Fjárfestingarstefna LSR og LH

Í fjárfestingarstefnu LSR og LH eru tilgreindar megináherslur sem unnið er eftir við ávöxtun á fjármunum sjóðanna. Þær miða að því að tryggja góða ávöxtun en jafnframt að takmarka áhættu eftir því sem kostur er. Til að ná þessu marki er eignasamsetning ákveðin samkvæmt fyrirframmótaðri fjárfestingarstefnu, eignir tryggðar sem best og vandað til allra ákvarðana um fjárfestingar og vörslu á eignum sjóðanna.

Stjórnir LSR og LH endurskoða fjárfestingarstefnur sjóðanna eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Við þá endurskoðun er tekið tillit til breytinga sem orðið hafa á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, breytinga sem orðið hafa á umhverfi lífeyrissjóðanna og annarra ytri skilyrða sem áhrif hafa á rekstur og starfsumhverfi þeirra. Í fjárfestingarstefnunni eru sett markmið um eignasamsetningu sjóðsins.

Fjarfestingarstefna

FjarfestingarstefnaSer

Nánari umfjöllun um einstaka verðbréfaflokka

Við ráðstöfun fjármagns og eignastýringu á verðbréfasöfnum sjóðsins eru eftirfarandi viðmið höfð um skiptingu eigna þannig að eignarhluti í einstökum verðbréfaflokkum geti verið á bilinu:

Innlán:

 • Verðtryggðir og óverðtryggðir innlánsreikningar sem og skammtímainnlán á hagstæðustu vöxtum sem bjóðast hverju sinni.

Skuldabréf:

 • Ríkistryggð bréf: Skuldabréf útgefin af ríkissjóði eða með ábyrgð ríkissjóðs, s.s. húsnæðisbréf, húsbréf, íbúðabréf, ríkisbréf og spariskírteini ríkissjóðs.
 • Skuldabréf sveitarfélaga: Skuldabréf útgefin af sveitarfélögum, með trausta rekstrar- og fjárhagsstöðu, eða með ábyrgð þeirra.
 • Skuldabréf lánastofnana: Skuldabréf útgefin af bönkum og sparisjóðum, eignarleigufyrirtækjum, Fjárfestingarlánasjóðum og stofnlánasjóðum atvinnuveganna enda starfi þessir aðilar samkvæmt lögum og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
 • Fasteignaveðtryggð skuldabréf: Skuldabréf tryggð með veði í fasteignum, bundin þeim takmörkunum að veðhlutfall fari ekki yfir 65% af markaðsvirði viðkomandi eignar eða 65% af fasteignamati, hvort sem hærra reynist. Strangari reglur gilda um sérhæft atvinnuhúsnæði.
 • Önnur skuldabréf: Skuldabréf stærri fyrirtækja með trausta eiginfjárstöðu og góða rekstrarafkomu, aðallega skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Hlutabréf:

 • Innlend hlutabréf: Innlend hlutabréf í  samlagshlutafélögum og fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Miðað er við að vægi óskráðra fyrirtækja verði ekki hærra en 15% af innlendri hlutabréfaeign sjóðanna á hverjum tíma.
 • Erlend hlutabréf: Hlutabréfasjóðir eða sérgreind hlutabréfasöfn í hlutafélögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði. Til samstarfs um ávöxtun og fjárstýringu er miðað við að velja fjóra eða fleiri ótengda og óháða aðila.

Sjóðir um sameiginlega fjárfestingu:

 • Framtaks- og fasteignasjóðir sem almennt eru ekki skráðir á markaði og hafa líftíma í kringum 10 ár. Sjóðirnir geta verið sjóðasjóðir eða beinir sjóðir þar sem markmið er um ávöxtun umfram almenna hlutabréfamarkaði. 

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði:

 • Sjóðurinn fjárfestir ekki í íbúðarhúsnæði nema í þeim tilvikum þegar hann þarf að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu.

Gengisbundin verðbréf:

 • Verðbréf og innlán í annarri mynt en íslenskum krónum. 

Markmið og viðmið ávöxtunar

Við árangursmælingar eignaflokka er ávöxtun þeirra borin saman við eftirfarandi viðmið:

 • Viðmið um raunávöxtun innlendra skuldabréfa er 3,5%.
 • Viðmið um ávöxtun erlendra skuldabréfa er Barclays World Global Bond Index.
 • Viðmið innlendra hlutabréfa er úrvalsvísitala aðallista Nasdaq OMXi.
 • Viðmið erlendra hlutabréfa er heimsvísitala hlutabréfa, MSCI World Index.
 • Viðmið um ávöxtun erlendra framtakssjóða er 2% umfram MSCI World Index vísitöluna.