Fara á efnissvæði
Eignir og markaðir

Eignasafn

Eignasafn LSR 2024

1.557

ma.kr.

A-deild

1.291

ma.kr.

B-deild

235

ma.kr.

Séreign

31

ma.kr.

Skuldabréf

621

ma.kr.

Hlutabréf

880

ma.kr.

Innlán

56

ma.kr.

Í árslok 2024 stóð samanlagt eignasafn LSR í 1.557 mö.kr. sem er aukning um 152,6 ma.kr. frá fyrra ári. Eignasafn sjóðsins hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og þar af hefur vöxturinn síðustu fimm ár verið um 540 ma.kr. Skiptingu eignasafnsins í árslok 2024 má sjá hér fyrir neðan.

Skipting eignasafns 2024

Eignasafn eftir deildum 2024

Hlutfall hlutabréfa og skuldabréfa í eignasafni LSR endurspeglar þann áhættuvilja sem sjóðurinn hefur markað sér. Erlendar fjárfestingar hafa farið vaxandi á undanförnum árum og styðja við eigna- og áhættudreifingu í eignasafni sjóðsins, enda safnið stórt í samanburði við íslenska hagkerfið.

Við stýringu eigna er leitast við að hafa dreifingu í eignasafninu sem mesta, með hagkvæmasta samvali verðbréfa og með hliðsjón af landsvæðum, atvinnugreinum, útgefendum og gjaldmiðlum. Jafnframt er tekið tillit til UFS-þátta, þ.e. umhverfislegra þátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta við mat á fjárhagslegri áhættu fjárfestingarkosta í samræmi við fjárfestingarstefnu, eigendastefnu og sjálfbærnistefnu sjóðsins.

Hlutfall eigna í erlendri mynt

LSR í heild

46,9%

A-deild

48,6%

B-deild

40,5%

Séreign

23,1%

Hlutfall verðtryggðra eigna

LSR í heild

31,7%

A-deild

31,3%

B-deild

36,4%

Séreign

55,9%

Svartsengi

Fjárfestingar ársins

Fjárfestingar LSR

30,8

ma.kr.

A-deild

57,8

ma.kr.

B-deild

-27,1

ma.kr.

Séreign

0,3

ma.kr.

Á árinu 2024 keypti LSR verðbréf og veitti lán fyrir tæplega 31 ma.kr. að teknu tilliti til seldra bréfa og uppgreiddra lána. Fjárfestingarstefna einstakra deilda sjóðsins tekur mið af eðli og umfangi fjárstreymis þeirra. A-deild sjóðsins er tiltölulega ung og nýtur þess að iðgjaldagreiðslur eru umtalsvert hærri en lífeyrisgreiðslur, sem leiðir til jákvæðs greiðsluflæðis. B-deild, sem er eldri og lokuð fyrir nýjum sjóðfélögum, býr við neikvætt greiðsluflæði. Af þeim sökum er nauðsynlegt að selja eignir úr eignasafni B-deildar til að mæta reglubundnum lífeyrisgreiðslum.

Skuldabréf

LSR í heild

29,6

ma.kr.

A-deild

31

ma.kr.

B-deild

-1,7

ma.kr.

Séreign

0,3

ma.kr.

Kaup á innlendum skuldabréfum á árinu námu 23,6 mö.kr. að teknu tilliti til sölu og uppgreiðslna. Útlán til sjóðfélaga námu 7,4 mö.kr. að frádregnum uppgreiddum lánum. Fjárfesting í erlendum skuldabréfasjóðum nam 6,1 ma.kr. á árinu.

Hlutabréf

LSR í heild

7,3

ma.kr.

A-deild

32,8

ma.kr.

B-deild

-25,4

ma.kr.

Séreign

-0,1

ma.kr.

Fjárfestingar í innlendum hlutabréfum og sérhæfðum sjóðum námu 7,6 ma.kr. og þar af voru 6 ma.kr. í skráðum og óskráðum félögum. A-deild fjárfesti fyrir 22 ma.kr. í erlendum hlutabréfasjóðum og innköllunum í sérhæfða sjóði, á meðan B-deild dró úr eignarhlut sínum.

Nettófjárfestingar

(m.kr.)


