreiðendur sem nemur lífeyrishækkuninni.
Hlutfall launagreiðenda í lífeyrisgreiðslum var 42,9% á árinu 2024 en var 42,6% árið áður. Slík hækkun á milli ára er eðlileg í ljósi þess að hlutur launagreiðanda í lífeyrisgreiðslu lífeyrisþegans fer hækkandi því lengur sem lífeyrisþeginn er á lífeyri þar sem allar hækkanir eftir lífeyristöku eru greiddar af viðkomandi launagreiðanda.
Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt er gert ráð fyrir að þetta hlutfall fari því áfram vaxandi í framtíðinni og verði að meðaltali 55,7% frá ársbyrjun 2024 þar til síðasta greiðsla úr sjóðnum er innt af hendi.
Skuldbindingar
Tryggingafræðileg staða B-deildar er reiknuð í samræmi við ákvæði 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Útreikningurinn er gerður af tryggingastærðfræðingi hjá Talnakönnun hf. sem hefur til þess tilskilda staðfestingu frá Fjármálaeftirlitinu og starfar sjálfstætt utan sjóðsins.
Athugun á tryggingafræðilegri stöðu hefur þann tilgang að meta eignir á móti þeim skuldbindingum sem felast í áunnum réttindum og framtíðarréttindum sjóðfélaga til lífeyris. Skuldbindingin er útreiknuð fjárhæð sem endurspeglar loforð til sjóðfélaga um lífeyrisgreiðslur í framtíðinni.
B-deild á eignir til að mæta 20,2% af áfallinni skuldbindingu en því til viðbótar á hún kröfu á launagreiðendur vegna hlutdeildar í lífeyrisgreiðslum og kröfu á ríkissjóð vegna bakábyrgðar á skuldbindingum. Að teknu tilliti til þessara krafna eru eignir og skuldbindingar B-deildar í jafnvægi. Vegna aukins útflæðis hefur gengið hratt á eignir deildarinnar en fyrir tíu árum síðan námu þær 35,5% af skuldbindingum.
Skuldbinding B-deildar samanstendur af áfallinni skuldbindingu annars vegar, sem miðast við þau réttindi sem sjóðfélagar hafa þegar áunnið sér miðað við síðustu áramót, og hins vegar við þau réttindi sem áætlað er að sjóðfélagar muni ávinna sér í framtíðinni fram að töku eftirlauna. Einungis 1,0% af heildarskuldbindingu B-deildar eru vegna réttinda sem sjóðfélagar eiga eftir að ávinna sér í framtíðinni, þannig að stærsti hluti af skuldbindingunni er þegar kominn fram sem áfallin skuldbinding.
Áfallin skuldbinding B-deildar var 1.172 ma.kr. í árslok 2024 og hækkaði um 5,5 ma.kr. á milli ára eða 0,5%. Áfallin staða B-deildar var -79,8% í árslok 2024 en hún var -79,5% árið áður. Hlutfallsleg staða sjóðsins versnar því lítillega á milli ára og skýrist það af nokkrum þáttum. Sú vísitala sem mælir breytingar á dagvinnulaunum opinberra starfsmanna hækkaði um 5,4% á árinu 2024 en hækkun dagvinnulauna hefur bein áhrif á skuldbindingar sjóðsins. Á sama tíma var nettó útflæði úr sjóðnum 34,4 ma.kr. á árinu 2024 sem kemur til lækkunar á eignum. Á móti þessum þáttum vegur að nafnávöxtun var 13,8% á árinu 2024 sem er vel umfram hækkun skuldbindinga. Þá voru lífeyrisgreiðslur ársins 76,2 ma.kr. sem koma til lækkunar á skuldbindingu. Þessir þættir vógu hvorn annan upp og gerðu það að verkum að skuldbindingar B-deildar hækkuðu eins og áður sagði einungis um 0,5% á síðasta ári.
Fjármögnun áfallinnar skuldbindingar í árslok 2024
Í m.kr. | Hlutdeild | Uppsöfnuð % | |
Hrein eign til greiðslu lífeyris | 233.167 | 19,9% | 19,9% |
Endurmat á verðbréfaeign | 3.435 | 0,3% | 20,2% |
Krafa á launagreiðendur vegna lífeyrishækkana | 652.584 | 55,7% | 75,9% |
Krafa á ríkissjóð vegna bakábyrgðar | 282.827 | 24,1% | 100,0% |
Áfallin skuldbinding samkv. tryggingafrl. úttekt | 1.172.013 | 100,0% |
Gerð er nánari grein fyrir skuldbindingum B-deildar í ársreikningi, bæði í sérstöku yfirliti og í skýringarliðum nr. 14 og 15.
