Spurt og svarað

Almennt

Hvað er séreignarsparnaður?

Vegna ákvæða laga um frestun skattlagningar, sem fela það í sér að draga má greidd lífeyrisiðgjöld sem nema allt að 8% af heildarlaunum frá skattstofni, þá er heimilt að greiða allt að 4% af heildarlaunum sem iðgjald í séreignarsjóð til viðbótar við lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð. Sjóðfélagar í séreignarsjóð eiga þá jafnan kost á mótframlagi frá launagreiðanda sem getur numið allt að 2% til viðbótar.

Hverjir geta greitt í Séreign LSR?

Rétt til aðildar að Séreign LSR hafa þeir sem greiða eða hafa greitt iðgjald til einhvers eftirtalinna sjóða: A-deild LSR, B-deild LSR, Lífeyrissjóðs alþingismanna, Lífeyrissjóðs ráðherra. Sama gildir um þá sem átt gætu rétt til aðildar skv. 3. gr. laga um LSR svo sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB, BHM, KÍ og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Reglurnar eru býsna rúmar og geta tekið til allra á launakjörum opinberra starfsmanna sem og starfsmanna ýmissa sjálfseignarstofnana, sveitarfélaga og menningar- og uppeldisstofnana. Rétt er að leita upplýsinga hjá starfsmönnum sjóðsins ef vafi leikur á rétti til aðildar að séreignardeildinni.

Hvað er Sér-leið?

Sér-leið er þægilegt sparnaðarform sem hefur það markmið að fjárfestingarstefna fylgi aldri sjóðfélaga og áhættuvali hans. Það er eðlilegt að draga úr vægi áhættumeiri fjárfestinga eftir því sem fólk eldist og nær dregur lífeyrisgreiðslum. Sjóðfélagar hafa val um Leið I og Leið II til 55 ára aldurs en flytjast þá sjálfkrafa í Leið III sem ávaxta séreignarsparnaðinn á verðtryggðum innlánsreikningum.

Hvaða fjárfestingarleið á að velja í séreignarsparnaði?

Valin fjárfestingarleið fer eftir áhættuþoli og aldri hvers og eins. Almenna reglan er sú að eftir því sem sjóðfélagi er yngri því meira er áhættuþol hans, hann hefur lengri tíma til að ávaxta sparnað sinn og þolir því frekar sveiflur sem fylgja hlutabréfaverði. Jafnan er það svo að fjárfestingar í skuldabréfum eru áhættuminni en fjárfestingar í hlutabréfum. Sögulega séð hafa hlutabréf gefið af sér hærri ávöxtun en skuldabréf en áhætta og sveiflur eru jafnframt meiri.

Hvernig virkar tilgreind séreign hjá LSR?

Hér má sjá upplýsingar um tilgreinda séreign hjá LSR.

Útgreiðslur

Hvenær er hægt að sækja um útborgun séreignar?

Séreignarsparnaður er laus til útborgunar við 60 ára aldur.

Hvernig sæki ég um útborgun séreignar? 

Sjóðfélagi í Séreign LSR getur fyllt út umsókn um útgreiðslu á Mínum síðum hér á vef LSR. Skrifa þarf undir umsóknina með rafrænum skilríkjum.

Hvernig er útgreiðslum hjá Séreign LSR háttað?

Almennt er greitt út vikulega og 1. hvers mánaðar.

Er skattur greiddur af útborgun séreignar?

Við útborgun er greiddur tekjuskattur af fjárhæðinni samkvæmt tvískiptri þrepaskiptingu tekjuskatts. Sjóðurinn sér um að standa skil á tekjuskatti.

Hvað þýðir skattfrestun?

Skattfrestun þýðir að staðgreiðsla skatta er dregin af við útborgun lífeyris en ekki við iðgjaldaskil.

Get ég nýtt skattkortið mitt?

Já, þú getur nýtt skattkortið þitt ef það er ekki fullnýtt annars staðar. 

Sérstök heimild til úttektar á séreignarsparnaði frá og með 1. apríl 2020

Nánar um sérstaka heimild til úttektar á séreignarsparnaði vegna COVID-19

Alþingi samþykkti árið 2020 lög þar sem kveðið er á um tímabundna heimild til úttektar séreignarsparnaðar vegna COVID-19. Heimildin var framlengd í maí 2021.

  • Hámarksúttekt miðast við 12.000.000 kr., óháð því hvort samanlagður séreignarsparnaður sé í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila.
  • Inneignin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á 15 mánuðum eða 800.000 kr. á mánuði fyrir skatt.
  • Útgreiðslutími styttist ef um lægri fjárhæð en 12.000.000 kr. er að ræða.
  • Inneignin sem hægt verður að taka út miðast við stöðuna 1. apríl 2021, en þó aldrei hærri fjárhæð en kr. 12.000.000.
  • Umsóknartímabilið er til 1. janúar 2022.
  • Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila.
  • Tekjuskattur er dreginn af útgreiðslunni.
  • Útgreiðslan skerðir ekki vaxta-, barna- eða aðrar tryggingabætur.

Lesa má um lögin á vef Alþingis.