Morgunverðarfundur í tilefni 100 ára afmælis LSR

28.11.2019

Sjáðu upptöku frá morgunverðarfundinum

Harpa og HaukurSamstaða forsenda stórra framfara

Það hafa orðið stórfelldar breytingar á íslensku samfélagi síðustu 100 árin og er líklegt að alþjóðavæðingin muni knýja stærstu breytingar næstu 100 árin - við munum fara úr því að búa í landi yfir í að búa í heimi. Þetta er á meðal þess sem kom fram á þéttsetnum morgunverðarfundi LSR á Hilton Reykjavík Nordica í dag í tilefni af 100 ára afmæli sjóðsins. Þar fluttu erindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Unnur Pétursdóttir formaður stjórnar LSR, Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri LSR, og Philip Ripman sjóðstjóri hjá Storebrand í Noregi. Undir lok þingsins var efnt til pallborðsumræðna.

Unnur Pétursdóttir talarUnnur Pétursdóttir

Unnur Pétursdóttir stjórnarformaður LSR, tók til máls í upphafi fundarins og sagði frá því að á 19. öldinni hafi eldra fólk haft lítið á milli handanna. Þó hafi einn hópur skorið sig úr og það voru ekkjur presta, sem höfðu lífeyri úr prestsekknasjóði og því eilítið á milli handanna í ellinni. Þessi prestekknasjóður var vísir að fyrsta lífeyrissjóði sem stofnaður var á Íslandi, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem er nú stærsti lífeyrissjóður landsins. Unnur sagði að á 100 ára vegferð LSR hefði margt breyst: Lífeyrissjóðurinn færi nú með ævisparnað tugþúsunda landsmanna og er meirihluti sjóðfélaga í LSR, sem upphaflega var ætlaður karlkyns embættismönnum, konur.

Lífeyrissjóðakerfið stofnað til að forðast mistök Egils Skallagrímssonar

Katrín Jakobsdóttir talarKatrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að á síðustu 100 árum hafi allir stórir áfangar orðið vegna samstöðu fólks, þvert á ólíka hópa. Hún sagði að í bókmenntasögu væri iðulega talinn löstur að safna fé og tók dæmi um þá feðga Egil og Skallagrím sem söfnuðu miklu silfri og földu það. Lífeyrissjóðakerfi okkar hafi orðið til vegna viðhorfa okkar til athafna Egils og Skallagríms, að það hafi verið álit Íslendinga að betra væri að búa til stofnun til að halda utan um þessa fjársöfnun fyrir eldri árin, svo við myndum ekki „bilast á gamals aldri“ eins og feðgarnir.

Katrín sagði að ábyrgð lífeyrissjóða, sem eiga þriðjung fjármuna á Íslandi, hafa vaxið og um leið hafi verið gerðar miklar kröfur til þeirra. Samfélagslegur tilgangur sjóðanna sé ótvíræður þar sem við viljum tryggja hag eldri borgara en við viljum þó ekki eingöngu að lífeyrissjóðirnir ávaxti fé sitt skynsamlega heldur einnig að þeir styðji við samfélagið með mikilvægum verkefnum. Taki fjárfestingarstefna margra sjóða mið af þessum kröfum. Katrín kom jafnframt inn á mikilvægi þess að lífeyrissjóður hugi að grænum valkostum í fjárfestingarstefnum sínum, öðruvísi sé ekki hægt að ná miklum árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Stofnaður á tímum fullveldis og stríðsloka

Harpa talarHarpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri LSR, fór yfir sögu LSR. Hún byrjaði á að segja frá því hvað var að gerast á Íslandi í nóvember 1919 og í hvernig umhverfi LSR var stofnaður. Eitt ár var frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Einnig var um eitt ár frá því að Ísland öðlaðist fullveldi auk þess sem spænska veikin herjaði á landsmenn.

