Lausnir á greiðsluvanda

Lenging lánstíma

Lánstími lána getur verið allt að 40 árum frá útgáfudegi. Ef þú hefur tekið lán til skemmri tíma getur þú lengt lánstímann upp í 40 ár og létt þar með á reglulegri greiðslubyrði. Ókosturinn við lengri lánstíma er sá að lánið verður dýrara að samtölu en ef það er greitt niður á skemmri tíma vegna áhrifa þess á greiðslu vaxta og verðbóta.

Láni með jöfnum afborgunum breytt í jafngreiðslulán (annuitet)

Ef um nýlegt lán er að ræða er greiðslubyrði láns með jöfnum afborgunum af höfuðstól nokkuð þyngri en af jafngreiðsluláni (annuitet). Því getur komið til álita hjá þér að óska eftir breytingu á skilmálum þannig að afborganir miðist við jafnar greiðslur (annuitet). Við þessa breytingu þarf að hafa í huga að jafngreiðslulán (annuitet) eru að endingu dýrari en lán með jöfnum afborgunum höfuðstóls.

Fjölgun gjalddaga

Í velflestum tilfellum hentar best að greiða af láni mánaðarlega, það er að reglulegar tekjur mæti reglulegum afborgunum. Þó getur það verið kostur vera með lán með færri gjalddögum. Þetta getur nýst þeim sem eru með hlutfallslega góðar en óreglulegar tekjur. Með færri gjalddögum bera að hafa í huga að stakar afborganir geta orðið þungar. Áður en ákvörðun er tekin er rétt að bera þennan kost við mögulega frystingu lána.

Skuldbreyting - Vanskil lögð við höfuðstól 

Skuldari greiðir hluta vanskila en eftirstöðvar þeirra eru lagðar við höfuðstól. Sá, sem lendir í vanskilum, getur samið svo um að það sem hann ræður ekki við að greiða verði lagt við höfuðstól lánsins. Við það hækka eftirstöðvarnar og greiðslubyrði hækkar frá því sem hún var fyrir vanskil. Skuldari getur ekki sótt oft um að vanskil séu lögð við höfuðstól og möguleiki til samninga af þessu tagi getur einnig takmarkast af veðrými og samþykki síðari veðhafa. 

Frysting lána

Frysting lána hjá LSR er ætluð þeim sem sjá fram á greiðsluerfiðleika. Með henni er greiðslubyrði felld niður tímabundið. Á meðan greiðslur eru frystar gefst lántaka rými til að greiða niður óhagstæðari lán eða hann nýtir það rúm sem gefst til aðlögunar, til dæmis ef tekjur hafa dregist óvænt saman. Að frystingu lokinni er afborgunum, sem ekki voru greiddar á frystitímanum, dreift á lánstímann sem eftir er. Athygli skal vakin á því að frysting láns getur aldrei verið lengri en 12 mánuðir.

Greiðslujöfnun verðtryggðra lána

Greiðslujöfnun felst í því að reiknuð er ný greiðslujöfnunarvísitala. Ef afborganir samkvæmt þessari vísitölu reynast lægri en afborganir samkvæmt vísitölu neysluverðs er þeim hluta af afborgunum fasteignalánsins, sem nemur mismuninum, frestað þar til greiðslujöfnunarvísitalan hækkar á ný umfram vísitölu neysluverðs. Sá hluti afborgana sem frestast er færður á sérstakan jöfnunarreikning sem bætist við höfuðstól lánsins. Sé skuld á jöfnunarreikningi við lok upphaflegs lánstíma er gert ráð fyrir að lánstíminn verði lengdur. Þegar afborganir af láninu, reiknaðar samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölunni, verða hærri en afborganir reiknaðar samkvæmt vísitölu neysluverðs, greiðist mismunurinn inn á jöfnunarreikninginn til lækkunar á höfuðstóli lánsins.

Sérstök athygli skal vakin á því að framangreindar lausnir á greiðsluvanda munu leiða til aukins kostnaðar fyrir lántaka þegar upp er staðið í formi aukinna vaxta og verðbóta.

Upplýsingar um greiðslujöfnun eru teknar af heimasíðu Velferðarráðuneytisins. Þar má finna meiri fróðleik og svör við ýmsum spurningum um greiðslujöfnun verðtryggðra lána.