Fara á efnissvæði
Sjálfbærni

Sjálfbær LSR

LSR tileinkar sér ábyrga starfshætti, með vönduð vinnubrögð, fagmennsku og frumkvæði að leiðarljósi. Áherslur okkar í sjálfbærni eru sniðnar að þeim gildum sem sjóðurinn leitast eftir að fylgja, en með því sköpum við virði fyrir sjóðfélaga okkar og samfélag.

Sjálfbærnistefna LSR lýsir megináherslum sjóðsins varðandi sjálfbærni og hvernig sjóðurinn innleiðir þær áherslur í starfsemi sinni. Hvernig við uppfyllum þarfir núverandi kynslóða án þess að skerða þarfir komandi kynslóða og stuðlum um leið að jafnvægi milli hagvaxtar, umhverfis, félagslegrar velferðar og ábyrgra stjórnarhátta. 

Tekið er tillit til sjálfbærrar þróunar í starfsemi LSR en að mati sjóðsins hafa umhverfislegir þættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) áhrif á rekstur og samkeppnishæfni fyrirtækja. LSR leitast við að þau félög sem fjárfest er í leggi ríka áherslu á sjálfbærni og vinni ötullega að sjálfbærnimálum ásamt því að stuðla  að sjálfbærri nýtingu auðlinda sem samræmist langtímahagsmunum sjóðsins, sjóðfélaga og samfélagsins í heild. Tekið er mið af lögum og reglum er varða sjálfbærni ásamt því að fara eftir viðurkenndum alþjóðlegum stöðlum og mælikvörðum um upplýsingagjöf til að stuðla að áreiðanleika og gagnsæi. Allar uppfærslur á sjálfbærnitengdu efni eru lagðar fyrir stjórn sjóðsins og öllum sjálfbærnifrávikum frá stefnu sjóðsins er fylgt eftir af ábyrgðaraðilum sjálfbærni innan LSR. 

Viðskipti og virði

Umhverfislegir þættir

Snúa að því hvernig fyrirtæki gæta að umhverfislegum áhrifum í starfsemi sinni.

Félagslegir þættir

Snúa að því hvernig fyrirtæki koma fram við starfsfólk sitt, viðskiptavini, birgja og hagaðila.

Stjórnarhættir

Snúa að stjórnun fyrirtækja, innra eftirliti og réttindum hluthafa.


Aðferðafræði og verkferlar

LSR er ábyrgur langtímafjárfestir sem hefur það að markmiði að ná sem bestri ávöxtun á eignum sjóðsins. Við fjárfestingaákvarðanir eru áherslur LSR í sjálfbærnimálum hafðar til hliðsjónar, en leitast er við að fjárfestingar sjóðsins hafi jákvæð áhrif á umhverfislega og félagslega þætti eða miði að því að minnka neikvæð áhrif og bæta árangur til lengri tíma. Sjóðurinn hefur einnig markað sér stefnu um að leggja sérstaka áherslu á þrjú heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Út frá skilgreindu verklagi sjóðsins hafa verið mótaðar aðgerðir til að bregðast við mikilvægum áhrifum ásamt stýringu á helstu áhættuþáttum. LSR leitast við að hafa góða yfirsýn yfir starfsemi fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í, til að styrkja bæði stýringu eignasafns sem og stuðla að virku eignarhaldi. 

Verklagi sjóðsins má skipta upp í þrjá meginflokka, stýringu eignasafns, virkt eignarhald og upplýsingagjöf, en meginþætti hvers flokks má sjá hér fyrir neðan.

Stýring eignasafns

UFS-spurningalisti

UFS-mat (frá þriðja aðila)

UFS-áhættumat (atvinnugrein/tegund fjárfestinga)

Sjálfbærniskýrslur

Lagarammi

Alþjóðlegir staðlar og mælikvarðar

Skilgreindir verkferlar

Virkt eignarhald

Uppbyggileg samtöl

Mæting á hluthafafundi

Eftirfylgni með þróun UFS-mála

Áhættustýring

Sjálfbærniviðmót þriðja aðila við greiningu upplýsinga (yfirsýn/upplýsingar)

Upplýsingagjöf

Upplýsingagjöf um ráðstöfun atkvæða á hluthafafundum

Árangurstengd sjálfbærniskýrslugjöf

Alþjóðleg skýrslugjöf til UN-PRI og CIC

Upplýsingar á vef: UFS-greining eignasafns/einkunn og flokkun eigna

Aðildarfélög og virk þátttaka


Verkefni ársins

Ráðist var í fjölbreytt verkefni á sviði sjálfbærni innan LSR á árinu. Meðal helstu verkefna má nefna:

Uppfært mat á lagalegum ramma sjálfbærnimála kynnt fyrir stjórn

Framkvæmd á tvöfaldri mikilvægisgreiningu

Verkferlar við nýfjárfestingar skilgreindir

Verkferlar við eftirfylgni fjárfestinga skilgreindir

Sjálfbærnivinnustofur með eignastýringu LSR

UFS-spurningalistar vegna innlendra fjárfestinga uppfærðir m.t.t. áhættuþátta atvinnugreina