LSR var upphaflega hugsaður fyrir ríkisstarfsmenn í æðstu stöðum og hét þá lífeyrissjóður embættismanna. Á sama tíma var stofnaður sjóður fyrir ekkjur embættismanna. Á næstu árum bættust við fleiri lífeyrissjóðir á Íslandi. Árið 1944 hætti LSR að vera sjóður eingöngu fyrir embættismenn og var almennum ríkisstarfsmönnum hleypt inn í sjóðinn. Í kjölfarið fékk sjóðurinn það nafn sem hann ber í dag, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Á sjöunda áratugnum komu kröfur frá almenna vinnumarkaðnum um lífeyrisréttindi og árið 1969 var skylduaðild sett inn í kjarasamninga, þannig hafi stofnun LSR verið grunnurinn að því lífeyriskerfi sem við höfum í dag.

Harpa nefndi að í gegnum árin hafa ýmsir sjóðir runnið inn í LSR og hann stækkað. Í dag sé LSR ekki aðeins elsti lífeyrissjóður landsins heldur einnig sá stærsti með um 1.000 milljarða í eignir.

„Fyrirtæki sem leysa vanda samfélagsins mjög verðmæt“

Philip Ripman talar Philip Ripman sjóðstjóri hjá Storebrand í Noregi, var einn fyrirlesaranna á fundinum. Hann sagði Storebrand vilja vera með skýra framtíðarsýn og áætlun til framtíðar. Meira væri fjárfest í fyrirtækjum sem hugsuðu um umhverfið og hefðu jákvæð áhrif. „Fyrirtæki sem leysa vanda samfélagsins hafa orðið mjög verðmæt,“ sagði hann og nefndi að nokkrir starfsmenn Storebrand hefðu keypt kvóta af íslenska fyrirtækinu Kolviði. Sagði hann að fjárfestar sem haldið hafi hlutabréfum sínum í kolafyrirtækjum hafi á síðustu árum tapað stórt. Ripman nefndi að hann spyrji oft fólk hvaða ríki Bandaríkjanna sé leiðandi í sjálfbærum fjárfestingum og þá nefni flestir Kaliforníu. Rétta svarið sé hins vegar Texas og það sé til marks um að fyrirtæki sem leggi áherslu á umhverfismál séu góð fjárfesting. Eða eins og einn vinur hans orðaði það; „Ef að Texas er að fjárfesta í því þá er það ekki vegna þess að þeir vilji bjarga heiminum.“

Ungt fólk tengir lífeyrissjóði við húsnæðislán

PallborðUndir lok fundarins stýrði fundarstjórinn Brynja Þorgeirsdóttir pallborði þar sem yfirskriftin var „mikilvægi samtryggingar í nútímasamfélagi“. Þátttakendurnir voru Anna Björk Sigurðardóttir sérfræðingur í lífeyrismálum hjá LSR, Bergur Ebbi Benediktsson rithöfundur, Gunnar Baldvinsson höfundur bóka um fjármál einstaklinga og Jóna Þórey Pétursdóttir forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Jóna Þórey sagði að á meðal jafnaldra hennar væri frekar rætt um lífeyrissjóði í tengslum við húsnæðiskaup heldur en eftirlaunaárin. Fólk væri iðulega ekki visst um í hvaða lífeyrissjóð það væri að greiða. Jóna Þórey sagði að í laganámi sínu hefði verið fjallað um lög um lífeyri. Það fyrsta sem samnemendur hennar gerðu var að spyrja hvað lífeyrir væri.

