Greiðsla tilgreindrar séreignar inn á lán

Hægt er að nýta tilgreinda séreign við kaup á fyrstu íbúð eða sem greiðslu inn á lán vegna fyrstu íbúðarkaupa samkvæmt ákveðnum skilyrðum.

  • Hámarksgreiðslur á ári hjá sambúðarfólki eru 750.000 kr. en 500.000 kr. hjá einstaklingum.
  • Ef sjóðfélagi safnar í hefðbundna séreign koma þá greiðslur úr tilgreindri séreign einungis til viðbótar ef heimildin er ekki fullnýtt.

Greiðslur tilgreindrar séreignar inn á lán ganga þannig fyrir sig að yfir árið er hefðbundinn séreignarlífeyrissparnaður greiddur reglulega inn á lánið eins og gert hefur verið hingað til. Ef hámarkinu er ekki náð eftir árið er tilgreind séreign notuð til að fullnýta heimildina.

Fyrsta greiðsla tilgreindrar séreignar inn á lán eða vegna kaupa á fyrstu íbúð mun því ekki eiga sér stað fyrr en í fyrsta lagi árið 2024 vegna tekjuársins 2023.

Ath: Tilgreinda séreign er eingöngu hægt að nýta vegna kaupa á fyrstu íbúð eða við greiðslu inn á lán vegna fyrstu íbúðarkaupa. Á vef Skattsins eru nánari upplýsingar um fyrstu íbúðarkaup

Hvenær nýtist tilgreind séreign inn á fasteignalán?

Ef þú ert ekki að safna í hefðbundna séreign fer tilgreind séreign að fullu í greiðslur inn á fasteignalán þar til hámarksgreiðslu á ári er náð.

Ef þú safnar 4% af launum í hefðbundna séreign (2% framlag launþega, 2% framlag vinnuveitanda) fullnýtir þú 500.000 kr. heimildina með hefðbundinni séreign ef þú ert með u.þ.b. 1.387.500 kr. eða meira í mánaðarlaun.

Ef þú safnar hins vegar 6% í hefðbundna séreign (4% framlag launþega, 2% framlag vinnuveitanda) fullnýtir þú 500.000 heimildina ef þú ert með u.þ.b. 695.000 kr. eða meira í mánaðarlaun.