Framsýni og reynsla skilar góðri langtímaávöxtun
Öflugt og reynslumikið eignastýringarteymi LSR sér um að ávaxta eignir séreignarleiða LSR. Séreign LSR hefur skilað góðri langtímaávöxtun í gegnum tíðina, en þú getur valið milli þriggja séreignarleiða sem eru með mismunandi áherslur í fjárfestingarleiðum. Veldu þá leið sem hentar þér best.
Leið I
4,1%
Meðalraunávöxtun sl. 10 ár
Leið II
2,7%
Meðalraunávöxtun sl. 10 ár
Leið III
1,3%
Meðalraunávöxtun sl. 10 ár
Tilgreind séreign
3,9%
Raunávöxtun 2023 (fyrsta starfsár tilgreindrar séreignar)
Árleg nafnávöxtun eftir leiðum
Sér-leið – sjálfvirk færsla milli fjárfestingarleiða
Þú getur óskað eftir að færa inneign þína milli séreignarleiða eða fært iðgjaldagreiðslur þínar yfir á nýja séreignarleið hvenær sem er. Til að gera það fyllir þú út umsókn um breytingu á séreignarsamningi.
Sér-leið er hins vegar þægileg leið til að færa séreignarsparnaðinn sjálfvirkt yfir á Leið III þegar nær dregur útborgun séreignar. Þannig minnkar áhætta og inneignin helst stöðugri síðustu árin fyrir útgreiðslu.
Með Sér-leiðinni velur þú að safna séreignarsparnaðinum í annað hvort Leið I eða Leið II fyrstu árin, en við 55 ára aldur er inneignin flutt sjálfkrafa yfir á Leið III í jöfnum skrefum. Þannig þarft þú ekki að óska sérstaklega eftir því að færa inneign eða iðgjaldagreiðslur í Leið III.
Fjárfestingarstefna Séreignar
Í fjárfestingarstefnu Séreignar LSR eru birtar þær áherslur sem unnið er eftir við ávöxtun á fjármunum. Markmiðið er að tryggja góða ávöxtun en jafnframt að takmarka áhættu eftir því sem kostur er. Það er gert með réttri samsetningu eigna og vandaðri ákvörðunartöku um fjárfestingar og vörslu á eignum sjóðanna.
Stjórn LSR endurskoðar fjárfestingarstefnur séreignarsjóðanna a.m.k. árlega og setur fram markmið um eignasamsetningu þeirra. Þá er tekið tillit til breytinga sem orðið hafa á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, breytinga sem orðið hafa á umhverfi lífeyrissjóðanna og annarra ytri skilyrða sem hafa áhrif á rekstur og starfsumhverfi þeirra.
Mánaðarlega eru birt upplýsingayfirlit Séreignar þar sem fylgast má með gengisþróun síðustu 12 mánuði og eignasamsetningu sjóðanna.
Frekari tölulegar upplýsingar má einnig finna á fjárfestingarsíðum leiðanna.