Góð ávöxtun – mismunandi eignasamsetning

22.04.2015

Eins og fram hefur komið gekk vel að ávaxta eignir LSR á síðasta ári. Nafnávöxtun upp á 10,1% og hrein raunávöxtun 8,9% er góð ávöxtun, sama hvaða mælikvarða er beitt. Ávöxtun var góð bæði hjá A- og B-deild sjóðsins, en mishá.

Nafnávöxtun A-deildar var 8,7% sem svarar til 7,5% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun B-deildar var 12,2% sem svarar til 10,9% hreinnar raunávöxtunar. Mismunandi ávöxtun skýrist af mismunandi eignasamsetningu deildanna og fyrst og fremst af mismunandi vægi erlendra eigna. Erlend eign lífeyrissjóðsins er nánast eingöngu í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum. Þau skiluðu góðri ávöxtun á síðasta ári, eða 15,6% reiknað í íslenskum krónum.

Hjá A-deild voru um síðustu áramót 22,5% heildareigna í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum á meðan hlutfallið var 43,1% í B-deild. Gjaldeyrishöftin hafa þannig haft mismunandi áhrif á eignasamsetningu deildanna. A-deildin er ung og ört stækkandi deild með mikið innflæði í formi iðgjalda en hlutfallslega litlar lífeyrisgreiðslur. Innflæðið er allt í íslenskum krónum og hlutfall erlendra eigna minnkar því ört þó svo sjóðurinn hafi haldið í þær eignir. Þessu er öfugt farið hjá B-deildinni. Þar eru lífeyrisgreiðslur verulegar umfram innflæði. Sjóðurinn hefur selt innlendar eignir til að eiga fyrir lífeyrisgreiðslum, en haldið í erlendu eignirnar. Hlutfall erlendra eigna hefur því hækkað ört hjá þeirri deild og nálgast brátt 50% sem eru það hámark sem leyfilegt er samkvæmt lögum um starfsemi lífeyrissjóða.