Sterkari staða lífeyrissjóðanna

22.06.2021

Úttekt sem Seðlabanki Íslands gerði nýlega um lífeyrissjóðina sýnir að staða þeirra styrktist enn frekar á síðasta ári og nam lífeyrissparnaður landsmanna 206% af vergri landsframleiðslu í árslok. Úttektin sýnir einnig að séreignarsparnaður lífeyrissjóðanna er ákjósanlegur kostur í samanburði við séreignarsparnað annarra vörsluaðila vegna lágra fjárfestingargjalda og góðrar sögulegrar ávöxtunar.

Úttekt Seðlabankans byggir á ársreikningum lífeyrissjóðanna og vörsluaðila séreignarsparnaðar. Þar kemur meðal annars fram að lífeyrissparnaður jókst um 14,9% á árinu 2020 og námu eignirnar samtals 6.036 milljarðar króna í árslok 2020. Það eru 206% af vergri landsframleiðslu og miðað við tölur OECD voru einungis Danmörk og Holland með hærra hlutfall á síðasta ári.

Heildareignirnar skiptust svona:

  • Eignir samtryggingadeilda 5.129 milljarðar króna
  • Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða 594 milljarðar króna
  • Séreignarsparnaður í vörslu annarra aðila 313 milljarðar króna


Góð ávöxtun LSR

Í úttekt Seðlabankans kemur fram að raunávöxtun lífeyrissparnaðar landsmanna á síðasta ári var 9,12%. Til samanburðar má nefna að raunávöxtun LSR á sama tíma var 10,9%, sem er 1,78 prósentustigum yfir ávöxtun heildarinnar.

Lægri fjárfestingargjöld hjá séreign lífeyrissjóðanna

Í úttekt sinni greinir Seðlabankinn jafnframt fjárfestingargjöld sjóðanna og birtir samanburð á hlutfalli fjárfestingargjalda af heildareignum hjá lífeyrissjóðunum annars vegar og öðrum vörsluaðilum séreignarsparnaðar hins vegar, en til þeirra teljast íslenskir bankar og sparisjóðir. Þar koma lífeyrissjóðir vel út í samanburðinum, en kostnaðarhlutfall hjá þeim er að meðaltali 0,31% en er 0,69% hjá öðrum innlendum vörsluaðilum. 

Fjarfestingargjold-SedlabankiHeimild: Seðlabanki Íslands. Miðlína kassaritsins sýnir miðgildi kostnaðarhlutfalls,
neðri mörk fyrstu fjórðungsmörk og efri mörk kassans tákna þriðju fjórðungsmörk.
Lóðréttu línurnar í kassaritinu sýna lág- og hágildi hlutfalls fjárfestingargjalda
af heildareignum.

Þegar kemur að hreinni raunávöxtun séreignarsparnaðar koma lífeyrissjóðirnir einnig vel út í samanburði Seðlabankans: 

Hrein raunávöxtun: 2020 Sl. 5 ár  Sl. 10 ár
 Séreignarsparnaður lífeyrissjóða 8,17% 4,78% 5,01%
 Séreignarsparnaður annarra vörsluaðila 5,63% 5,96% 2,99%
 Séreign LSR - Leið I 13,3% 7,0% 6,3%
 Séreign LSR - Leið II 8,3% 5,4% 5,4%
 Séreign LSR - Leið III 0,6% 1,7% 1,9%
Efri tveir dálkarnir hér fyrir ofan eru úr úttekt Seðlabankans, en neðstu þrír dálkarnir eru tölur fyrir séreignarsjóði LSR til samanburðar. Hér má lesa nánar um fjárfestingaráherslur séreignarsjóða LSR.

Séreignarsparnaður er ein hagkvæmasta tegund sparnaðar sem völ er á, en með honum greiðir launagreiðandi 2% mótframlag í séreignarsparnaðinn, sem er í raun bein launahækkun fyrir launþegann. Sækja þarf sérstaklega um séreignarsparnað, en það er hægt að gera á Mínum síðum hér á lsr.is og tekur það einungis örfáar mínútur.