Fjárhæð lífeyris
Dagvinna
Við upphaf lífeyristöku reiknast lífeyrir sem hlutfall af dagvinnulaunum fyrir lokastarf eða eftir atvikum af hærra launuðu starfi. Ávallt er tekið mið af 100% dagvinnulaunum og hefur því starfshlutfall við starfslok ekki áhrif á viðmiðunarlaunin. Vekja skal þó athygli á því að starfshlutfall við starfslok getur haft áhrif á makalífeyri.
Frávik meginreglu um dagvinnulaun við starfslok:
- Ef þú hefur samtals í meira en 10 ár gegnt öðru starfi eða störfum sem eru betur launuð en lokastarfið og iðgjöld greidd til LSR, þá reiknast lífeyrir af þeim launum.
- Ef þú hefur frestað lífeyristöku og farið úr hærra launuðu starfi í lægra launað starf þá áttu rétt á lífeyri af launum fyrir það starf sem er betur launað.
- Ef þú hefur af heilsufarsástæðum farið úr hærra launuðu starfi í lægra launað starf þá tapast ekki réttur til lífeyris af betur launaða starfi.
Eftir að lífeyristaka er hafin breytast lífeyrisgreiðslur skv. meðaltals- eða eftirmannsreglu. Lesa má nánar um það hér.
Vaktaálag, orlofs- og persónuuppbót
Sjóðfélagi sem hefur greitt iðgjald vegna vaktaálags ávinnur sér lífeyrisréttindi vegna þeirra.
Lífeyrisgreiðslur vegna vaktaálags reiknast sem hlutfall af fjárhæð sem fylgir vísitölu dagvinnulauna opinberra starfsmanna.
Viðmiðunarfjárhæðin er kr. 466.355 í september 2024.
Sjóðfélagi sem greiðir iðgjöld af orlofs- og persónuuppbót öðlast einnig lífeyrisréttindi vegna þeirra.