Úttektarskýrsla lífeyrissjóðanna
Þriggja manna nefnd, sem gerði úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvörðunum og lagalegu umhverfi lífeyrissjóða í aðdraganda efnahagshrunsins á Íslandi í október 2008, lauk starfi sínu í dag. Skýrsla í fjórum bindum var lögð fram á fréttamannafundi í Reykjavík.
Landssamtök lífeyrissjóða samþykktu 24. júní 2010 að óska eftir því að Magnús Pétursson ríkissáttasemjari skipaði þriggja manna nefnd „óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga“ til að fjalla um fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagaumhverfi sjóðanna fyrir hrunið. Í framhaldinu skipaði Magnús þrjá menn í úttektarnefndina: Hrafn Bragason, lögfræðing og fyrrverandi hæstaréttardómara, sem jafnframt varð formaður, Guðmund Heiðar Frímannsson, siðfræðing og prófessor við Háskólann á Akureyri, og Héðin Eyjólfsson viðskiptafræðing.
Úttektarnefndin hafði með sér þrjá sérfræðinga í verkefninu. Nefndarmenn ræddu við fjölda stjórnarmanna, stjórnenda og annarra starfsmanna lífeyrissjóða, kölluðu eftir upplýsingum og könnuðu gögn af ýmsu tagi.
Úttektarskýrslan er í fjórum hlutum og má nálgast hana á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða, www.ll.is.
Stjórnir og starfsmenn LSR og LH munu fjalla gaumgæfilega um efni úttektarskýrslunnar næstu daga.
Ljóst er að úttektarnefndin hefur dregið saman margvíslegar og gagnlegar upplýsingar sem skýra myndina af fjárfestingarstefnu, fjárfestingum og starfsumhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.
Þarna er að finna ábendingar og athugasemdir sem eðlilegt er að taka til greina. Til dæmis er réttilega bent á að fjalla beri ítarlegar um greiningu, mat og rökstuðning fyrir fjárfestingum í fundargerðum fjárfestingarráða og stjórna sjóðanna, svo sem varðandi kaup á skuldabréfum og hlutabréfum.
Þarna er líka að finna ályktanir og athugasemdir er orka tvímælis eins og gengur.
Eftir fyrstu yfirferð er vert að staldra við eftirfarandi, sem miklu máli skiptir að halda til haga.
- Tap LSR og LH vegna hrunsins er hvorki meira né minna en sjóðirnir höfðu sjálfir upplýst um áður er gert hefur verið grein fyrir í ársskýrslu, á ársfundum og á fjölmörgum fundum með sjóðfélögum undanfarin þrjú ár.
- Þegar tap af hlutabréfaeign vegna hrunsins er metið er umdeilanlegt við hvaða tímamark á að miða. Í skýrslu úttektarnefndar er miðað við verðmæti hlutabréfa í árslok 2007. LSR og LH hafa í kynningarefni sínu annars vegar miðað við það tímamark en einnig reiknað tap miðað við verðmæti hlutabréfaeignar 30. september 2008. Það munar um 18 milljörðum kr. við hvora dagsetninguna er miðað.
- Efnislega stendur óhögguð sú heildarmynd af aðdraganda og afleiðingum hrunsins sem LSR og LH hafa þegar gert grein fyrir í ársreikningum sínum, á ársfundum og víðar, bæði inn á við og út á við.
- Staðfest er að LSR og LH urðu fyrir miklu tjóni í hruninu, hlutfallslega álíka miklu og margir aðrir lífeyrissjóðir urðu fyrir. Tölurnar eru hins vegar háar í okkar sjóðum, enda eru þeir stærstu sjóðirnir í lífeyriskerfinu.