Greining gerð á fjármagnaðri losun innlends eignasafns (PCAF)

Dýpri úttekt á loftslagsáhættu sjóðsins


Umhverfislegir þættir

LSR leitast við að leggja sitt af mörkum til að draga úr vistspori sínu með markvissum aðgerðum. Sjóðurinn vill vera til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfismálum í rekstri og hafa þannig áhrif á nærumhverfi sitt og samfélagið í heild. Sjóðurinn rekur eina skrifstofu í Reykjavík og er starfsemin með þeim hætti að bein umhverfisáhrif af rekstri sjóðsins eru óveruleg. Þrátt fyrir að reksturinn sem slíkur sé ekki líklegur til að hafa skaðleg áhrif á umhverfið telur LSR mikilvægt að gæta að þessum áhrifum og er umhverfissjónarmiða gætt í hvívetna í rekstri LSR. Helstu umhverfisáhrif sjóðsins eru vegna fjárfestinga sjóðsins og útlána, og því miðast upplýsingagjöf sjóðsins við að upplýsa um áhrif, áhættur og tækifæri innan þess umfangs. 

Tvöföld  mikilvægisgreining

Á árinu 2024 var tvöföld mikilvægisgreining í fyrsta sinn framkvæmd hjá sjóðnum, en hún felur í sér mat á því hvaða sjálfbærniþættir skipta mestu máli fyrir starfsemi fyrirtækis út frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar fjárhagslegu mikilvægi, sem snýr að því hvernig sjálfbærniþættir hafa áhrif á rekstur, afkomu og verðmætasköpun fyrirtækisins, og hins vegar áhrifamikilvægi, sem metur hvernig starfsemi fyrirtækisins hefur áhrif á umhverfi, samfélag og hagsmunaaðila. 

Við framkvæmd greiningarinnar hjá LSR voru metin helstu áhrif, áhættuþættir og tækifæri sjóðsins. Unnið var út frá tvöföldu efnisviðmiðunum sem skilgreind eru í ESRS 1 og leiðbeiningum EFRAG. Fyrsta skrefið í að meta áhrif, áhættuþætti og tækifæri fól í sér kortlagningu á starfsemi LSR, virðiskeðju og hagaðilum. Áhrif, áhættuþættir og tækifæri voru metin með tilliti til gerð áhrifa (jákvæð/neikvæð), hvar áhrifin eiga sér stað (í eigin starfsemi/í virðiskeðju) ásamt því hvort um er að ræða raunveruleg áhrif eða hugsanleg áhrif. 

Loftslagsbreytingar, mannauður, samfélag, neytendur og endanotendur sem og viðskiptasiðferði voru þeir flokkar sem vógu hátt bæði við mat á fjárhagslegum áhrifum og áhrifamikilvægi. Niðurstöður mats fyrir þessa áhrifaþætti má sjá í töflunni hér fyrir neðan.

Niðurstöður tvöfaldrar mikilvægisgreiningar

Í töflunum hér fyrir neðan má svo sjá mat á helstu áhrifum, áhættu og tækifærum við starfsemina, ásamt mikilvægisgreiningu. 

Mat á áhrifum af starfsemi LSR

Áhrif, áhættur og tækifæri eru metin með tilliti til þess tímabils sem greiningin er framkvæmd. Skilgreind áhrif (jákvæð/neikvæð), hvar þau eiga sér stað (í eigin starfsemi/ í virðiskeðju) sem og hvort um er að ræða hugsanleg áhrif eða raunveruleg áhrif eru sérstaklega skoðuð og forgangsraðað eftir atvikum. Tekið er fram að ekki er um að ræða tæmandi lista en einblínt á þá þætti sem sjóðurinn og hagaðilar meta sem helstu áhrif, áhættur og tækifæri í tiltekinni greiningu. Unnið er sérstaklega með þessa þætti áfram.  Árlega eru þessi þættir endurskoðaðir og uppfærðir í samræmi við niðurstöður. 

Mikilvægisgreining

Umhverfisáhrif LSR

Á árinu var loftslagsáhættumat sjóðsins uppfært, þar sem skilgreind var helsta raunlæga áhætta og umbreytingaráhætta sjóðsins.

  • Raunlæg áhætta:
    Felur í sér beinar, áþreifanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, eins og t.d. tjón af völdum veðuröfga.
  • Umbreytingaráhætta:
    Snýr að þeim áskorunum sem fyrirtæki standa frammi fyrir við að laga sig að nýju regluverki, tækni og samfélagskröfum sem fylgja orkuskiptum og kolefnishlutleysi.

Eignasafn LSR var kortlagt út frá landsvæðum og atvinnugreinum til að meta helstu sjálfbærniáhættu ásamt því að framkvæmd var greining á fjármagnaðri losun LSR vegna fjárfestinga og útlána sjóðsins.

