Saga LSR

Saga íslenska lífeyriskerfisins nær aftur til ársins 1855. LSR er elsti lífeyrissjóður landsins, en upphaf sjóðsins má rekja aftur til ársins 1919 þegar fyrsti eiginlegi lífeyrissjóðurinn varð til hér á landi. LSR fagnaði því 100 ára afmæli á árinu 2019.

1855

Grunnur að lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna var lagður með tilskipun Friðriks VII Danakonungs frá 31. maí 1855 um að lögleiða á Íslandi lög um eftirlaun embættismanna frá 5. janúar 1851. Með lögunum var sérhverjum embættismanni tryggður réttur til eftirlauna „þegar honum er veitt lausn frá embætti fyrir aldurs sakir eða heilsulasleika, eða annarra orsaka vegna, sem honum er ósjálfrátt“. Ekki var gert ráð fyrir uppsöfnun lífeyrisréttinda heldur skyldu „eptirlaunin verða borguð úr ríkissjóðnum“, eins og sagði í 2. gr. laganna.

Sama ár voru með opnu bréfi konungs frá 31. maí lögleidd á Íslandi, með nokkrum breytingum, lög 5. janúar 1851, um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag.

1880

27. febrúar 1880 voru sett lög um eftirlaun presta nr. 4/1880.

1884

Lög um eftirlaun prestsekkna nr. 13/1884 voru sett á árinu 1884. Breytingar voru síðar gerðar á lögunum með lögum nr. 36/1895.

1904

Ný heildarlög um eftirlaun voru sett með lögum nr. 4/1904. Rétt eins og fyrri lög um eftirlaun frá 1851 kváðu þau á um eftirlaun til þeirra sem fengið höfðu konungsveitingu fyrir embætti og þáðu laun úr landssjóði. Réttur þeirra sem voru í embættum þegar lögin voru sett fór þó enn eftir eldri lögum.

Samhliða voru sett lög um skyldu embættismanna til að safna sér ellistyrk eða kaupa sér geymdan lífeyri nr. 5/1904. Samkvæmt 2. gr. þeirra skyldi embættismaður árlega verja 2% af launum sínum til að safna sér ellistyrk. Kysi hann heldur að kaupa geymdan lífeyri, sem allur misstist ef kaupandi lífeyrisins dæi áður en til hans væri tekið, skyldi hann árlega verja til þess 11⁄3% af launum sínum.

1905

Sett voru lög nr. 28/1905 um viðauka við opið bréf 31. maí 1855 um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag. Með lögunum var embættismönnum gert kleift að fullnægja skyldu sinni í þessu tilliti með kaupum á lífsábyrgð í lífsábyrgðarstofnun ríkisins. Ábyrgðin skyldi vera að lágmarki 15 sinnum hærri en líffé það, sem embættismaðurinn var skyldur til að tryggja ekkju sinni.

1907

Lög nr. 48/1907 um eftirlaun presta og lög nr. 49/1907 um skyldu presta til að kaupa ekkjum sínum lífeyri voru sett. Um leið gengu úr gildi eldri lög nr. 4/1880 um eftirlaun presta og nr. 13/1884 um eftirlaun prestsekkna.

Fyrsti lífeyrissjóðurinn

1919

Fyrsti eiginlegi lífeyrissjóðurinn varð til 28. nóvember 1919, með gildistöku laga nr. 72/1919 um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn og um skyldur þeirra til að kaupa sér geymdan lífeyri. Sjóðnum var ætlað að tryggja embættismönnum, er létu af embætti sökum elli og vanheilsu, geymdan lífeyri, sbr. 1. gr. laganna. Til kaupa á lífeyri skv. lögunum var embættismönnum gert að verja 5% af árslaunum sínum, upp að 5.000 kr, en ríkissjóður lagði sjóðnum til stofnfé að fjárhæð 50.000 kr. Því má segja að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins eigi rót að rekja til þessarar lagasetningar þótt heiti sjóðsins og starfsemi hafi vissulega breyst síðar. Við gildistöku laganna féllu úr gildi lög nr. 4/1904 um eftirlaun, nr. 5/1904 um skyldu embættismanna til að safna sér ellistyrk eða kaupa geymdan lífeyri og nr. 48/1907 um eftirlaun presta. 

