Spurt og svarað

Á ég lánsrétt?

  • Ef þú ert virkur sjóðfélagi hjá LSR
  • Ef þú hefur einhvern tímann greitt iðgjald til LSR
  • Ef þú ert lífeyrisþegi hjá LSR
  • Ef þú hefur keypt fasteign með áhvílandi láni frá LSR og yfirtekið það.

Hvernig sæki ég um lán?

Þú fyllir út umsókn á eyðublaði sem þú færð hjá sjóðnum eða prentar út og kemur henni til sjóðsins ásamt þeim gögnum sem þurfa að fylgja. Athygli er vakin á því að hægt er að skila inn undirritaðri umsókn og fylgigögnum á netfangið lsr@lsr.is.

Hvaða gögn þurfa að fylgja lánsumsókn?

Sjá upplýsingar um fylgigögn hér.

Hvar næ ég í veðbókarvottorð?

Lífeyrissjóðurinn hefur netaðgang að veðbókarvottorðum vegna flestra eigna á landinu. Bankar, fasteignasölur og fleiri hafa sama aðgang auk þess sem öll sýslumannsembætti gefa út vottorð. Kostnað má sjá í gjaldskrá.

Hvar næ ég í fasteignamat?

LSR útvegar fasteignamat en einnig má nálgast það hjá Þjóðskrá Íslands.

Hvar fæ ég greiðslumat?

LSR framkvæmir greiðslumat.

Hvenær þarf greiðslumat?

Áður en lán er veitt þarf greiðslumat. Athygli er vakin á því að einnig gæti þurft greiðslumat við skilmálabreytingu. LSR framkvæmir greiðslumat.

Hvað er lánshæfismat?

Lánshæfismat er mat lánveitanda á lánshæfi lántaka um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Samkvæmt lögum um neytendalán er lánveitanda skylt að meta lánshæfi.

Hversu hátt lán get ég fengið hjá LSR?

Hver sá sem á lánsrétt getur fengið lán hjá LSR að fjárhæð allt að kr. 50.000.000 samanlagt, enda uppfyllir lánið kröfur um veðhæfi fasteignar og lántaki stenst lánshæfis- og greiðslumat eftir því sem við á.

Er lágmark á lánsfjárhæð?

Já, lágmarksfjárhæð láns er kr. 1.000.000, enda á viðkomandi lánsrétt og lánið uppfyllir kröfur um veðhæfi fasteignar og lántaki stenst lánshæfis- og greiðslumat eftir því sem við á.

Hvernig sé ég greiðslubyrði láns?

Með lánareiknivélinni er hægt að reikna út greiðslubyrði láns.

Hvaða kröfur gerið þið um veð?

Lánað er gegn veði í íbúðarhúsnæði allt að 65% eða 75% af fasteignamati eða kaupverði. Skilyrðin fyrir 75% veðhlutfalli eru að LSR láni gegn 1. veðrétti eða að LSR láni í samfelldri veðröð frá og með 1. veðrétti. Þó er heimilt að vera með lán frá öðrum lánveitanda ef lánsfjárhæðin er innan við 10% af verðmæti fasteignar. Heildarfjárhæð lána má þó aldrei fara yfir samtölu brunabótamats og lóðarmats. Eingöngu við sérstakar aðstæður skv. mati LSR er heimilt að miða veðsetningu við verðmat löggilts fasteignasala. Hámarksfjárhæð lána hjá LSR samanlagt er kr. 50.000.000. Nánari ákvæði eru í lánareglum.

Get ég fengið lán út á lánsveð?

Nei.

Hver er lánstíminn?

Lánstími er 5 til 40 ár.

Er hægt að greiða lán upp?

Já. Lán má greiða upp hvenær sem er án nokkurs kostnaðar. Vinsamlega setjið lánsnúmer í skýringu greiðslu.
Greiða má inn á reikning 0334-26-54590 kt: 711297-3919.

Er hægt að greiða inn á höfuðstólinn?

Já. Greiða má inn á höfuðstólinn hvenær sem er án nokkurs kostnaðar. Vinsamlega setjið lánsnúmer í skýringu greiðslu.
Greiða má inn á reikning 0334-26-54590 kt: 711297-3919.

Veðleyfi - er hægt að taka lán hjá öðrum lánastofnunum og fara fram fyrir LSR í veðröð ?   

LSR hleypir ekki öðrum lánastofnunum fram fyrir sig í veðröð nema í þeim tilvikum þegar gefið er út skilyrt veðleyfi.  Í þeim tilvikum ábyrgist sú lánastofnun sem fer fram fyrir LSR í veðröð að greiða lán LSR að fullu með hinu nýja láni eða lánastofnunin ábyrgist að greiða að fullu það lán sem var fyrir framan LSR í veðröð svo að veðstaða LSR verði ekki lakari. 

Ég er með gamalt lán hjá ykkur. Á ég rétt á að taka annað nýtt lán hjá sjóðnum?

Já, ef greiðslugeta og fullnægjandi veð er fyrir hendi.

Ég hef aldrei greitt í sjóðinn en er með lán hjá LSR á eigninni minni. Á ég þá rétt á láni hjá sjóðnum?

Já, ef veðhæfni eignarinnar er nægjanleg, þá getur eigandi eignarinnar fengið lán hjá sjóðnum.  

Þarf maki minn einnig að gerast lántaki hjá sjóðnum þó hann sé ekki sjóðfélagi?

Já, en þó eingöngu í þeim tilvikum ef hann á fasteignina sem boðin er fram sem veð í heild eða hluta á móti sjóðfélaga.