Greiðslujöfnun LSR lána

23.11.2009

Með lagabreytingum, sem nýlega voru samþykktar á Alþingi og gildi taka 1. nóvember 2009, verður öllum afborgunum á verðtryggðum lánum einstaklinga, sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi, nú greiðslujafnað þannig að greiðslubyrði tengist hér eftir greiðslujöfnunarvísitölu í stað upphaflegrar vísitölu láns. Um leið stofnast greiðslujöfnunarreikningur sem tengist hverju láni en á hann færist sá mismunur sem er á hverjum gjalddaga milli afborgunar samkvæmt upphaflegum skilmálum og afborgunar samkvæmt greiðslujöfnun, inn eða út af reikningnum.
Í lok lánstíma skal lántaki greiða af því sem eftir stendur á greiðslujöfnunarreikningi, ef eitthvað er, með greiðslum sem jafnar eru síðustu afborgun af láni á umsömdum lánstíma, en þó aðeins í þrjú ár. Það sem enn stendur eftir á greiðslujöfnunarreikningi að loknum framangreindum þremur viðbótargreiðsluárum skal afskrifað, þ.e. gefið lántaka eftir og afmáð úr veðbókum.

Sjóðfélagalán LSR og LH LSR lán, falla undir framangreinda lagabreytingu og munu því taka þessum breytingum frá og með desember gjalddaga 2009 svo fremi að lán sé í skilum og ekki í “frystingu”. Fram til 20. nóvember 2009 geta lántakar hjá sjóðunum hafnað framangreindri breytingu. Eftir þann dag er lántakendum áfram heimilt að óska eftir að lán þeirra verði tekið úr greiðslujöfnun en þá þarf að gera upp þá fjárhæð sem safnast hefur upp á greiðslujöfnunarreikning  og er hún þá lögð við höfuðstól láns og greiðist á umsömdum lánstíma.

Við greiðslujöfnun mega lántakar vænta að greiðslubyrði lána lækki nokkuð.  Afborganir taka þá mið af greiðslumarki og breytingum sem það tekur miðað við greiðslujöfnunarvísitölu. Greiðslumark lána sem tekin voru fyrir 1. janúar 2008 er fjárhæð afborgunar 1. janúar 2008 ásamt gildandi vöxtum á verðlagi þess dags. Greiðslumark yngri lána tekur mið af lántökudegi.

Um hver greiðslujöfnunarvísitala er segir svo í 6. gr. laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána einstaklinga: “Skal hún vera samsett af launavísitölu, sbr. lög um launavísitölu, sem vegin er með atvinnustigi. Við útreikning greiðslujöfnunarvísitölu skal launavísitala sú sem Hagstofan birtir í mánuði hverjum vegin með atvinnustigi sama mánaðar og skal hún gilda við útreikning greiðslumarks lána. Með atvinnustigi í mánuði er átt við hlutfall sem miðast við 100% að frádregnu atvinnuleysi í hlutfalli af vinnuafli í viðkomandi mánuði samkvæmt uppgjöri Vinnumálastofnunar.”

Stefnt er því að senda öllum lántökum LSR lána nánari upplýsingar í pósti fyrir 20. nóvember nk.
Nánari upplýsingar er hægt að fá á eftirfarandi vefsíðum:

Ísland.is

Félags- og tryggingamálaráðuneytið

Umræða og lög frá Alþingi