Um tegundir og fjárhæð lífeyris

Hér færð þú allar upplýsingar um greiðslu lífeyris

Samkvæmt lögum er okkur skylt að greiða iðgjald af launatekjum í lífeyrissjóð. Ríkisstarfsmenn og aðrir, sem eiga aðild, greiða ýmist í A-deild eða B-deild LSR.

Einfalda reglan er að ef þú byrjaðir að greiða til LSR árið 1997 eða seinna ertu í A-deild, en ef þú hefur greitt stöðugt í LSR frá 1996 eða fyrr er líklegt að þú sért í B-deild. Ef þú ert ekki viss í hvorri deildinni þú átt réttindi geturðu séð það með því að skrá þig inn á Mínar síður og fara í yfirlit lífeyrisréttinda.

A-deild LSR

var stofnuð við lagabreytingar 1997. Þangað greiða nýir sjóðfélagar, 16 ára og eldri, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna og starfa hjá ríki, sveitarfélögum, hjá skyldum eða sambærilegum launagreiðendum. A-deildin byggir á fullri sjóðsöfnun.

Þann 1. júní 2017 tóku gildi breytingar á lögum um A-deild LSR. Samkvæmt lögunum var tekið upp breytt réttindakerfi hjá deildinni með aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri.

B-deild LSR

er eldra réttindakerfi LSR og var lokað fyrir nýjum sjóðfélögum í árslok 1996. Sjóðfélagar sem greiddu til B-deildar í árslok 1996 áttu áfram rétt til aðildar. Þeir, sem kusu að flytja sig yfir í A-deild, eiga áfram geymd réttindi í B-deild. B-deild er að mestu gegnumstreymissjóður en byggir að hluta til á sjóðsöfnun.

 

Þann 1.1.2018 sameinaðist LH - Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga B-deild LSR.  

 

Réttindi sjóðfélaga sem voru hjá LH voru flutt yfir í B-deild LSR og réttindakerfi sjóðanna samræmt. Þess hefur verið gætt að enginn sjóðfélagi tapi réttindum vegna sameiningarinnar.

Samkvæmt lögum um LH er hjúkrunarfræðingum heimilt að greiða í sjóðinn án tillits til starfshlutfalls en samkvæmt lögum um B-deild LSR má starfið eigi vera minna en hálft starf til að heimilt sé að greiða í B-deild. Þessi sérregla fyrir sjóðfélaga LH fellur niður og mun sama regla gilda um þá og sjóðfélaga í B-deild LSR. Þó mun þeim hjúkrunarfræðingum sem greiddu af minna en 50% starfshlutfalli á árinu 2017 vera það heimilt áfram.