„Stærsta breytingin næstu 100 árin mun felast í að við lifum í alþjóðlegu samhengi“

Bergur Ebbi sagði merkilegt að hugsa til þeirrar samstöðu sem ríkti í þjóðfélaginu fyrir 100 árum og varð til þess að lífeyrissjóðakerfið var skapað. Nú stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum þar sem samstaða geti verið á undanhaldi og nefndi Bergur Ebbi dæmi um að við hugsum meira um okkar þarfir og minna um samfélagið í heild. „Það verður allt annar veruleiki næstu 100 ár, önnur vegferð en síðustu 100 ár.“ Áður vorum við að aðlaga sveit að borg en næstu áratugina muni breytingarnar tengjast því að fara frá því að búa í landi yfir að búa í heimi. „Alþjóðavæðingin sem hóf göngu sína fyrir 30 árum er að fara að kikka allverulega inn.“

Pallborð II

Anna Björk sagði að þegar væru hafin samskipti hvað þetta varðaði á milli þjóða og væri Tryggingastofnun milliliður í þeim. LSR berist umsóknir frá erlendum sjóðum í tengslum við erlent fólk sem starfaði um tíma hér á landi og öðlaðist réttindi. Þannig hafi ákveðið flæði skapast sem verið væri að reyna að efla. „Það er byrjað að reyna að tengja heiminn saman,“ sagði hún.Hann sagði stærstu breytinguna felast í því að við lifum í alþjóðlegu samhengi. Sífellt fleiri Íslendingar mennti sig og starfi erlendis og þá verði rof í söfnun lífeyris og fólk glati ákveðnum réttindum. Að sama skapi sé stór hluti vinnuaflsins hér útlendingar. Núverandi kerfi virðist ekki gera ráð fyrir þessu. Það ætti að vera hægt að borga í sjóð erlendis og síðar verði til stærri söfnunarsjóður. Bergur Ebbi sagði að það tæki marga áratugi að byggja upp slík kerfi með svo stórum sjóðum en það yrði að vera hluti af framtíðarsýn lífeyrissjóðanna. „Þetta ástand er komið til að vera, þar sem við förum um allan heim að sinna námi eða störfum.“

Horfir til vandræða hjá þjóðum með gegnumstreymiskerfi

GestirTalið barst að gegnumstreymiskerfi sem er við lýði í sumum löndum, fjármagnað af skattgreiðendum. Þar sér almannatryggingakerfið um að hlaupa undir bagga hjá þeim sem þess þurfa. Anna Björk sagði kerfið hér á landi ekki orðið fullþroskað, að því leyti að það hefur ekki verið við lýði alla starfsævi þess sem elstir eru á vinnumarkaðnum, en það væri jákvætt að hugsa til þess að eftir því sem tíminn líði, geti æ stærri hópur fólks lifað á sinni eigin sjóðasöfnun. Íslendingar séu lánsamir hvað þetta varðar því það horfi til vandræða hjá ýmsum öðrum þjóðum sem horfi til okkar með öfundaraugum. Í þeim löndum séu stórir hópar að komast á lífeyrisaldur, vegna breyttrar aldurssamsetningar, og þurfi að auka skattbyrði til að geta staðið undir greiðslu lífeyris.

Eftirlaunasparnaður verðmætasta en vanmetnasta eignin

Gunnar sagðist vilja hvetja fólk til að vera upplýst um eign sína og hvaða réttindi það á. Ef fólk setti inneign sína hjá lífeyrissjóði í samhengi við aðrar eignir þá kæmi oft í ljós að eftirlaunasparnaður væri verðmætasta eignin. Þessu gerði fólk sér oft ekki grein fyrir því og mætti því segja að eftirlaunasparnaðurinn væri vanmetnasta eignin. Væri mat lagt á lífeyrisréttindi og annan sparnað þá væri eftirlaunasparnaður oftast 50-70% af meðaleignum.

Hann hvatti jafnframt fólk til að vera duglegra að mæta á ársfundi lífeyrissjóða og sjóðfélagafundi til að líta eftir eign sinni og fylgjast með hvernig sjóðurinn er að ávaxta iðgjöldin. „Ég vil endilega sjá fleiri mæta á fundi. Það hefur verið vandamál hve fámennt er á þeim. Fólk mætir helst þegar illa gengur en ekki þegar gengur vel.“

Gestir í sal

Haukur Hafsteinsson fær blómForsetabréfForseti-Islands-bref-i-tilefni-af-100-ara-afmaeli-LSR