Hlutdeild launagreiðenda í skuldbindingum og bakábyrgð ríkissjóðs
Samkvæmt lögum um LSR á B-deild kröfu á hendur launagreiðendum vegna lífeyrishækkana, sem er sá hluti lífeyris sem er umfram fyrstu greiðslu lífeyris. Hafi lífeyrisþegi unnið hjá fleiri en einum launagreiðanda skiptist greiðslan hlutfallslega miðað við áunnin réttindi hjá hverjum launagreiðanda fyrir sig.
Sá hluti skuldbindinga sem launagreiðendur eiga að standa undir í formi lífeyrishækkana er metinn 652,6 ma. kr. í árslok 2024 eða um 55,7% af áfallinni skuldbindingu. Krafa á launagreiðendur vegna lífeyrishækkana er tilgreind sem eign utan efnahags í ársreikningi og hún sett fram sem skýring við efnahagsreikning.
Krafa á launagreiðendur vegna lífeyrishækkana jókst um 5,3 ma.kr. milli ára eða 0,8%. Hækkun á hlutdeild launagreiðenda í lífeyrisgreiðslum er m.a. afleiðing af launahækkunum. Þá hefur það einnig áhrif á hlutdeild launagreiðanda hversu langt er síðan taka lífeyris hófst, þar sem launagreiðandi greiðir allar hækkanir sem verða umfram fyrstu greiðslu lífeyris til sinna fyrrverandi starfsmanna. Hlutfall launagreiðanda í lífeyrisgreiðslum fer því hækkandi eftir því sem tíminn líður frá upphafsdegi lífeyristöku.
Réttindakerfi B-deildar er að hluta til byggt upp sem gegnumstreymiskerfi og að hluta með sjóðsöfnun. Þau réttindi sem sjóðfélagar ávinna sér eru mun meiri en hægt er að standa undir með 12% iðgjaldi. Vegna lokunar B-deildar fyrir nýjum sjóðfélögum og uppbyggingar réttindakerfis sjóðsins liggur fyrir að eignir munu klárast áður en skuldbindingar verða greiddar að fullu. Eftir að sjóðnum var lokað hafa lífeyrisgreiðslur verið margfalt hærri en hefðbundnar iðgjaldagreiðslur og hefur stærstur hluti af eignamyndun eftir lokun sjóðsins verið tilkominn vegna ávöxtunar, aukagreiðslna ríkissjóðs og uppgjörs á skuldbindingum. Þegar B-deild getur ekki lengur innt af hendi lífeyrisgreiðslur með tekjum sínum og eignum mun reyna á bakábyrgð ríkissjóðs.
Áfallin bakábyrgð ríkissjóðs gagnvart B-deild var í árslok 2024 metin 282,8 ma.kr. eða 24,1% af áfallinni skuldbindingu sjóðsins. Á súluritinu hér fyrir ofan má sjá hvernig bakábyrgð ríkissjóðs hefur þróast undanfarin tíu ár og hvaða áhrif aukagreiðslur ríkissjóðs hafa haft. Bakábyrgðarkrafa á ríkissjóð vegna B-deildar hækkaði um 1,1% á árinu 2024. Hækkun á bakábyrgðarkröfu skýrist m.a. af því að lífeyrisgreiðslur eru talsvert umfram innflæði í sjóðinn og gengur því hratt á eignir hans. Þá hækkaði sú vísitala sem lífeyrisgreiðslur og skuldbindingar þróast eftir um 5,4% á árinu 2024. Hvoru tveggja kemur til hækkunar á bakábyrgð ríkissjóðs. Aukagreiðslur ríkissjóðs á árinu 2024 koma aftur á móti til lækkunar á bakábyrgð ásamt góðri ávöxtun eigna á árinu 2024.
Innborganir ríkissjóðs inn á skuldbindingar
Þegar B-deild var lokað fyrir nýjum sjóðfélögum árið 1997 var ljóst að eignir myndu klárast áður en skuldbindingar hefðu verið greiddar að fullu. Uppsöfnuð áunnin réttindi sjóðfélaga B-deildar voru þá þegar orðin mikil en þau áttu eftir að koma til útgreiðslu í formi lífeyris á næstu 70 árum. Á árinu 1999 byrjaði ríkissjóður að greiða aukalega til B-deildar með það að markmiði að dreifa greiðslum sínum vegna bakábyrgðar yfir lengri tíma. Hlé var gert á þessum greiðslum árið 2009 en þær hófust aftur á árinu 2017. Síðastliðin átta ár hafa aukagreiðslur úr ríkissjóði numið samtals 75 ma.kr. en þar af voru 8 ma.kr. greiddir á árinu 2024. Án aukagreiðslna hefði bakábyrgð ríkissjóðs verið 516,0 ma.kr. í árslok 2024.
