Iðgjald og ávinnsla

Almennt um iðgjald og ávinnslu réttinda

Iðgjald

Í A-deild LSR greiðir sjóðfélagi mánaðarlega 4% iðgjald af heildarlaunum sínum. Iðgjaldið er undanþegið tekjuskatti en við útborgun lífeyris er tekjuskattur greiddur.

Iðgjöld eru greidd á aldrinum 16 ára til loka þess mánaðar sem 70 ára aldri er náð.

Hér má lesa nánar um aðildarskilyrði að A-deild LSR.


Ávinnsla réttinda

A-deild LSR er aldurstengdur lífeyrissjóður frá 1.6.2017 þar sem ávinnsla réttinda reiknast í krónum út frá réttindatöflum sem fylgja samþykktum LSR.


Aldurstengd réttindaávinnsla – nýtt kerfi frá 01.06.2017

Sjóðfélagi fær réttindi miðað við aldur. Iðgjöld yngri sjóðfélaga eru verðmætari þar sem þau munu ávaxtast lengur en iðgjöld eldri sjóðfélaga. Þannig njóta yngri sjóðfélagar ávinnings af því hve lengi iðgjöldin munu ávaxtast.

Almennt eru lífeyrissjóðir með aldurstengda ávinnslu og því getur sjóðfélagi fært sig milli lífeyrissjóða hvenær sem er á starfsævinni án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindaávinnslu þar sem uppbygging ávinnslunnar er sú sama.

Aldurstengd ávinnsla réttinda

Jöfn réttindaávinnsla – eldra kerfi fyrir 1.6.2017

Sjóðfélagi fær jafna réttindaávinnslu yfir starfsævina án tillits til aldurs. Sjóðfélagi ávinnur sér árlegan lífeyrisrétt sem nemur 1,9% af meðallaunum.

Jöfn ávinnsla réttinda

Nánar um jafna réttindaávinnslu

  • Þeir sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld til LSR fyrir 1. júní 2017 eiga rétt á að halda jafnri ávinnslu. Sjóðfélagar sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum halda þessum rétti vegna framlags sem ríkið hefur greitt í svokallaðan lífeyrisaukasjóðs. Sjóðfélagar hjá öðrum launagreiðendum halda einnig réttinum ef launagreiðandi þeirra samþykkir greiðslu sérstaks iðgjalds í lífeyrisaukasjóðinn.
  • Sjóðfélagi heldur rétti til jafnrar ávinnslu þó skipt sé um starf, ef það veitir rétt til aðildar að A-deild LSR. Falli iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga niður til lengri tíma en 12 mánaða fellur réttur til jafnrar ávinnslu niður. Heimilt er þó að framlengja þetta tímabil um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs. Sjóðfélagi heldur rétti til jafnrar ávinnslu í launalausu leyfi.
  • Sjóðfélagar sem hafa einhvern tíma greitt í A-deild öðlast rétt til jafnrar ávinnslu ef þeir hefja greiðslur á ný fyrir 1. júní 2018.
  • Sjóðfélagar í jafnri ávinnslu fá þau réttindi við lífeyristöku sem best koma út hvort sem þau miðast við jafna eða aldurstengda ávinnslu réttinda. 

 


Hér má sjá samanburð á aldurstengdri og jafnri réttindaávinnslu

Munur á árlegri réttindaávinnslu