Kolefnislosun er flokkuð í þrjá flokka eftir umfangi:

  • Umfang 1 – bein losun gróðurhúsalofttegunda: 
    Innan þessa flokks er bein losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi. Þetta á t.d. við um farartæki í eigu starfseminnar og húsnæði.
  • Umfang 2 – óbein losun af orkunotkun:
    Öll óbein losun sem stafar af orkunotkun, t.d. kaup á hita og rafmagni.
  • Umfang 3 – önnur óbein losun:
    Öll önnur óbein losun sem á sér stað í virðiskeðjunni. Þetta eru t.d. losun frá aðkeyptri þjónustu og vöru, samgöngum starfsfólks og fjárfestingum. 

Niðurstöðu úr þeirri greiningu má finna í sjálfbærniuppgjöri. Þótt rekstur sjóðsins (umfang 1 og 2) hafi óveruleg umhverfisáhrif, er lögð áhersla á að gæta að þeim. Mestu umhverfisáhrifin eru innan umfangs 3, vegna fjárfestinga og útlána. Því beinist upplýsingagjöf sjóðsins að áhrifum, áhættu og tækifærum þar.

Greining á losun gróðurhúsalofttegunda við starfsemi LSR


Félagslegir þættir

LSR leggur áherslu á jafnrétti í starfsemi sinni og setur heilbrigt og öruggt starfsumhverfi í forgang. Í mannauðsstefnu sjóðsins er m.a. fjallað um ráðningar, starfslýsingar, vinnutíma, aðbúnað og vinnuumhverfi. Einnig er fjallað um endurmenntun, fræðslu og þjálfun, sem eru allt mikilvægir þættir í að efla og hvetja starfsfólk. 

Starfsánægjukönnun  
Árlega er framkvæmd starfsánægjukönnun meðal starfsfólks sjóðsins þar sem könnuð er starfsánægja út frá tilteknum matsflokkum. Niðurstöður eru nýttar í greiningu áhættumats meðal starfsfólks og gefur góða innsýn í starfsmannamál sjóðsins og hvar mætti gera úrbætur. Heildareinkunn LSR fyrir árið 2024 var 4,3 og helst óbreytt frá fyrra ári. 

Heildareinkunn úr starfsánægjukönnun LSR

4,3/5

2024

Kynjaskipting starfsfólks

2024

83% konur

17% karlar

2023

75% konur

25% karlar

Kynjaskipting stjórnenda

2024

57% konur

43% karlar

2023

57% konur

43% karlar

Sjóðurinn vinnur samkvæmt eigin jafnlaunastefnu en sjóðurinn skuldbindur sig til að greiða sömu laun og kjör fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni. 

Fræðsla

64

starfsmenn sóttu námskeið á árinu

42

námskeið haldin á árinu

16

námskeið sótt af öllu starfsfólki


Stjórnarhættir

Stjórn LSR hefur sett sér starfsreglur sem hún starfar eftir og er þeim ætlað að styðja við góða stjórnarhætti í starfsemi sjóðsins. Stjórnarmenn skulu haga störfum sínum í einu og öllu með hagsmuni sjóðsins að leiðarljósi og er í starfsreglunum kveðið á um að stjórnarmenn megi ekki gera ráðstafanir sem eru til þess að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra aðila eða á kostnað sjóðsins. Stjórn LSR og starfsfólk gera sér ljósa þá ábyrgð sem fylgir því að hafa umsjón með fjármunum sjóðsins. 

Í ábyrgðinni felst m.a. að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda, að hagsmunir sjóðfélaga séu í fyrirrúmi og að fjárfestingar sjóðsins byggi á góðu viðskiptasiðferði. Stjórn og starfsfólk skulu vinna gegn mútum, kúgun, fjársvikum og annarri spillingu. Lögð er áhersla á gagnsæi og heiðarleika í viðskiptum til að koma í veg fyrir hvers konar spillingu. LSR viðhefur góða stjórnarhætti, stuðlar að traustum samskiptum og leggur áherslu á hlutlægni, heilindi, gagnsæi og ábyrgð í starfsemi sjóðsins. 

Hagaðilar LSR og samskipti 

LSR vill viðhalda sterku sambandi og traustum tengslum við hagaðila sjóðsins. Því eiga sér stað regluleg samtöl þar sem leitast er við að fá innsýn í stöðu hagaðila, væntingar og þróun. Þetta gerir okkur kleift að samræma forgangsröðun sjóðsins, verkefni og verkferla með hagsmuni hagaðila okkar til hliðsjónar. Sjóðurinn er að jafnaði stór fjárfestir innan þeirra innlendu félaga sem hann fjárfestir í, þótt lagaskorður hindri að sjóðurinn fari yfir 20% hlutdeild í hverju félagi. Slíku eignarhaldi fylgir ábyrgð og horfir sjóðurinn til þess að hafa jákvæð áhrif í þeim félögum sem hann fjárfestir í, hvort heldur með beinni eða óbeinni aðkomu.