Lífeyrir opinberra starfsmanna ódýrari en af er látið?

06.07.2015

Samkvæmt ársskýrslu LSR eru lífeyrisskuldbindingar B-deildar LSR alls 635 milljarðar króna. Á móti þessu á sjóðurinn eignir upp á 228 milljarða, svo tryggingafræðilegur halli sjóðsins er 407 milljarðar. Ríkið ber að stærstum hluta ábyrgð á þessum mun og þarf að standa skil á greiðslum til sjóðfélaga þegar eignir hans verða uppurnar. Í þessu samhengi má ekki gleyma því að sökum tekjutengingar og skatta er raunkostnaður ríkisins vegna bakábyrgðar mun lægri. Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðingur, reiknaði fyrir LSR þessi áhrif núna í vor, og mat ofangreind áhrif á skuldbindingar ríkissjóðs. Miðaði Benedikt við raunveruleg réttindi núverandi sjóðfélaga B-deildar. 

Niðurstaða úttektarinnar er að miðað við núverandi reglur Tryggingastofnunar, og núverandi skatthlutfall, þá renna strax til baka í ríkissjóð um 52% af upphæð lífeyrisskuldbindinga vegna sparnaðar í greiðslum frá Tryggingastofnun og skatttekna ríkisins af lífeyrisgreiðslum. Neðangreind mynd sýnir þetta. Hrein skuldbinding án framtíðarrekstrarkostnaðar vegna sjóðfélaga í B-deild LSR er 630 milljarðar. Á móti sparar ríkissjóður 123 milljarða í formi lækkaðra greiðslna frá Tryggingastofnun vegna tekjutengingar og ríkið fær 204 milljarða í skatta af þessum  lífeyrisgreiðslum. Nauðsynlegt er að skoða skuldbindingar ríkisins vegna sjóðfélaga í B-deild LSR í þessu samhengi.

Skýrslu Benedikts er að finna hér:  Samspil-almannatrygginga-skatta-og-LSR-B

Sjónræn niðurstaða úttektarinnar í töfluformi