Tilgreind séreign hjá LSR
Sjóðfélögum LSR mun standa til boða að greiða í tilgreinda séreign, en með því fá sjóðfélagar aukinn sveigjanleika við skipulagningu sinna starfsloka og hvernig lífeyrisiðgjaldi er varið. Áætlað er að hægt verði að hefja söfnun í tilgreinda séreign frá miðju ári 2023.
Hvað er tilgreind séreign?
Skylduiðgjald til lífeyrissjóða er 15,5% af launum. Hingað til hefur þetta iðgjald allt runnið í svokallaðan samtryggingarsjóð hjá LSR, þ.e. sjóð sem veitir rétt til eftirlauna til æviloka, örorkulífeyris og makalífeyris. Með innleiðingunni gefst sjóðfélögum kostur á að lækka þetta hlutfall í samtryggingu en nýta þess í stað allt að 3,5% af iðgjaldinu í tilgreinda séreign.
Helstu einkenni tilgreindrar séreignar eru:
- Iðgjaldið verður einkaeign sjóðfélaga
- Erfist samkvæmt erfðalögum
- Hægt að taka út frá 62 ára aldri
- Hægt að ráðstafa til fyrstu íbúðakaupa ef greiðslur úr hefðbundnum séreignarsparnaði fullnýta ekki árlega heimild
- Greiðslur koma til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar
Mikilvægt er að hafa í huga að með því að lækka greiðslur í samtryggingarsjóð munu eftirlaun sem greidd eru til æviloka lækka, auk þess sem réttur til örorkulífeyris og makalífeyris lækkar.
Ef þú velur t.d. að greiða 3,5% í tilgreinda séreign lækkar iðgjaldið þitt í samtryggingarsjóð sem því nemur. Samtryggingariðgjaldið verður þá 12% af launum í stað 15,5% og eftirlauna- og örorkuréttindi lækka í sama hlutfalli. Þannig ávinnurðu þér 77,4% af þeim eftirlauna- og örorkuréttindum sem þú hefðir annars fengið (12/15,5=77,4%).
Áður en byrjað verður að bjóða upp á tilgreinda séreign mun LSR kynna sjóðfélögum þjónustuna með ítarlegri hætti.