A-deild
Rétt iðgjaldaskil
Vinsamlega athugið að A-deild LSR er lokaður lífeyrissjóður fyrst og fremst fyrir ríkisstarfsmenn og þarf því að athuga hvort öll aðildarskilyrði séu uppfyllt áður en iðgjöld eru greidd.
Iðgjaldagreiðslur til A-deildar standa yfir frá mánuðinum eftir að sjóðfélagi verður 16 ára til og með mánuðinum sem hann verður 70 ára.
Iðgjaldastofn og endurhæfingarsjóður
Iðgjald skal greiða til A-deildar af heildarlaunum.
Til iðgjaldastofns skal telja hvers kyns greiðslur sem eru skattskyldar tekjur hjá sjóðfélaganum, svo sem dagvinnulaun, yfirvinnulaun og hvers konar önnur laun, biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, greiðslur, fríðindi og hlunnindi, sem eru ígildi launa. Ökutækjastyrki, dagpeninga, fæðispeninga og aðrar slíkar greiðslur skal aðeins telja til gjaldstofns að því leyti sem þær eru ekki endurgreiðsla á útlögðum kostnaði.
Að auki reiknast endurhæfingarsjóður 0,10% af heildarlaunum sem skal einnig skilast til sjóðsins.
- Hlutur sjóðfélaga er 4%.
- Mótframlag launagreiðanda er 11,5%.
- Endurhæfingarsjóður er 0,10%.
Sérstakt iðgjald
- Á við um þá starfsmenn sem hafa greitt í A-deild LSR eða A-deild Brúar fyrir 1. júní 2017 og eiga enn rétt á jafnri ávinnslu réttinda.
Launagreiðendum sem eru ekki að meirihluta fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum ber að greiða sérstakt iðgjald til þess að starfsmenn þeirra haldi jafnri ávinnslu réttinda.
- Iðgjald þetta er breytilegt, frá og með 1. janúar 2024 varð það 4,58% og hlutur launagreiðanda því samtals 16,08%.
Frágangur skilagreina til A-deildar og greiðsla iðgjalda
Skilagrein skal vera merkt A-deild með SAL númer 660. Kennitala A-deildar er 550197-3409.
Gjalddagi iðgjalda er 10. dagur næsta mánaðar eftir launatímabil og skila skal iðgjöldum eigi síðar en síðasta dag þess mánaðar er iðgjald fellur á gjalddaga, ellegar reiknast dráttarvextir.
LSR býður upp á að krafa myndist sjálfkrafa í heimabanka. Sendið beiðni á idgjold@lsr.is sé þess óskað.