Samhliða voru sett lög um ekkjutryggingu embættismanna nr. 73/1919. Með lögunum voru jafnframt felld úr gildi eldri lög um ekkjutryggingu embættismanna og presta frá 1855 og 1907.

1921

Þrátt fyrir að nýlega hefðu verið sett lög um lífeyrissjóð fyrir embættismenn og ekkjutryggingu þeirra voru ný sett árið 1921, nr. 51/1921 um Lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra. Með þeim var reglum laga nr. 72/1919 og 73/1919 steypt saman í ein heildarlög.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 51/1921 kemur fram að þau séu lögð fram að beiðni sambands starfsmanna ríkisins. Ástæða þess mun hafa verið óánægja með reglurnar frá 1919. Þær fólu í sér samtryggingu lífeyrisréttinda embættismanna en ekkjutryggingunni var þannig háttað að byrðin hvíldi á hverjum embættismanni fyrir sig, eftir aðstæðum hans, og var því mjög misþung. Með lögum nr. 51/1921 var ekkjutryggingin felld undir sameiginlegan lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra. Um leið var iðgjaldið hækkað úr 5% í 7% af árslaunum.

Sama ár voru sett lög nr. 33/1921 um Lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra.

1928

Sett voru lög nr. 15/1928 um lífeyri fastra starfsmanna Búnaðarfjelags Íslands. Með lögunum var ákveðið að lög nr. 51/1921 um Lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra skyldu líka gilda um fasta starfsmenn Búnaðarfélags Íslands.

1938

Komið var á fót Lífeyrissjóði ljósmæðra með lögum nr. 86/1938.

1944

Með lögum nr. 101/1943 var nafni sjóðsins breytt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, skv. 1. gr. laganna. Lögin tóku gildi árið 1944. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 101/1943 voru sjóðfélagar nú, auk þeirra embættismanna sem aðgang höfðu að sjóðnum samkvæmt eldri lögum, allir aðrir starfsmenn sem þáðu laun úr ríkissjóði og ráðnir voru til eins árs eða lengur, enda væri starf þeirra í þjónustu ríkisins aðalstarf þeirra. Þeim starfsmönnum ríkisins sem rétt áttu á lífeyri úr öðrum sjóðum, svo sem barnakennurum og hjúkrunarkonum, var þó ekki skylt að gerast sjóðfélagar.

Samhliða voru sett ný heildarlög um Lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra nr. 102/1943 og Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna komið á fót með lögum nr. 103/1943.

1955

Árið 1955 voru lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 101/1943 endurútgefin sem lög nr. 64/1955. Um leið voru lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna endurútgefin sem lög nr. 65/1955 og lög um Lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra sem lög nr. 66/1955.

Ekki voru gerðar grundvallarbreytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins en tilefni endurútgáfunnar mun hafa verið að fella inn ýmsar minni háttar breytingar sem á þeim höfðu verið gerðar.

1963

Ný heildarlög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 29/1963 og Lífeyrissjóð barnakennara nr. 85/1963 voru sett.
Eitt helsta tilefni endurskoðunar laganna var nauðsyn á endurskoðun á sambandi sjóðsins við almannatryggingar. Jafnframt var regla eldri laga um að miða elli-, örorku- og makalífeyri við meðaltal síðustu 10 ára felld niður og í stað þess miðað við síðustu laun sjóðfélaga. Ástæða þess var að mikil verðbólga og hraðfara hækkun á krónutölu launa skekkti mjög meðaltal launa síðustu 10 ára til lækkunar fyrir lífeyrisþega.

1965

Sett voru ný heildarlög um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna nr. 16/1965. Jafnframt voru sett lög um eftirlaun alþingismanna nr. 46/1965 og lög um eftirlaun ráðherra nr. 47/1965. Í lögunum var kveðið á um að alþingismenn skyldu greiða iðgjald í sérstaka alþingismannadeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ráðherrar í sérstaka ráðherradeild. Áður höfðu verið ákvæði um eftirlaun alþingismanna í lögum um þingfararkaup alþingismanna og eftirlaun ráðherra í lögum um laun starfsmanna ríkisins.

1969

Sett voru lög um eftirlaun forseta Íslands nr. 26/1969.

