Fjárfestingarleiðir

Fjárfestingarleiðir Séreign LSR

Sjóðfélagar í Séreign LSR geta valið milli leiðar I, leiðar II, leiðar III og Sér-leiðar þar sem fjárfestingarstefna breytist sjálfkrafa eftir aldri sjóðfélaga.

Leið I - Meiri sveiflur í ávöxtun

Samkvæmt fjárfestingarstefnu leiðar I er vægi hlutabréfa hærra en vægi skuldabréfa sem þýðir að sveiflur í ávöxtun geta orðið nokkrar. Jafnframt er hlutfall gengisbundinna eigna hærra en í Leið II sem felur í sér aukna áhættu. Leið I hentar þeim sem eiga mörg ár til starfsloka og hafa því tímann fyrir sig til að jafna út sveiflurnar og eiga von á að uppskera háa ávöxtun.

Leið II - Minni sveiflur í ávöxtun

Samkvæmt fjárfestingarstefnu leiðar II er vægi skuldabréfa hærra en vægi hlutabréfa sem þýðir að sveiflur í ávöxtun verða minni en í leið I og áhættan er þ.a.l. minni. Leið II hentar þeim sem eiga þó nokkur ár til starfsloka en vilja taka miðlungsáhættu og vilja litlar sveiflur í ávöxtun.

Leið III - Lágmarkssveiflur í ávöxtun

Samkvæmt fjárfestingarstefnu leiðar III er séreignarsparnaðurinn ávaxtaður að öllu leyti á verðtryggðum innlánsreikningum. Þessi leið hentar einkum þeim sem eiga skammt í lífeyristöku eða þeim sem vilja lágmarks áhættu og lágmarka sveiflur í ávöxtun. Ávöxtun í leið III er sambærileg við ávöxtun á bankareikningi með hæstu verðtryggðu vöxtum og breytast vextirnir með almennu vaxtastigi. Eign leiðar III er dreift jafnt á þrjár innlánsstofnanir. Reglulega er leitað að sem bestum kjörum til handa sjóðfélögum og mun Séreign LSR velja hagstæðustu innlánskjör á hverjum tíma.

Sér-leið

Sér-leið er þægilegt sparnaðarform sem hefur það markmið að fjárfestingarstefna fylgi aldri og áhættuvali sjóðfélaga. Það er eðlilegt að draga úr vægi áhættumeiri fjárfestinga eftir því sem fólk eldist og nær dregur lífeyrisgreiðslum. Sjóðfélagar hafa val um tvær fjárfestingaleiðir til 55 ára aldurs en flytjast þá í leið III sem ávaxtar séreignarsparnaðinn á verðtryggðum innlánsreikningum. Sjóðfélagar í Sér-leið fá senda til sín tilkynningu um flutninginn og framkvæmd hans.

  Sveiflur í ávöxtun
 Aldur í Sér-leið
 Leið I  Meiri sveiflur  54 ára og yngri
 Leið II  Minni sveiflur  54 ára og yngri
 Leið III  Lágmarkssveiflur  55 ára og eldri

Velji sjóðfélagi eina af leiðunum þremur helst sú fjárfestingarleið óbreytt en í Sér-leið færist inneign sjálfkrafa milli leiða eftir aldri og áhættuvali. Hægt er að skipta um fjárfestingarleið hvenær sem er á sparnaðartímanum án aukakostnaðar. Einnig er unnt að nýta sér fleiri en eina fjárfestingarleið og dreifa áhættunni kjósi rétthafar svo. Við mælum með Sér-leið sem er þægilegur kostur í séreignarsparnaði.

Við val á fjárfestingarleið er skynsamlegt að taka mið af aldri og viðhorfi til áhættu. Almenna reglan er sú að eftir því sem sjóðfélagi er yngri því meira er áhættuþol hans, hann hefur lengri tíma til að ávaxta sparnað sinn og þolir því frekar sveiflur sem fylgja hlutabréfaverði. Jafnan er það svo að fjárfestingar í skuldabréfum eru áhættuminni en fjárfestingar í hlutabréfum. Sögulega séð hafa hlutabréf gefið af sér hærri ávöxtun en skuldabréf en áhætta og sveiflur eru jafnframt meiri. Ávallt ber að hafa í huga að lífeyrissparnaður er langtímafjárfesting.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um eignasamsetningu og ávöxtun í Upplýsingayfirliti Séreignar LSR.

Við val á fjárfestingarleið er almenna reglan sú að eftir því sem sjóðfélagi er yngri, því meira er áhættuþol hans; hann hefur lengri tíma til að ávaxta sparnað sinn og þolir því frekar sveiflur sem fylgja hlutabréfaverði.

Flýtileiðir