Öll eyðublöð LSR orðin rafræn

19.11.2021

LSR hefur nú tekið í notkun ný rafræn eyðublöð í stað eyðublaða sem áður voru einungis í boði á PDF-formi. Nú er hægt að fylla öll eyðublöðin út hér á lsr.is, undirrita með rafrænum skilríkjum og senda inn.

Með nýju rafrænu eyðublöðunum þurfa sjóðfélagar og launagreiðendur því ekki lengur að prenta út PDF-eyðublöð, undirrita og koma þeim til sjóðsins, heldur geta afgreitt umsóknina beint á netinu. Um leið einfaldar þetta afgreiðslu umsóknanna, því þær fara sjálfkrafa á réttan stað í kerfum sjóðsins. Áður þurfti starfsfólk LSR að vista innsend PDF-eyðublöð handvirkt og stofna ný verkefni þeim tengd.

Með þessu er stigið enn eitt skrefið í að efla rafræna þjónustu LSR, en síðustu ár hefur markvisst verið unnið að því. Margar af helstu umsóknum LSR höfðu áður verið gerðar aðgengilegar rafrænt á Mínum síðum, en eyðublöðin sem nú bætast við eru mörg hver þess eðlis að ekki hentaði að hafa þau einungis á Mínum síðum.

Hægt er að finna yfirlit yfir öll eyðublöð LSR, bæði þau sem eru aðgengileg á Mínum síðum og nýju rafrænu eyðublöðin, á sérstakri síðu LSR fyrir eyðublöð. Ef sjóðfélagar geta af einhverjum ástæðum ekki nýtt sér rafræna undirritun er svo áfram hægt að sækja eyðublöðin á PDF-formi á sérstakri síðu.