1980

Með lögum nr. 93/1980 var Lífeyrissjóður barnakennara sameinaður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

1990

Árið 1990 átti sér stað umfangsmikil lagahreinsun. Með lögum nr. 118/1990 voru ýmis lög felld úr gildi, þ. á m. lög er vörðuðu opinbera starfsmenn og lífeyri þeirra. Skv. 3. gr. laganna voru m.a. úr gildi felld:

  • Tilskipun sem lögleiðir á Íslandi lög 5. janúar 1851, um eftirlaun, 31. maí 1855.
  • Opið bréf, sem lögleiðir á Íslandi með nokkrum breytingum lög 5. janúar 1851, um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag, 31. maí 1855.
  • Lög um eftirlaun, nr. 4/1904.
  • Lög um skyldu embættismanna til að safna sér ellistyrk eða kaupa sér geymdan lífeyri, nr. 5/1904.
  • Lög um viðauka við opið bréf 31. maí 1855, um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag, nr. 28/1905.

Ofangreind lög voru því formlega í gildi fram til ársins 1990 en í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 118/1990 segir um 3. gr. að þar sé „lagt til að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti að ýmis eldri lagafyrirmæli um lífeyri opinberra starfsmanna eða einstakra flokka þeirra verði numin úr lögum, enda gegna þau ekki neinu hlutverki lengur“.

1992

Lög um Lífeyrissjóð ljósmæðra voru felld úr gildi með lögum nr. 18/1992.

Stofnun A-deildar

1997

Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins voru endurútgefin með núgildandi lögum nr. 1/1997 og um leið voru endurútgefin lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga með lögum nr. 2/1997, sbr. lög um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins nr. 141/1996.

Með lögunum voru gerðar umtalsverðar breytingar á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Sjóðnum var skipt í tvær fjárhagslega sjálfstæðar deildir, A-deild og B-deild. Þeir sem þegar áttu aðild að sjóðnum við gildistöku laganna greiddu í B-deild og héldu að meginstefnu óbreyttum réttindum. Nýir sjóðfélagar og þeir sem kusu að færa sig úr eldra kerfi í nýtt greiddu til A-deildar, þar sem komið var á fót nýju réttindakerfi. Samkvæmt eldra kerfi fór lífeyrisréttur sjóðfélaga eftir því hversu lengi þeir höfðu greitt iðgjald til sjóðsins, í hvaða starfshlutfalli þeir voru á hverjum tíma og því starfi sem þeir gegndu við starfslok. Í nýja kerfinu, sem komið var á fót með A-deildinni, var lífeyrisréttur reiknaður eftir stigakerfi, þar sem réttindaávinningur hvers árs fór eftir fjárhæð iðgjalda á hverjum tíma. Samhliða þessu var gert ráð fyrir að sjóðfélagar í A-deild greiddu iðgjald af öllum launum alla starfsævi sína og eldri reglur um niðurfellingu iðgjaldagreiðslu við ákveðin tímamörk voru afnumin hjá deildinni. Jafnframt voru gerðar verulegar breytingar á útreikningsreglum elli-, örorku- og makalífeyris hjá A-deildinni miðað við eldri lög sjóðsins.

Stofnun Séreignardeildar

1999

Séreignardeild LSR tók til starfa 1. janúar 1999. Í Séreignardeild er tekið við frjálsum viðbótarlífeyrissparnaði til ávöxtunar.

2003

Sett voru lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara nr. 141/2003 og um leið voru eldri lög og ákvæði um eftirlaun þessara hópa felld úr gildi.

2009

Lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara voru felld úr gildi með lögum nr. 12/2009. Um leið voru þessir hópar felldir undir almenn ákvæði laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og gert ráð fyrir að þeir greiddu í A-deild sjóðsins.

2017

1. júní 2017 tóku gildi lög nr. 127/2016 um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997, þar sem gerðar voru veigamiklar breytingar á A-deild sjóðsins. Eftir breytingarnar starfar deildin á grundvelli almennu lífeyrissjóðalaganna, laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en ekki á grundvelli sérreglna í lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Markmiðið með breytingunum var að samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Í athugasemdum við frumvarp það sem var að lögum nr. 127/2016 segir að lengi hafi verið stefnt að því að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum og að þetta sé liður í því. Umrædd breyting náði ekki til B-deildar sjóðsins sem starfar áfram á sama grundvelli og áður.

2018

1. janúar 2018 féllu lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga nr. 2/1997 úr gildi og sjóðurinn sameinaðist B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með lögum nr. 35/2017. Frá og með sama tíma fer um réttindi og skyldur sjóðfélaga og launagreiðanda samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997.