Útgreiðslur séreignarsparnaðar

Útborgun séreignarsparnaðar getur hafist við 60 ára aldur og eru útborgunarreglur sveigjanlegar. Skila þarf inn útfylltri og undirritaðri umsókn til sjóðsins.

Mánaðarlegar greiðslur séreignarsparnaðar eru afgreiddar 1. hvers mánaðar en stakar greiðslur eru jafnan afgreiddar næsta föstudag eftir að umsókn er afgreidd. Einungis er þó hægt að fá eina greiðslu úr séreign í hverjum mánuði. Tekjuskattur er dreginn af við útborgun.

Vegna aldurs

Réttur til útborgunar er við 60 ára aldur og er þá heildarinneign laus til útborgunar. Útborgun getur þó aldrei hafist fyrr en tveimur árum eftir að fyrsta greiðsla barst sjóðnum. 


 

Vegna andláts

Séreignarsparnaður erfist og er laus til útborgunar við andlát sjóðfélaga. Maka- og barnalífeyrir er greiddur beint til erfingja. Tekjuskattur er dreginn af séreignarsparnaði við útborgun en ekki erfðafjárskattur.

Erfingjar þurfa fyrst að sækja um skiptingu séreignar og eiga þann kost að geyma inneignina og ávaxta áfram eða að sækja um útborgun maka- og barnalífeyris úr Séreign LSR með því að sækja um útgreiðslu á séreignarsparnaði.

Ef ekki er um lögerfingja er að ræða, rennur séreignarsparnaðurinn inn í dánarbú.


Vegna örorku

Heimilt er að fá séreignarsparnað greiddan fyrir 60 ára aldur ef um örorku er að ræða. Inneign skal þá dreift jafnt á 7 ár, miðað við 100% örorku. Ef örorka er metin minni en 100% lækkar árleg greiðsla í sama hlutfalli og útborgunartíminn lengist sem því nemur.

Sjóðfélagi sem hefur öðlast rétt til útborgunar vegna örorku getur óskað eftir útborgun með eingreiðslu sé inneign undir ákveðinni viðmiðunarfjárhæð. Viðmiðunarfjárhæðin breytist í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs. Viðmiðunarfjárhæðin er kr. 1.797.406 í júní 2024.

 

 

Flýtileiðir