Aðgerðir LSR vegna hækkandi lífaldurs

02.01.2023

Meðalævi Íslendinga hefur lengst jafnt og þétt síðustu áratugi og útlit er fyrir að sú þróun muni halda áfram. Þar með geta yngri kynslóðir búist við að njóta fleiri eftirlaunaára en þær sem á undan komu. Þetta þýðir jafnframt að lífeyrissjóðir þurfa að grípa til aðgerða til að tryggja að þeir séu í jafnvægi til framtíðar.

Í hnotskurn:

Breyttar lífslíkur

 

  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út nýjar lífslíkutöflur fyrir Íslendinga sem lífeyrissjóðum ber að fara eftir.
  • Þær sýna að Íslendingar munu lifa lengur en áður var reiknað með, og yngri kynslóðir njóta fleiri eftirlaunaára en eldri kynslóðir.
  • Hærri lífaldur þýðir að dreifa þarf áunnum eftirlaunum á fleiri ár en áður hafði verið talið.

 

Viðbrögð LSR

 

  • Til að eftirlaun dreifist á réttan árafjölda þarf að lækka ávinnsluviðmið í A-deild LSR.
  • Það er gert með því að:
  1. Breyta aldurstengdum réttindatöflum
  2. Breyta ávinnslustuðli í jafnri ávinnslu og færa viðmiðunaraldur í 67 ár í samræmi við lagabreytingu frá 2016
  • Samkvæmt nýjum viðmiðum lækkar árleg réttindaávinnsla um að meðaltali 11,5%, en heildargreiðslur eftirlauna á meðalævi lækka hins vegar ekki.
  • Breytingarnar nú varða eingöngu framtíðarávinnslu réttinda en hafa ekki áhrif á greiðslur til þeirra sem þegar taka lífeyri.

 

Með hækkandi lífaldri þurfa lífeyrissjóðir að bregðast við breyttum aðstæðum og því hefur LSR gert breytingar á réttindatöflum og ávinnslustuðli í A-deild. Með þeim ávinnast svipuð samanlögð heildarréttindi yfir ævina, en þar sem greiðslur dreifast á fleiri ár lækka árleg eftirlaun.

Nýjar dánar- og eftirlifendatöflur voru staðfestar af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í desember 2021. Þær byggðu á nýrri aðferðafræði þar sem spáð er fyrir um hækkandi lífaldur hverrar kynslóðar fram í tímann í stað þess að miða við fortíðargögn. Samkvæmt nýju aðferðafræðinni gera lífeyrissjóðir ráð fyrir að sjóðfélagar muni lifa lengur en áður hafði verið reiknað með. Því yngri sem sjóðfélagarnir eru, því lengri verður áætlaður lífaldur.

Breytingin er umtalsverð og má sem dæmi nefna að með nýjum lífslíkum fyrir sjóðfélaga LSR er gert ráð fyrir að sjóðfélagi sem er 25 ára í dag verði að meðaltali á eftirlaunum í 23,8 ár í stað 19,9 ára samkvæmt fyrri lífslíkum. Breytingin er nokkuð minni fyrir eldri sjóðfélaga, t.d. eru áætluð eftirlaunaár sjóðfélaga sem er 40 ára í dag 23,1 ár.

Þetta þýðir að lífeyrissjóðir verða að gera breytingar á réttindaávinnslu til að tryggja að þau lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar ávinna sér yfir ævina dugi til greiðslu lífeyris allan eftirlaunatímann. Ef ekkert yrði að gert yrðu sjóðirnir reknir með viðvarandi halla sem myndi á endanum koma niður á yngri kynslóðum.

Stjórn LSR samþykkti slíkar breytingar fyrir A-deild sjóðsins og sendi nýjar samþykktir sjóðsins til staðfestingar til fjármála- og efnahagsráðuneytis í desember sl. Ráðuneytið staðfesti nýju samþykktirnar fyrir árslok og tóku þær gildi 1. janúar 2023.

Með breytingunum er aldurstengd réttindaávinnsla til framtíðar sett í jafnvægi miðað við áætlaða ævilengd sjóðfélaga. Þannig lækka árleg eftirlaunaréttindi í samræmi við fjölgun eftirlaunaára og er meðallækkun árlegra réttinda 11,5% fyrir allan sjóðfélagahóp í A-deild LSR. Heildareftirlaun sjóðfélaga, þ.e. sú upphæð sem meðalsjóðfélagi fær samanlagt yfir ævina, lækka ekki — heldur dreifist greiðslan á fleiri eftirlaunaár. Í sumum tilvikum leiðir þessi breyting raunar til þess að samanlögð heildargreiðsla eftirlauna á meðalævi hækkar vegna lengri ávöxtunartíma iðgjalda. Þessi breyting hefur engin áhrif á núverandi lífeyrisþega LSR. Hér má finna nýjar réttindatöflur LSR.

Með þessari breytingu er framtíðarávinnsla réttinda sett í jafnvægi, en það er fyrra skrefið af tveimur sem taka þarf til að tryggja jafnvægi sjóðsins.

Í seinna skrefinu, sem áætlað er að taka á næstu mánuðum, verða áunnin réttindi sett í jafnvægi, en það verður kynnt þegar sú útfærsla liggur fyrir.