Verðbréfasafn

Siglufjordur

Innlend skuldabréf

Innlent skuldabréfasafn 2024

582

ma.kr.

Nafnávöxtun

8,5%

Raunávöxtun

3,5%

Innlent skuldabréfasafn LSR er vel dreift á ólíka skuldabréfaflokka, bæði verðtryggð og óverðtryggð skuldabréf, en stærstu flokkarnir eru skuldabréf með ríkisábyrgð, útlán til sjóðfélaga og fyrirtækjaskuldabréf.

Skuldabréfasafn í árslok

Árið 2024 einkenndist af miklum sveiflum á skuldabréfamarkaði meðal annars vegna meiri verðbólgu en búist var við. Þrátt fyrir sveiflurnar endaði markaðurinn á svipaðri ávöxtunarkröfu og í upphafi ársins. Þar af leiðandi skilaði skuldabréfasafnið ásættanlegri ávöxtun í gegnum vaxtagreiðslur og verðbætur.

Útflutningsgreinarnar lentu í lítilsháttar mótvindi sem m.a. má rekja til loðnubrests og breytts neyslumynsturs erlendra ferðamanna, sem dvöldu skemur en áður og drógu úr neyslu þó fjöldinn hafi verið innan væntinga spáaðila. Þrátt fyrir þessa áskorun endurspeglaðist styrkur íslenska hagkerfisins í því hversu stöðugt raungengi krónunnar hélst, enda voru horfur til meðallangs- og langs tíma ekki breyttar. Álverð hélst stöðugt yfir langtímameðaltali yfir árið og væntingar standa til þess að laxeldi og nýsköpunar- og lyfjaiðnaður muni styðja enn frekar við útflutning á komandi misserum. 

Þróun ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisskuldabréfa (RIKB) á árinu

Kaupmáttur og sparnaður heimila hefur vaxið mikið síðustu ár samhliða litlu atvinnuleysi á sama tíma og ríkisútgjalda- og raunvaxtaaðhald hefur ekki dregið nægjanlega úr eftirspurn. Slíkt samspil eykur verðbólgu sem verður óviðráðanlegri án aðgerða. Þá leiddu uppkaup ríkisins á eignum í Grindavík til óvænts eftirspurnarþrýstings á fasteignamarkaði. 

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti hægar en verðbólga gekk niður og jók raunvaxtaaðhald til að bregðast við þrautseigum verðbólguþrýstingi. Þar af leiðandi hafa raunvaxtavæntingar haldist hærri en búist var við og olli það töluverðum sveiflum á verðbréfamörkuðum á árinu. 

Þróun ávöxtunarkröfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa (RIKS) á árinu

Verðbólgan lækkaði úr 6,7% í 4,8% á árinu en meginvextir Seðlabankans lækkuðu úr 9,25% í 8,5%. Ávöxtunarkrafa stysta verðtryggða ríkisbréfaflokksins hækkaði um rúmt 1 prósentustig á meðan önnur ríkisskuldabréf breyttust smávægilega. Verðtryggð útlánakjör bankastofnana hækkuðu skarpt en búast má við að raunvextir hafi náð hámarki. Líklegt er að þeir haldist hlutfallslega háir næstu misserin þrátt fyrir að meginvextir Seðlabankans muni lækka samhliða lægri verðbólgu. Sú staða mun áfram draga úr kaupmætti og þrótti hagkerfisins. 

Hagvöxtur lækkaði frá árinu 2023 úr 4,1% í 2,1% á árinu 2024 en atvinnuleysi jókst einungis lítillega og er nú 3,8%. Vísitala verðtryggðra viðmiðunarskuldabréfa (NOMXIREAL) hækkaði um 7,1% árinu og vísitala óverðtryggðra viðmiðunarskuldabréfa (NOMXINOM) hækkaði um 7,4%.

Tíu stærstu útgefendur í safni innlendra skuldabréfa í árslok

Útgefendur m.kr. Hlutfall
Íbúðalánasjóður 93.491 16,1%
Ríkissjóður Íslands 78.128 13,4%
Lánasjóður íslenskra námsmanna 55.923 9,6%
Íslandsbanki hf. 21.478 3,7%
Reitir fasteignafélag hf. 17.514 3,0%
Landsbankinn hf. 17.152 2,9%
Heimar hf. 15.935 2,7%
Lánasjóður sveitarfélaga ohf. 14.769 2,5%
Reykjavíkurborg 13.706 2,4%
Eik fasteignafélag hf. 10.647 1,8%

Innlend hlutabréf

Reykjavik

Innlent hlutabréfasafn 2024

236,6

ma.kr.

