Iðgjald og ávinnsla

Almennt

Í A-deild greiðir þú 4% iðgjald af heildarlaunum en launagreiðandi greiðir mótframlag sem er breytilegt, nú 11,5%. Á meðan þú ert í starfi sem veitir aðild að A-deild LSR, greiðir þú iðgjöld mánaðarlega, þó aldrei lengur en til loka þess mánaðar sem þú verður 70 ára.

A-deild LSR er stigasjóður þar sem samanlögð iðgjöld þín hvert almanaksár eru umreiknuð í stig sem mynda grundvöll til réttindaávinnings.

Réttindaávinningur þinn í A-deild ræðst eingöngu af iðgjaldagreiðslum. Því hærra iðgjald sem greitt er þeim mun hærri verður lífeyrir þegar taka hans hefst. Lífeyrir reiknast samkvæmt stigakerfi en hvert stig er fundið sem hlutfall af svokallaðri grundvallarfjárhæð.

Grundvallarfjárhæðin er kr. 123.951 í maí 2017 og breytist samkvæmt vísitölu neysluverðs en á þann hátt eru lífeyrisréttindi í A-deild verðtryggð.

Hafir þú greitt af launum, sem voru jafnhá grundvallarfjárhæðinni, færð þú 1,0 stig fyrir það ár. Ef laun þín voru helmingur af grundvallarfjárhæðinni færð þú 0,5 stig fyrir umrætt ár. Ef laun þín voru aftur á móti tvöföld grundvallarfjárhæðin færð þú 2,0 stig fyrir það ár.

Í A-deild safnar þú því sem nemur 1,9% réttindum af meðallaunum hvers árs. Því er unnt að finna heildarréttindi með eftirfarandi þumalputtareglu: meðallaun mánaðar*1,9%*árafjöldi sem er eftir í starfi.