LH

Rétt iðgjaldaskil

Einungis er heimilt að greiða iðgjald til LH fyrir hjúkrunarfræðinga, sem vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkis og sveitarfélaga eða við opinberar stofnanir eða heilbrigðisstofnanir, sem starfa samkvæmt starfsleyfi frá heilbrigðisráðuneytinu. Þá er einungis heimilt að greiða iðgjald til LH af launum þeirra hjúkrunarfræðinga sem fá greidd laun samkvæmt samningi um föst mánaðarlaun.

Iðgjald til LH á einungis að greiða af föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu, persónuuppbót, orlofsuppbót og vaktaálagi ef á við. Iðgjald sjóðfélaga er 4% en framlag launagreiðanda er 8%.

Sérstök athygli skal vakin á því að ekki á að greiða iðgjald til LH fyrir þá hjúkrunarfræðinga, sem vinna í tímavinnu eða fá á annan hátt greitt fyrir einstakar tilfallandi vaktir, án þess að um fyrirfram gerðan samning um föst mánaðarlaun sé að ræða.

Falli iðgjaldagreiðsla sjóðfélaga niður lengur en í 12 mánuði, hefur hann ekki rétt til áframhaldandi aðildar að LH. Hafi iðgjaldagreiðslur fallið niður lengur en í 12 mánuði, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi starfsmanns og launagreiðanda hafi verið slitið, er heimilt að greiða iðgjald til LH.

Hafi aðrir launagreiðendur en þeir sem tilgreindir eru hér að framan haft heimild til að greiða til sjóðsins fyrir starfsmenn sína í árslok 2004, gildir sú heimild áfram fyrir viðkomandi starfsmenn. Jafnframt getur stjórn LSR samþykkt aðild fyrir aðra hjúkrunarfræðinga að því tilskyldu að þeir séu fæddir árið 1950 eða fyrr og hafi greitt í sjóðinn í samtals 21 ár við árslok 2004.

Iðgjaldagreiðslur til LH standa yfir þar til sjóðfélagi hættir störfum, óháð aldri.

Iðgjaldastofn

Iðgjald til LH á einungis að greiða af föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu, persónuuppbót, orlofsuppbót og vaktaálagi. Iðgjald sjóðfélaga er 4% en framlag launagreiðanda er 8%. Þær stofnanir sem njóta fjárveitinga frá ríkinu til greiðslu launa eiga jafnframt að greiða viðbótarframlag (11,5%) af öllum launum til LH. Framlagið þarf að sérgreina á skilagreinum og reiknast út sem mismunurinn á 11,5% af heildarlaunum og 8% af dagvinnulaunum.

Greiða skal iðgjald af biðlaunum og veikindalaunum.

Vaktaálag

Greiða skal iðgjald af vaktaálagi vaktavinnufólks. Sama regla gildir um hjúkrunarfræðinga sem hafa vinnuskyldu eingöngu á nóttunni, það er á tímabilinu frá kl. 22:00 til 09:00. Hins vegar á ekki að greiða iðgjald af öðrum álagsgreiðslum eins og t.d. bakvöktum, eða gæsluvöktum og ekki af álagsgreiðslum vegna fasts vinnutíma utan dagvinnumarka, t.d. kl. 13 - 18 daglega.

Skilyrði um starfshlutfall

Sjóðfélagi sem greiðir iðgjöld í LH þarf að vera ráðinn með föst mánaðarlaun. Ekki er gerð krafa um lágmarksstarfshlutfall líkt og í B-deild LSR. Hins vegar gildir sama regla um hámarksstarfshlutfall en ekki má greiða iðgjöld af hærra starfshlutfalli en 100% hjá sama launagreiðanda.

Breytilegt starfshlutfall

Ef starfsmaður, sem á aðild að LH, eykur starfshlutfall sitt og fær greidd laun fyrir það samkvæmt óbreyttum launaflokki, þ.e. aukið hlutfall fastra mánaðarlauna, skal greiða iðgjald til LH af launum sem greidd eru fyrir þetta breytta starfshlutfall.