Nafnávöxtun

18,8%

Raunávöxtun

13,3%

Fjöldi félaga og sérhæfðra sjóða

66

Innlendu hlutabréfasafni LSR er vel dreift á flestar atvinnugreinar landsins. Innlend hlutabréf í eignasafni LSR námu 236,6 mö.kr. í lok árs 2024. Þau skiptast þannig að skráð bréf voru 190,6 ma.kr. og óskráð bréf og sérhæfðir sjóðir voru 46 ma.kr. 

Innlend skráð hlutabréf

Safn skráðra innlendra hlutabréfa, sem nam 190,6 mö.kr. í árslok, hækkaði að nafnvirði um 21,3%. Til samanburðar hækkaði heildarvísitalan OMXIGI um 14,7% og OMXI15 vísitalan, sem endurspeglar 15 veltumestu félögin í kauphöllinni, hækkaði um 18,8%. Þau félög sem skiluðu hæstu ávöxtun á árinu í safni sjóðsins voru Kaldalón hf., Alvotech S.A. og Amaroq Ltd.

Innlendur hlutabréfamarkaður hefur gengið í gegnum miklar sveiflur á tímum verðbólgu og hækkandi stýrivaxta. Árið 2024 hófst á jákvæðum nótum á fyrsta fjórðungi áður en harðna tók á dalnum. Væntingar markaðsaðila um aukið framboð á markaði vegna sölu á Íslandsbanka og meira raunvaxtaaðhald Seðlabankans en búist var við juku á svartsýni hjá fjárfestum þegar líða tók á árið.

Stærstu útgefendur í safni innlendra hlutabréfa

Útgefendur m.kr. Hlutfall
Brim hf. 24.500 11,2%
Arion banki hf. 22.223 10,2%
JBT Marel Corporation 19.171 8,8%
Íslandsbanki hf. 18.860 8,7%
Hagar hf. 15.650 7,2%
Festi hf. 11.389 5,2%
Kvika banki hf. 9.333 4,3%
Alvotech S.A. 8.533 3,9%
Reitir fasteignafélag hf. 8.026 3,7%
Embla Medical hf. 7.863 3,6%

Þróun OMXIGI og OMX15GI á árinu

- hlutabréfavísitölur

Þrátt fyrir miklar sveiflur, óvissu og neikvæða ávöxtun framan af ári reyndist grunnrekstur innlendra rekstrarfélaga vera sterkur, enda skilaði hagkerfið góðum hagvexti á árinu 2024 eða um 2,1%. Undirliggjandi verðlagning markaðarins var hagstæð að mati eignastýringar LSR á sumarmánuðum og því ánægjulegt að sjá skarpan viðsnúning á seinni hluta ársins, annað árið í röð. 

Frestun á sölu Íslandsbanka og auknar væntingar um að samruni Marel og JBT gengi í gegn, sem myndi skila innlendum fjárfestum tugum milljarða í lausafé, studdi við markaðinn. Að auki byrjuðu fjárfestar að auka áhættu líkt og gerist almennt í aðdraganda og framkvæmd vaxtalækkunarferlis. Hækkanir voru hvoru tveggja drifnar áfram af nýjum vaxtarfélögum og rótgrónum rekstrarfélögum og má bæði rekja þær til sterkrar afkomu og undirverðlagningar á markaði.

Innlendar sérhæfðar fjárfestingar og önnur óskráð bréf

Sérhæfðir sjóðir

18,8

ma.kr.

Óskráð bréf

27,2

ma.kr.

Eignarhlutir í hlutafélögum, öðrum en skráðum hlutafélögum, námu 46 mö.kr. í lok árs. Undir sérhæfða sjóði í safni LSR falla aðallega framtakssjóðir og nýsköpunarsjóðir. Fjárfestingarnar eru oft á áskriftarformi þar sem kölluð eru inn áskriftarloforð á fjárfestingartíma sjóðanna. 