Til viðbótar við framangreindar aukagreiðslur hefur ríkissjóður greitt viðbótariðgjöld til B-deildar en þau námu 325 m.kr. á árinu 2024. Alls greiddi ríkissjóður því 8,3 ma.kr. aukalega til sjóðsins á árinu 2024.
Við útgreiðslu lífeyris hefur fyrst verið gengið á aðrar eignir en þær sem ríkissjóður hefur greitt aukalega til B-deildar. Aðrar eignir B-deildar voru uppurnar í nóvember 2015 og ef engar aukagreiðslur hefðu komið frá ríkissjóði hefðu allar greiðslur til lífeyrisþega þurft að koma úr ríkissjóði frá þeim tímapunkti. Frá nóvember 2015 hafa 289,8 ma.kr. af aukagreiðslum ríkissjóðs til B-deildar ásamt ávöxtun verið nýttir til að greiða sjóðfélögum lífeyri.
Framtíðarsjóðstreymi
Reiknaðar hafa verið þær greiðslur sem B-deild þarf að greiða lífeyrisþegum í framtíðinni vegna réttinda sem þeir hafa áunnið sér og koma til með að ávinna sér fram að töku lífeyris. Á móti lífeyrisgreiðslum fær B-deild lífeyrishækkanirnar frá launagreiðendum. Þegar eignir til greiðslu lífeyris verða uppurnar mun B-deild fá greiðslur frá ríkissjóði vegna bakábyrgðar. Miðað við fast verðlag náðu lífeyrisgreiðslur sjóðsins hámarki á árinu 2024. Greiðslur launagreiðenda vegna lífeyrishækkana verða hins vegar í hámarki árin 2029 og 2030 en þær vega mun þyngra í framtíðarsjóðstreyminu en greiðslur vegna bakábyrgðar. Hlutdeild launagreiðenda í lífeyrisgreiðslum hefur farið vaxandi undanfarin ár en hún var 42,9% á árinu 2024. Gert er ráð fyrir að hlutur launagreiðanda haldi áfram að hækka til framtíðar og hlutfallið verði að meðaltali 55,7% út líftíma sjóðsins.
Aukagreiðslur ríkissjóðs hafa styrkt fjárhagsstöðu B-deildar verulega og án þeirra hefði sjóðurinn klárað sínar eignir á árinu 2015. Uppsafnaðar aukagreiðslur ásamt ávöxtun þeirra út árið 2024 hafa hins vegar náð að lengja líftíma sjóðsins fram á árið 2031. Þetta þýðir að án frekari aukagreiðslna úr ríkissjóði eftir árslok 2024 þarf ríkissjóður frá og með árinu 2031 að öllu óbreyttu að standa að fullu undir greiðslu lífeyris úr B-deild. Samkvæmt sjóðstreymisgreiningu yrðu greiðslur ríkissjóðs vegna bakábyrgðar að meðaltali 27,2 ma.kr. á ári frá árinu 2031 og næstu fimm árin eftir að B-deild tæmist, miðað við verðlag í árslok 2024, en færu svo lækkandi. Á sama tíma munu greiðslur til B-deildar vegna hlutdeildar launagreiðenda í lífeyrisgreiðslum nema 34,6 mö.kr. á ári að meðaltali en stærstur hluti þeirrar fjárhæðar kemur úr ríkissjóði. Á sviðsmynd hér fyrir ofan er framtíðargreiðsluflæði B-deildar sýnt án frekari aukaframlaga frá ríkissjóði.
Til þess að tryggja að B-deild geti staðið við skuldbindingar sínar á hverjum tíma með eignum sínum þyrftu árlegar aukagreiðslur frá ríkissjóði að vera að meðaltali 16,3 ma.kr. á ári næstu 20 árin miðað við verðlag í árslok 2024. Samkvæmt fjárlögum er áformað að greiða 10,4 ma.kr. til B-deildar á árinu 2025. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkissjóðs til næstu 5 ára er gert ráð fyrir að aukagreiðslum til sjóðsins verði haldið áfram. Áframhaldandi aukagreiðslur bæta stöðu B-deildar og fresta þeim tímapunkti að sjóðurinn tæmist.