Fara á efnissvæði
Starfsemi

Starfsfólk

Í lok árs 2024 störfuðu 63 hjá LSR í 61 stöðugildi. Hjá LSR starfar fjölbreyttur hópur fólks hvort sem litið er til menntunar, þekkingar eða aldurs. Mikil þekking og starfsreynsla er á meðal starfsfólks en meðalaldur þess er um 45 ár og meðalstarfsaldur 7 ár. 

Sjóðurinn hefur sett sér mannauðsstefnu. Markmið hennar er m.a. að styrkja mannauð sjóðsins, laða til starfa hæfa einstaklinga og gefa þeim tækifæri til að nýta kunnáttu sína og frumkvæði í þágu sjóðfélaga. Stefnunni er jafnframt ætlað að vera hvatning fyrir starfsfólk og stjórnendur til að skapa faglegt, krefjandi, skemmtilegt og fjölskylduvænt vinnuumhverfi.

Aldur starfsfólks

Starfsaldur starfsfólks

Stuðlað er að heilsuvernd starfsfólks með skipulegum hætti, m.a. með þátttöku sjóðsins í íþróttaiðkun starfsmanna og reglulegri heilsufarsmælingu ásamt yfirferð á vinnuaðstöðu. Þá hefur LSR sett sér samgöngustefnu þar sem starfsfólk er hvatt til að nýta vistvæna samgöngumáta. Starfsfólki sem notar að jafnaði vistvæna samgöngumáta við ferðir til og frá vinnu er boðið að gera samgöngusamning við sjóðinn og fá samgöngustyrk sem nemur skattfrelsismarki slíkra styrkja. 

Þá er starfsfólki jafnframt boðið upp á að vinna hluta vinnutíma sinn í fjarvinnu, sem eykur sveigjanleika starfsfólks og dregur úr vistspori sjóðsins með færri ferðum til og frá vinnu.


Skipurit og stjórnendur

Starfsemi LSR fer fram á þremur sviðum: eignastýringu, lífeyris- og lánasviði. Stoðsviðin eru tvö: fjármálasvið og stafræn þróun og rekstur. Svið áhættustýringar heyrir beint undir framkvæmdastjóra og er óháð öðrum starfseiningum sjóðsins.

Skipurit LSR

Framkvæmdastjóri og sviðsstjórar LSR

Harpa Jónsdóttir

Framkvæmdastjóri

Anna Björk Sigurðardóttir

Lífeyrissvið

Elísabet Þórey Þórisdóttir

Lánasvið

Halla Kristjánsdóttir

Eignastýring

Þorkell Sigurgeirsson

Fjármálasvið

Einar Birkir Einarsson

Stafræn þróun og rekstur

Sveinn Gunnlaugsson

Áhættustýring og innra eftirlit


Lög, samþykktir, stefnur og reglur

LSR starfar eftir lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ásamt almennu lífeyrissjóðalögunum nr. 129/1997. Sjóðurinn starfar jafnframt eftir Samþykktum fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en nýjasta útgáfa þeirra er frá 19. apríl 2024.

Þessu til viðbótar hefur sjóðurinn sett sér stefnur og reglur sem segja til um ýmsa helstu þætti starfseminnar. Samþykktir sjóðsins, stefnur og reglur eru allar aðgengilegar á vef LSR.

Yfirlit á vef LSR

Helstu stefnur sem sjóðurinn starfar eftir eru:

Áhættustefna:
Stefna stjórnar um þá áhættu sem stjórnin er reiðubúin til að taka í rekstrinum í samræmi við markmið og framtíðarsýn sjóðsins.

Fjárfestingarstefnur: 
Hver deild LSR hefur sína fjárfestingarstefnu þar sem tilgreindar eru þær megináherslur sem unnið er eftir við ávöxtun á fjármunum deildarinnar.

Eigendastefna:
Leggur línurnar um aðkomu LSR að þeim félögum sem sjóðurinn fjárfestir í, svo sem val á stjórnarmönnum, mat á stjórnarháttum, ráðstöfun atkvæða á hluthafafundum og fleira.

Jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun:
LSR skuldbindur sig til að greiða sömu laun og kjör fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni og segir jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun til um hvernig það skuli tryggt.

Sjálfbærnistefna:
Lýsir megináherslum sjóðsins varðandi sjálfbærni. Stefnan tekur bæði til innri starfsemi sjóðsins og einnig til þess hvernig sjóðurinn lítur til sjálfbærni í fjárfestingum.

Starfskjarastefna:
Segir til um þau viðmið sem sjóðurinn skal starfa eftir hvað varðar starfskjör starfsfólks.

Upplýsingaöryggisstefna:
Lýsir áherslum sjóðsins þegar kemur að vernd upplýsingaeigna sjóðsins og hlítni við fyrirmæli stjórnvalda auk þess að segja til um verklag og ábyrgð.

Stjórnarháttayfirlýsing:
Segir til um þá stjórnarhætti sem LSR starfar eftir og veitir yfirsýn yfir helstu reglur og stefnur.