Víkjandi skuldabréf

10.02.2012

Í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða er m.a. bent á að löggjöf sé ekki nógu skýr hvað fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða varðar. LSR tekur undir það mat úttektarnefndarinnar. Nauðsynlegt er fyrir alla aðila að leikreglur séu skýrar og auðskiljanlegar. Vegna umfjöllunar í skýrslunni um víkjandi skuldabréf telur LSR rétt að taka fram:

Samkvæmt lögum um starfsemi lífeyrissjóða er þeim heimilt að fjárfesta í ýmsum tegundum fjármálagerninga, m.a. skuldabréfum, hlutabréfum og öðrum verðbréfum, að uppfylltum nánari skilyrðum. Engar takmarkanir er að finna á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða vegna víkjandi skuldabréfa. Það er mat LSR að fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða nái almennt til fjárfestinga í víkjandi skuldabréfum. Í lögfræðiáliti frá Andra Árnasyni hrl. og Vífli Harðarsyni hdl. um víkjandi skuldabréf, sem unnið var fyrir LSR, er það mat staðfest. Í álitinu segir orðrétt: „Það er álit undirritaðra að heimild í 5. tölulið 1. mgr. 36. gr. lsjl. til fjárfestinga í skuldabréfum fjármálafyrirtækja nái jafnt til víkjandi skuldabréfa og annarra skuldabréfa.“

Að því er varðar sérstaklega kaup LSR á víkjandi skuldabréfi á Glitni kemur fram í lögfræðiáliti þeirra Andra og Vífils að fjárfesting í því hafi verið í fullu samræmi við fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Hins vegar hefði e.t.v. verið rétt að flokka það í eignasafni sjóðsins undir þann eignaflokk sem samkvæmt lögunum eru kölluð „önnur verðbréf“. Ákvarðanir um fjárfestingar í skuldabréfum á Glitni voru teknar í samræmi við verklagsreglur LSR og LH og m.a. ítarlega ræddar í fjárfestingaráði sjóðanna.

Hvað áhættu varðar flokkast víkjandi skuldabréf í kröfuröð á eftir hefðbundnum skuldabréfum en á undan hlutabréfum. Víkjandi skuldabréf námu samtals 3,75% af vel dreifðu eignasafni LSR og LH. Þessi bréf dreifðust á 19 skuldabréfaflokka og á 8 fjármálastofnanir.