Leiðrétting á launavísitölu opinberra starfsmanna

24.03.2021

Í gær gaf Hagstofa Íslands út nýja launavísitölu opinberra starfsmanna fyrir febrúarmánuð. Um leið var tilkynnt að gildi vísitölunnar fyrir janúar 2021, sem gefið var út þann 23. febrúar sl., hefði verið endurskoðað og leiðrétt.

Við útreikning vísitölunnar fyrir janúar hafði stytting vinnuvikunnar verið tekin með í reikninginn en eftir nánari skoðun kom í ljós að það var ekki í samræmi við gildandi lög. Því endurreiknaði Hagstofan vísitölugildið fyrir janúar og lækkaði það úr 656,3 í 648.

Launavísitala opinberra starfsmanna er notuð við útreikning lífeyrisgreiðslna þeirra sjóðfélaga sem fylgja meðaltalsreglu í B-deild LSR og sjóðfélaga Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands (ESÚÍ).

Nýtt vísitölugildi fyrir febrúar er 648,6 og verður miðað við það við næstu lífeyrisgreiðslur þann 1. apríl næstkomandi. Af því leiðir að lífeyrisgreiðslur þeirra sem fylgja meðaltalsreglu munu verða 1,17% lægri um næstu mánaðamót heldur en þær voru um síðustu mánaðamót þegar greiðslurnar miðuðust við hina ranglega reiknuðu vísitölu.

Nánari upplýsingar um þróun og útreikning launavísitölu opinberra starfsmanna má finna á vef Hagstofu Íslands .