Breytingar á A-deild LSR

04.01.2017

Fyrir jól samþykkti Alþingi breytingar á lögum um A-deild LSR. Samkvæmt lögunum verður tekið upp breytt réttindakerfi hjá deildinni 1. júní n.k. Eftir breytinguna ávinna sjóðfélagar sér réttindi í aldurstengdu réttindakerfi og lífeyristökualdur verður miðaður við 67 ára aldur.

Ekki verður gerð breyting á áunnum réttindum núverandi sjóðfélaga við upptöku á breyttu fyrirkomulagi, hvorki þeirra sem eru í starfi í dag, byrjaðir að taka lífeyri eða eiga eldri réttindi hjá sjóðnum. Þau réttindi verða áfram reiknuð í jafnri réttindaávinnslu og miðuð við 65 ára lífeyristökualdur. Með framlagi ríkisins í lífeyrisaukasjóð er núverandi sjóðfélögum jafnframt tryggð áfram óbreytt réttindaávinnsla og óbreyttur lífeyristökualdur.

Ef þær forsendur sem miðað er við, m.a. forsendur um ávöxtun, ganga ekki eftir, kann í framtíðinni að koma til breytinga á áunnum réttindum, annað hvort til hækkunar eða lækkunar. Þetta á ekki við um þá sem byrjaðir eru að taka lífeyri, eða verða orðnir 60 ára við gildistöku breyttra reglna 1. júní n.k. og hafa þar af leiðandi rétt á að hefja töku lífeyris.

Til að tryggja lífeyrisréttindi núverandi sjóðfélaga samkvæmt framansögðu og til að mæta halla á stöðu sjóðsins, leggur ríkið til fjárhæð sem nemur 117,2 milljörðum króna. Samkomulag hefur verið undirritað milli fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisins og lífeyrissjóðsins um fyrirkomulag á þessum greiðslum. Rúmlega helmingur framlagsins er greitt með því að ríkið framselji lífeyrissjóðnum skuldabréf á Lánasjóð íslenskra námsmanna. Bréfin verða með beinni ábyrgð ríkissjóðs, afborganir af þeim dreifast á næstu 25 ár og meðallíftími þeirra er u.þ.b. 8,5 ár.

U.þ.b. fjórðungur af framlaginu er greitt með afhendingu bréfa í tveimur markaðsflokkum ríkisskuldabréfa. Það sem eftir stendur er greitt með gjaldeyri og íslenskum krónum og framsali á lánasamningi með veði í fasteignum.

Nánar tiltekið skiptist framlag ríkisins þannig:

Skipting á framlagi ríkisins

 „Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR. „Við munum leitast við að ávaxta þessa fjármuni eins vel og kostur er að teknu tilliti til áhættu. Jafnframt munum við leitast við að lágmarka þau áhrif sem greiðslurnar gætu haft á peningamagn í umferð, verðbréfamarkaði og stöðugleika fjármálakerfisins. Til þess að mæta slíkum áhrifum á innlent fjármálakerfi og til að ná sem bestri áhættudreifingu í eignasafni lífeyrissjóðsins er það vilji stjórnenda sjóðsins að stór hluti þess framlags sem kemur til greiðslu við undirskrift samnings eða losnar á næstu árum fari í erlendar fjárfestingar.“