Hlutfall eigna LSR og LH á móti skuldbindingum hækkar á árinu 2003

14.05.2004

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga (LH) hafa látið gera tryggingafræðilega úttekt á sjóðunum miðað við árslok 2003. Niðurstaða þeirrar úttektar er að tryggingafræðileg staða sjóðanna batnaði milli ára og hækkar hlutfall eigna á móti skuldbindingum hjá öllum deildum LSR og hjá LH. Bætta stöðu sjóðanna milli ára má rekja til góðrar ávöxtunar sem og innborgana frá ríkissjóði upp í skuldbindingar sínar gagnvart B-deild LSR og LH.

Áfallin skuldbinding A-deildar LSR var í árslok 2003 metin 28,1 milljarður króna en var 21,6 milljarður árið áður. Hækkunin nemur 30,4% milli ára. Núvirtar eignir deildarinnar skv. tryggingafræðilegri úttekt jukust um 6,5 milljarða milli ára og námu 37,9 milljörðum í árslok 2003. Áfallin staða deildarinnar er sterk en eignir hennar voru 34,8% umfram skuldbindingu í árslok. Heildarstaða A-deildar LSR, þ.e. þegar reiknað er með að núverandi sjóðfélagar greiði áfram iðgjöld til ellilífeyrisaldurs og vinni sér inn réttindi í samræmi við það, er neikvæð um 4,1 milljarð króna eða 2,8% lægri en heildarskuldbinding hans. A-deild LSR er stigasjóður sem byggir á fullri sjóðssöfnun og því sjálfur ábyrgur fyrir skuldbindingum sínum.

Áfallin skuldbinding B-deildar LSR hækkaði um 6,2% milli ára og nam 304,1 milljarði króna í árslok 2003. Skuldbindingin hækkaði um 17,6 milljarða á árinu 2003 en hún var 286,4 milljarðar árið áður. Þetta er minnsta hækkun skuldbindinga undanfarin 7 ár eða frá 1997 þegar skuldbindingar deildarinnar hækkuðu um 3,9%. Núvirtar eignir B-deildar LSR skv. tryggingafræðilegri úttekt námu 118,1 milljarði króna í árslok 2003 og hækkuðu 18,7 milljarða milli ára eða um 18,8%. Eignirnar hækkuðu því um 1,1 milljarð umfram skuldbindingar á árinu 2003. Hlutfall eigna á móti skuldbindingu hækkaði einnig, eða um 4,1 prósentustig, og var 38,8% í árslok.

Áfallin skuldbinding Lífeyrissjóðs alþingismanna var 5,5 milljarðar kr. í árslok 2003 og hækkaði um 32,3% á árinu. Áfallin skuldbinding Lífeyrissjóðs ráðherra var 1,1 milljarður í árslok 2003 og hækkaði um 28,3% á árinu.
Með lögum nr. 141/2003 sem tóku gildi 1. janúar 2004 voru sjóðirnir lagðir niður í núverandi mynd og er ábyrgð á greiðslu eftirlauna til alþingismanna og ráðherra hjá ríkissjóði Lagabreytingin fól það í sér að alþingismenn og ráðherrar greiða nú iðgjald til A-deildar LSR og munu þeir fá hluta af sínum lífeyri greiddan úr þeim sjóði í samræmi við réttindaávinnslu sína þar.

Áfallin skuldbinding LH var í árslok 2003 metin 33,8 milljarðar króna en var 29,7 milljarðar árið áður. Hækkunin nemur 13,5% milli ára. Núvirtar eignir sjóðsins skv. tryggingafræðilegri námu 13,9 milljörðum og hækkuðu um 21,6% milli ára. Hlutfall eigna á móti skuldbindingu hækkaði um 2,7 prósentustig árinu 2003 og var 41,2% í árslok.

Samkvæmt lögum um B-deild LSR og LH er ekki gert ráð fyrir því að iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisgreiðslum og skulu launagreiðendur endurgreiða sjóðunum þann hluta lífeyris sem er hækkun á áður úrskurðuðum lífeyri. Sá hluti af skuldbindingum sjóðanna sem launagreiðendur eiga að standa undir samkvæmt ákvæðum laga um sjóðina var metinn 149,2 milljarðar kr. í árslok 2003 eða um 44,2% af skuldbindingunni. Þessi krafa á launagreiðendur kemur til með að verða greidd til sjóðanna í framtíðinni og þannig bætast við eignir þeirra. Eignir B-deildar LSR og LH skv. tryggingafræðilegri úttekt, ásamt kröfu á launagreiðendur, voru samtals 281,2 milljarðar í árslok 2003 eða 83,2% af skuldbindingunni. Það sem á vantar er á ábyrgð ríkissjóðs.