Framtakssjóðir fjárfesta í óskráðum félögum á mismunandi fjárfestingarstigum með það meginmarkmið að auka virðissköpun og vöxt þeirra félaga sem fjárfest er í. Nýsköpunarsjóðir fjárfesta í félögum á fyrstu árum starfsemi þeirra. Slíkir sjóðir falla undir við eitt af þeim Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem LSR hefur tileinkað sér í sjálfbærnistefnu sinni, nánar tiltekið markmið númer 9 sem gengur út á að hlúa að nýsköpun og stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu.  


Erlend hlutabréf

London

Erlent hlutabréfasafn 2024

643,4

ma.kr.

Nafnávöxtun

14,9%

Raunávöxtun

9,6%

Fjöldi verðbréfa- og sérhæfðra sjóða

80

Erlend skráð hlutabréf

Erlent skráð hlutabréfasafn LSR, sem var 519,6 ma.kr. í árslok, skilaði 16,6% nafnávöxtun á árinu í krónum talið. LSR er í samstarfi við eignastýringaraðila um ávöxtun fjármuna sjóðsins á erlendum verðbréfamörkuðum. Við val á þeim er horft til margra þátta, m.a. fjárfestingarstefnu og aðferðafræði, áhættudreifingar, reynslu, árangurs, kostnaðar og sjálfbærniviðmiða stýringaraðilanna. LSR fjárfestir bæði í vísitölusjóðum og sjóðum sem beita virkri stýringu við val á eignum og leggur áherslu á góða dreifingu í verðbréfasafni sjóðsins. 

Ávöxtun sjóðsins var ágæt samanborið við alþjóðamarkaði. Alheimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 19,2% en hún tekur tillit til hlutabréfa í nýmarkaðsríkjum og endurspeglar því vel erlent hlutabréfasafn LSR.

Þróun hlutabréfavísitalna á heimsvísu með arði (USD)

Skalað gengi

Ávöxtun hlutabréfa var góð á árinu þar sem stóru tæknifyrirtækin í Bandaríkjunum héldu áfram að knýja ávöxtun hlutabréfamarkaða, byggt á væntingum um þróun og nýsköpun í gervigreind. Ávöxtun á heimsmarkaði hefur verið misskipt undanfarin misseri þar sem bandarískir hlutabréfamarkaðir eru hærra verðlagðir en aðrir stórir hlutabréfamarkaðir og það hallar á verðlagningu minni félaga í samanburði við stærri. 

Birtingarmynd þeirrar þróunar var að bandaríska hlutabréfavísitalan S&P500 hækkaði um 25,1% en sama vísitala þar sem öll félög eru jafnvigtuð hækkaði aðeins um 12,6%. Á sama tíma hækkaði Evrópuvísitala aðeins um 3,8% og nýmarkaðsvísitala um 9,1% í krónum talið. Samþjöppun í heimsvísitölu hlutabréfa, sem þegar var orðin mikil, hélt áfram að aukast á árinu meðan stærstu félögin héldu áfram að vaxa umfram markaðinn. Við uppbyggingu erlends hlutabréfasafns LSR er tekið tillit til áhættudreifingar og skýrist frávik í ávöxtun safnsins frá heimsvísitölu að langmestu leyti af því hversu fá fyrirtæki drifu áfram ávöxtun heimsvísitölunnar á árinu.

Þróun gengisvísitölu krónunnar á árinu

Verðbólga erlendis hélt áfram að minnka á árinu en reyndist þrálát og gekk hægt að koma henni niður í markmið helstu seðlabanka heims. Af verðlagningu áhættusamra eigna að dæma virtust fjárfestar bjartsýnir á að verðbólgan myndi sigla niður í markmið og að langtímavextir myndu lækka samhliða því. Greiningaraðilar voru hins vegar flestir á því að mesta óvissan væri um þá forsendu og gæti verðlagning á markaði verið viðkvæm fyrir breytingu í jákvæðum væntingum fjárfesta um verðbólgu og vaxtastig.

