Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga sameinast B-deild LSR þann 1. janúar 2018

19.06.2017

Alþingi hefur nýverið samþykkt lög þess efnis að Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga (LH) mun sameinast B-deild LSR þann 1. janúar 2018.

Aðdragandi málsins er að í lok árs 2011 fól stjórn LH nefnd að gera úttekt á hagkvæmni þess að sameina LH og LSR. Tilefni þess var m.a. að sjóðfélögum LH hefur farið ört fækkandi á síðustu árum en virkir sjóðfélagar sjóðsins voru til að mynda einungis 265 á síðastliðnu ári. Nefndin skilaði af sér úttekt á árinu 2013 sem var m.a. lögð fram í stjórn LH og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Auk þess fékk úttektin kynningu í stjórn LSR og var lögð fyrir fjármála- og efnahagsráðherra. Í úttektinni voru lagðar fram þrjár mismunandi leiðir við sameiningu sem gengu mislangt. Með lagasetningu þessari er farið eftir þeirri leið sem lengst gekk með fullri sameiningu sjóðanna en með því næst fram mest hagræðing.

Við sameininguna renna eignir og skuldbindingar LH í B-deild LSR. Réttindi sjóðfélaga sem eru hjá LH verða flutt yfir í B-deild LSR og réttindakerfi sjóðanna samræmt. Þess hefur verið gætt að enginn sjóðfélagi tapi réttindum vegna sameiningarinnar. Samkvæmt lögum um LH er hjúkrunarfræðingum heimilt að greiða í sjóðinn án tillits til starfshlutfalls en samkvæmt lögum um B-deild LSR má starfið eigi vera minna en hálft starf til að heimilt sé að greiða í B-deild. Þessi sérregla fyrir sjóðfélaga LH fellur niður og mun sama regla gilda um þá og sjóðfélaga í B-deildar LSR. Þó mun þeim hjúkrunarfræðingum sem greiddu af minna en 50% starfshlutfalli á árinu 2017 vera það heimilt áfram.