Ísland í fyrsta sæti í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa

14.10.2022

Íslenska lífeyriskerfið er í fyrsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu annað árið í röð samkvæmt árlegri rannsókn ráðgjafafyrirtækisins Mercer og samtakanna CFA Institute.

Þetta er í annað sinn sem Ísland er talið með í samanburði Mercer, en íslenska lífeyriskerfið skaust beint í fyrsta sæti vísitölunnar á síðasta ári. Heildareinkunn Íslands hækkar örlítið milli ára, fer úr 84,1 stigi á síðasta ári í 84,7 stig nú. Ísland er eitt þriggja landa sem komast í A-flokk, en hin löndin eru Holland, sem var með 84,6 stig, og Danmörk með 82 stig. Alls eru lífeyriskerfi 44 landa í öllum heimsálfum tekin með í vísitölunni.

Í vísitölunni er litið til þriggja grunnþátta — nægjanleika kerfis, sjálfbærni og trausts. Ísland fékk hæstu einkunn allra landa í fyrstu tveimur þáttunum og var sjöunda hæst hvað varðar traust til kerfisins.

Nánar má lesa um Mercer-vísitöluna á vef Landssamtakalífeyrissjóða, en þar má einnig sækja skýrslu Mercer í heild sinni.