Fyrstu níu mánuði ársins var nafnávöxtun erlendra hlutabréfa há og náðist þar fram ávöxtun ársins en á síðasta ársfjórðungi ársins lækkuðu markaðir lítillega. Miklar vendingar urðu í alþjóðlegum stjórnmálum á síðari hluta ársins þar sem Donald Trump sigraði forsetakosningar í BNA í byrjun nóvember og boðaði margvíslegar breytingar sem geta haft víðtæk áhrif á heimsmarkaði. Verðsveiflur á síðasta fjórðungi ársins má m.a. rekja til óvissu fjárfesta vegna þessara vendinga.

Stærstu rekstraraðilar í safni erlendra skráðra hlutabréfa í árslok

Rekstraraðilar m.kr. Hlutfall
Vanguard Group 75.429 14,5%
State Street Global Markets 64.656 12,4%
Morgan Stanley  63.526 12,2%
Storebrand Asset Management AS 62.620 12,1%
Wellington Management Company 50.916 9,8%
T.Rowe Price 42.759 8,2%
MFS Investment Funds 39.172 7,5%
JP Morgan Asset Management 25.994 5,0%
Seilern Investment Management 19.805 3,8%
GuardCap Asset Management 19.330 3,7%

Erlendir sérhæfðir sjóðir

Erlendir sérhæfðir sjóðir eru sjóðir á áskriftarformi sem kalla inn fjármuni á fjárfestingatíma sjóðanna. Sjóðirnir fjárfesta á heimsvísu og undir erlenda sérhæfða sjóði í safni LSR falla aðallega framtakssjóðir og innviðasjóðir. Erlendir sérhæfðir sjóðir í safni LSR fjárfesta í óskráðum félögum á mismunandi fjárfestingastigum, þó aðallega meðalstórum og stórum félögum, í því augnamiði að auka við vöxt og virðissköpun félaga á heimsvísu. 

Safn erlendra sérhæfðra fjárfestinga hjá LSR nam 123,8 mö.kr. í árslok. Safnið hefur farið stækkandi á undanförnum árum í A-deild. Aðstæður á mörkuðum óskráðra fjárfestinga hafa verið krefjandi þar sem seljanleiki undirliggjandi eigna sjóða hefur verið lítill og endurgreiðslur söluandvirðis til fjárfesta því lægra en annars hefði mátt vænta og ávöxtun lægri. Undir lok árs stóðu væntingar fjárfesta til þess að fleiri nýskráningar yrðu á mörkuðum sem myndi losa stífluna en þær væntingar hafa síðar dempast á ný. Virðismat framtakssjóða almennt endurspeglaði hins vegar betra umhverfi minni félaga á árinu, lækkandi fjármagnskostnað og væntingar um jákvæðan hagvöxt og áframhaldandi virðisaukningu.

Stærstu rekstraraðilar í safni erlendra sérhæfðra sjóða í árslok

Rekstraraðilar m.kr. Hlutföll
Morgan Stanley Investment Management 22.855 18,5%
KKR & Co. Inc. 13.707 11,1%
EQT Fund Managers 10.960 8,9%
New Mountain Capital, L.L.C. 10.057 8,1%
Partners Group AG 9.947 8,0%
Warburg Pincus LLC 9.797 7,9%
Blackstone Capital Partners L.P. 8.526 6,9%
AlpInvest Partners 7.657 6,2%
Carlyle Investment Management L.L.C 5.918 4,8%
LGT Capital Partners 5.460 4,4%

Erlend skuldabréf

Erlent skuldabréfasafn 2024

38,8

ma.kr.

Nafnávöxtun

7,2%

Raunávöxtun

2,3%

Erlent skuldabréfasafn LSR samanstendur af skráðum og óskráðum skuldabréfasjóðum sem fjárfesta í skuldabréfum og lánasjóðum þar sem megináhersla er á lán til fyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum.

