Spurt og svarað

Hvað er fjárfestingarstefna?

Í fjárfestingarstefnu eru tilgreindar megináherslur sem unnið er eftir við ávöxtun á fjármunum sjóðanna. Fjárfestingarstefna miðar að því að tryggja góða ávöxtun en jafnframt að takmarka áhættu eftir því sem kostur er. Til að ná þessu marki er eignasamsetning ákveðin samkvæmt fyrirfram mótaðri fjárfestingarstefnu, eignir tryggðar sem best og vandað til verka við ákvarðanir um fjárfestingar og vörslu á eignum sjóðanna. Nánari upplýsingar um fjárfestingarstefnu sjóðanna má finna hér.

 

Hvernig er fjárfestingarstefnan ákveðin?

Lögum samkvæmt eru það stjórnir LSR og LH sem ákvarða fjárfestingarstefnu sjóðanna sem jafnframt er endurskoðuð eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Við þá endurskoðun er tekið tillit til breytinga sem orðið hafa á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, breytinga sem orðið hafa á umhverfi lífeyrissjóðanna og annarra ytri skilyrða sem áhrif hafa á rekstur og starfsumhverfi þeirra. Í fjárfestingarstefnu eru sett markmið um eignasamsetningu sjóðanna.

 

Hvar finn ég upplýsingar um eignasamsetningu sjóðanna?

Upplýsingar um eignasamsetningu einstakra deilda og sjóða LSR og LH er bæði að finna hér á vef LSR og í ársskýrslu sjóðanna.

 

Hvernig hefur verðbréfaeign þróast undanfarin ár?

Eignasamsetning LSR og LH hefur tekið töluverðum breytingum undanfarin ár. Síðan árið 2000 hefur hlutfall skuldabréfa lækkað, hlutfall erlendra hlutabréfa hækkað og hlutfall innlendra hlutabréfa hækkað lítillega. Nánari upplýsingar um þróun verðbréfa má finna neðst á þessari síðu.

 

Hvað eru kennitölur?

Ársreikningar fyrirtækja búa yfir miklum upplýsingum en yfirleitt þarf að leggja í nokkra vinnu til að gera þær aðgengilegar. Ein leið til þess er að reikna kennitölur, þ.e. hlutföll ýmissa talna úr ársreikningum. Kennitölurnar einar og sér segja fátt og því nauðsynlegt að bera þær saman við aðrar kennitölur, t.d. frá fyrra ári eða frá öðrum fyrirtækjum.