Erlent eignasafn LSR

UFS-áhættumat

Fjárfestingar LSR á erlendum mörkuðum eru í gegnum verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. Það þýðir að LSR er ekki beinn fjárfestir í félögum heldur fjárfestir í sjóðum sem aftur fjárfesta í hlutabréfum og skuldabréfum á heimsvísu. Mat á umhverfis-, félagsþáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum) fyrir erlent eignasafn er því byggt á einkunnagjöf hvers sjóðs sem fjárfest er í. Sjóðirnir sjálfir hafa markað sér UFS-viðmið og eru misjafnir, allt frá því að vera vísitölusjóðir með væg UFS-markmið yfir í sjóði sem gætu flokkast undir það að vera áhrifafjárfestar með skýr og öflug UFS-markmið.

Einkunnagjöf

Við UFS-mat á erlendu eignasafni er stuðst við áhættumat frá Morningstar. Slíku mati er úthlutað öllum skráðum verðbréfasjóðum sem eru með mælanlegan áhættustýringarramma utan um meirihluta eigna í eignasafni hvers sjóðs. Morningstar notast við skalann 1 – 5, þar sem 5 er besta einkunn við mat á UFS-áhættumati sjóða.

Hvort sjóður fái einn hnött eða fimm ræðst af heildareinkunn UFS-áhættumats. Stigagjöf fyrir heildareinkunn er á skalanum 0-50. Ef sjóður fær fimm hnetti í einkunn er stigagjöf lág, en það gefur til kynna að UFS-áhætta sjóðsins sé undir góðri stjórn og er þar af leiðandi lítil. Það öfuga gerist þegar sjóður fær einn hnött í einkunn en þá er stigagjöf há, UFS-áhætta ekki undir góðri stjórn og þar af leiðandi mikil áhætta. 

Sundurliðun stiga

Hér að neðan er heildareinkunn erlends eignasafns LSR, sundurliðuð í umhverfisþætti, félagsþætti og stjórnarhætti. Það er mismunandi hversu mikið hver þáttur vegur hjá hverju og einu undirliggjandi félagi í sjóðunum. Niðurstöðurnar gefa til kynna gagnvart hvaða UFS áhættu eignir í erlendu safni LSR eru mest berskjaldaðar fyrir. Því lægri stigagjöf, því minni UFS-áhætta, því betra fyrir LSR sem fjárfesti.