Aðstæður á erlendum skuldabréfamörkuðum reyndust krefjandi á árinu þar sem nokkrar sveiflur urðu í ávöxtunarkröfu á markaði. Heimsvísitala skuldabréfa lækkaði lítillega í krónum talið og endurspeglaði það t.a.m. sveiflur í ávöxtunarkröfu ríkisbréfa í Bandaríkjunum. Ávöxtun sjóða sem fjárfesta í áhættumeiri hluta skuldabréfamarkaðarins var hins vegar betri, en þeir sjóðir nutu hás vaxtastigs á sama tíma og lítið var um greiðsluvandræði og endurheimtur því góðar. Segja má að erlendi skuldabréfamarkaðurinn hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar í upphafi árs og eru nú gerðar lægri væntingar til þess markaðar í ljósi aukinnar óvissu í heimshagkerfinu. Markaðurinn býður hins vegar upp á stór tækifæri til áhættudreifingar og með virkri stýringu má finna góð ávöxtunartækifæri í eignaflokknum.


Útlán til sjóðfélaga

Veitt lán á árinu

14.787

ma.kr.

Meðalfjárhæð veittra lána

20,2

m.kr.

Heildarfjárhæð lána í árslok

127.530

ma.kr.

Heildarfjárhæð veittra lána til sjóðfélaga

Fjöldi veittra lána til sjóðfélaga

Sjóðfélagalán stóðu í rúmum 127,5 ma.kr. í lok árs, sem er 3,6% hærra en árið áður. Veitt voru lán fyrir tæplega 15 ma. kr. á árinu, en það er lækkun um 9% frá árinu 2023. Veittum lánum fækkaði nokkuð á milli ára, því alls voru veitt 733 lán á árinu miðað við 790 lán árið á undan. Uppgreiðslur lána námu tæpum 7 ma.kr. sem er aðeins lægri fjárhæð en árið á undan þegar uppgreiðslur námu um 7,1 ma.kr. Á árinu var 920 m.kr. af séreignarsparnaði ráðstafað inn á fasteignalán hjá LSR.

Sjóðfélögum hjá LSR stendur til boða að taka óverðtryggð og verðtryggð lán. Á árinu voru 31,9% veittra lána óverðtryggð en 68,1% verðtryggð. Þetta er nokkuð svipað hlutfall og árið áður, en þá námu óverðtryggð lán 28,9% af heildarlánsfjárhæð en verðtryggð lán 71,1%.

Veitt lán á árinu

  2024 2023 Breyting
Fjárhæð (m.kr.) 14.787 16.084 -8,1%
Fjöldi lána 733 790 -7,2%
Meðalfjárhæð (m.kr.) 20,2 19,6 3,5%

Þróun vaxta var mismunandi milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána á árinu. Þannig lækkuðu óverðtryggðir vextir sjóðfélagalána úr 9,9% í ársbyrjun í 9% við lok árs. Vextir verðtryggðra lána hækkuðu hins vegar á árinu, úr 4,1% í ársbyrjun í 4,5% í árslok. Allt árið 2024 voru sömu vextir á báðum verðtryggðu lánakostum LSR, en sjóðurinn býður annars vegar upp á verðtryggð lán með föstum vöxtum út allan lánstímann og hins vegar verðtryggð lán með vöxtum sem eru endurskoðaðir á þriggja ára fresti.

Hlutfall lána í vanskilum hefur verið lágt síðustu ár og nam fjárhæð lána í vanskilum 0,44% af eftirstöðvum sjóðfélagalána í árslok 2024. 

Upplýsingar um vanskil

  2024 2023 Breyting
Uppgreiðsluvirði lána í 90 daga vanskilum (m.kr.) 524 222 136%
Hlutfall lána í 90 daga vanskilum 0,44% 0,18% 141%
Fjöldi lána í meira en 90 daga vanskilum í árslok 33 14 136%

 

LSR hefur lagt áherslu á sjálfvirkni í tengslum við lánsumsóknir. Þannig er hægt er að sækja rafrænt um lán hjá LSR á vef sjóðsins, tengjast sjálfvirku greiðslumati og undirrita fylgiskjöl lána með rafrænum hætti. Með aukinni sjálfvirkni leitast LSR við að einfalda lánsumsóknarferlið og bæta þjónustu við sjóðfélaga.

Lán í árslok

  2024 2023 Breyting
Heildarfjárhæð (m.kr.) 127.530 122.891 3,8%
Fjöldi lána 8.013 8.114 -1,2%
Meðalfjárhæð (m.kr.) 16 15 5,1%

Meðalfjárhæð veittra lána til sjóðfélaga

Útistandandi lán til sjóðfélaga