Samþykktir LSR um aðild að A-deild

 

Úr Samþykktum fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

II. KAFLI

Sjóðsaðild

Almennt

14. gr.

Sjóðfélagar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eru þeir einstaklingar, sem greiða iðgjald til sjóðsins, sem njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum og þeir einstaklingar sem með iðgjalda-greiðslum hafa áunnið sér rétt í sjóðnum en greiða ekki lengur iðgjald og hafa ekki hafið töku lífeyris úr sjóðnum.

 

A-deild.

15. gr.

Aðild að A-deild sjóðsins skal aldrei veitt beri aðila að greiða í annan lífeyrissjóð sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997.

Um aðild að A-deild sjóðsins fer eftir því sem hér segir:

Skylduaðild:

a.      Starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana 16 ára og eldri sem fá greidd laun á grundvelli kjarasamninga sem gerðir eru á grundvelli laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða á grundvelli launaákvarðana samkvæmt lögum um kjararáð, skulu vera í A-deild sjóðsins enda greiði þeir ekki í B-deild sjóðsins eða í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga af launum fyrir það starf. Heimilt er þó að semja um í kjarasamningi að tilteknir hópar starfsmanna ríkisins, sem uppfylla þessi skilyrði, greiði í aðra lífeyrissjóði. Ákvæði 1. málsl. á jafnframt við um forseta Íslands, ráðherra og alþingismenn.

Réttur til aðildar með skyldu launagreiðanda til að greiða iðgjald:

b.      Eftirtaldir starfsmenn með ráðningu eins og kveðið er á um í grein 15.a., sem aðild áttu að LSR við árslok 1996, eiga rétt til að vera í A-deild sjóðsins óski þeir eftir því:

  • Kennarar og skólastjórnendur grunnskóla sveitarfélaga á meðan þeir starfa við grunnskóla sveitarfélaga.
  • Þeir sem starfa hjá grunnskólum við annað en kennslu eða skólastjórn og þeir sem störfuðu hjá skólaskrifstofum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur á meðan þeir gegna þeim störfum.

c.      Hjúkrunarfræðingar, sem áttu skylduaðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna við árslok 1996, eiga rétt til að vera í A-deild sjóðsins, óski þeir eftir því, á meðan þeir gegna störfum, sem veitt hefðu skylduaðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna.

d.      Kennarar og skólastjórnendur, sem ráðnir eru samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra grunnskóla og starfa við skóla sem reknir eru af sveitarfélögum skv. lögum um grunnskóla, og hjúkrunarfræðingar, sem vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkisins eða sveitarfélaga eða við opinberar stofnanir eða heilbrigðisstofnanir, skulu eiga rétt til aðildar að A-deild sjóðsins þar til samið hefur verið um lífeyrissjóðsaðild fyrir þessa starfsmenn.


Heimild til aðildar með samþykki launagreiðanda:

e.      Félagsmönnum aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, aðildarfélaga Bandalags háskólamanna eða Kennarasambands Íslands er heimilt að eiga aðild að A-deild sjóðsins. Jafnframt er félagsmönnum í stéttarfélögum sem eru utan fyrrgreindra bandalaga en gera kjarasamning á grundvelli laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, heimilt að eiga aðild að A-deild sjóðsins.

f.       Starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnana sem eru utan stéttarfélaga en taka laun, sem ákveðin eru með hliðsjón af kjarasamningum opinberra starfsmanna eða á grundvelli launaákvarðana samkvæmt lögum um kjararáð, er heimilt að eiga aðild að A-deild sjóðsins.

g.      Starfsmönnum sveitarfélaga og stofnana þeirra og starfsmönnum sameignarstofnana ríkis og sveitarfélaga, sem eru vegna eðlis starfa sinna utan stéttarfélaga en taka laun sem ákveðin eru með hliðsjón af kjarasamningum opinberra starfsmanna eða ákvörðunum kjararáðs, er heimilt að eiga aðild að A-deild sjóðsins.


Heimild til aðildar að fengnu samþykki stjórnar og með samþykki launagreiðanda.

h.      Stjórn sjóðsins getur auk fyrrgreindra í sérstökum tilvikum veitt þeim aðild að A-deild sem eiga þess ekki kost að vera í stéttarfélagi eða eru vegna eðlis starfs síns utan stéttarfélaga. Heimild þessari skal einkum beitt í þeim tilvikum þegar launagreiðandi tryggir verulegan hluta starfsmanna sinna hjá sjóðnum.


Aðrir:

i.       Einstaklingi, sem fengið hefur heimild til áframhaldandi aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna niðurlagningar á stöðu eða starfi, sbr. grein 17.e., er heimilt að greiða iðgjald til A-deildar sjóðsins, enda falli þá niður réttur hans til að greiða iðgjald til B-deildar af launum fyrir það starf.

j.       Þeir sem fengið hafa aðild að A-deild sjóðsins en uppfylla ekki framangreind aðildarskilyrði skulu halda aðildinni meðan þeir gegna starfi hjá sama launagreiðanda og greitt hefur fyrir þá til deildarinnar.

k.      Sjóðfélagar, sem misst hafa vinnu sem greitt var iðgjald vegna til A-deildar sjóðsins og eiga af þeim sökum rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta, eiga rétt til þess að greitt sé af atvinnuleysisbótum til A-deildar enda geri þeir samhliða skil á þeim mismun sem er á mótframlagi sem greitt er af Atvinnuleysistryggingasjóði og iðgjaldi sem launagreiðanda ber að skila til A-deildar á hverjum tíma samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. 5 gr.    Sjóðfélagi sem ekki gerir skil á mismun samkvæmt framangreindu, innan fjögurra vikna frá gjalddaga iðgjalda, fyrirgerir rétti sínum til að greiða af atvinnuleysisbótum til A-deildar og skal sjóðurinn eftir atvikum endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þau iðgjöld sem borist hafa eða flytja þau í annan lífeyrissjóð.