Tvö störf hjá tveimur aðilum

Ef starfsmaður gegnir samtímis fleiri störfum en einu, hjá fleiri en einum launagreiðanda, sem tryggja starfsmenn sína hjá LH, þarf ráðning í hvert starf um sig að uppfylla aðildarskilyrði að sjóðnum. Ef ráðning í tvö/fleiri störf hjá tveimur/fleiri launagreiðendum uppfylla þessi skilyrði, þá á að greiða iðgjald til LH af báðum/öllum störfunum. Þetta á við þó svo samanlagt starfshlutfall fari yfir 100%.

Ath. í þessu sambandi er ríkið eða sveitarfélög einn launagreiðandi þó sjóðfélagi sé í fleiri störfum hjá þessum launagreiðendum.

Tvö störf hjá sama launagreiðanda

Þó svo starfsmaður gegni fleiri störfum en einu hjá sama launagreiðanda, skulu iðgjaldagreiðslur aldrei vera meiri en sem nemur iðgjöldum fyrir 100% starf.

Launaflokkamismunur vegna tímabundinna starfa

Starfsmaður, sem gegnir tímabundið hærra launuðu starfi vegna afleysinga eða annarra atriða, á einungis að greiða iðgjald til sjóðsins af þessu hærra launaða starfi ef hann er ráðinn til þess samkvæmt samningi um fyrirfram ákveðin föst mánaðarlaun.

Orlof

Greiða ber iðgjöld til LH af launum sem starfsmaður fær greidd í orlofi. Hins vegar á ekki að greiða iðgjald af orlofi sem gert er upp við starfsmann í starfslok, þ.e. eftir að ráðningartíma er lokið. Þegar sjóðfélagi hefur gegnt breytilegu starfshlutfalli ber að greiða iðgjald af því starfshlutfalli sem rekja má orlofsgreiðsluna til, þ.e. greitt er af þeim launum sem greidd eru í orlofinu.

Launalaus leyfi

Þegar iðgjöld eru frádregin (mínusfærslur) vegna þess að starfsmaður hefur fengið launalaust leyfi, þá er mikilvægt að réttar dagsetningar séu færðar á frádráttinn. Færa á þá daga þegar viðkomandi var frá störfum vegna leyfis án launa. Rangt er að lækka starfshlutfall.

Greiðslur vegna iðgjaldafrírra starfsmanna

Greiðslum vegna starfsmanns, sem uppfyllir skilyrði um iðgjaldafrelsi (30 ára regla skv. eldri reglum, 32 ára eða 95 ára regla skv. núgildandi reglum), á að halda aðgreindum frá venjubundnum iðgjöldum og iðgjöldum af vaktaálagi. Þessum iðgjöldum á að skila á sér skilagreinum og greiðir launagreiðandinn heildariðgjöld sem eru 12% af föstum iðgjaldastofni.


Frágangur skilagreina til LH og iðgjaldaskil

Skilagrein skal vera merkt LH og með viðeigandi SAL númeri. Kennitala LH er 430269-4889.

Iðgjöldum ber að skila til sjóðsins eigi síðar en 14 dögum frá útborgun launa. Þetta á við hvort sem um fyrirfram- eða eftirágreidd laun er að ræða. Sé ekki greitt innan tilgreinds gjaldfrests reiknast dráttarvextir.

Á skilagreinum þarf eftirfarandi að koma fram:

  • Nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer og reikningsnúmer launagreiðanda.
  • Viðeigandi SAL númer.
  • Launatímabil, útborgunardagsetning launa og heildarfjárhæð launa.
  • Nafn, kennitala og iðgjald sjóðfélaga.
  • Heildariðgjöld sjóðfélaga, framlag launagreiðanda, heildargreiðsla og starfshlutfall.