Jafnlaunavottun LSR endurnýjuð til 2027

10.07.2024

Jafnlaunavottun_adalmerki_2024_2027_f_ljosan_grunnLSR hefur fengið endurnýjaða jafnlaunavottun fyrir starfsemi sjóðsins, sem gildir í þrjú ár, til ársins 2027. Sjóðurinn hlaut jafnlaunavottun í fyrsta sinn árið 2021.

LSR innleiddi þá jafnlaunakerfi sem hefur það að markmiði að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með slíku kerfi koma fyrirtæki og stofnanir sér upp stjórnkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Hér má finna jafnlaunastefnu og jafnréttisáætlun sjóðsins.

iCert staðfesti árið 2021 að kerfið sé í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og veitti sjóðnum þá jafnlaunavottun. Vottunin er gefin út til þriggja ára í senn, en árlega er gerð úttekt til að meta hvort starfsemin uppfylli skilyrði vottunarinnar.

LSR hefur staðist þessa úttekt árlega frá því að jafnlaunavottunin var gefin út 2021 og í kjölfar nýjustu úttektar sjóðsins hefur jafnlaunavottunin því verið endurnýjuð til ársins 2027.