Nýjar samþykktir LSR frá 1. júní 2017

13.06.2017

Nýjar samþykktir fyrir LSR tóku gildi þann 1. júní sl. Breytingarnar eru fyrst og fremst tilkomnar vegna breytinga á lögum um LSR, nr. 1/1997, sem samþykkt voru á Alþingi í desember sl. Með breytingunum voru lagaákvæði sem fjalla um A-deild LSR að meginstefnu til felld brott með gildistöku 1. júní 2017. Frá og með þeim tíma er A-deild LSR starfrækt á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, laga um LSR, eftir því sem við á og samþykkta sjóðsins. Þar með er horfið frá því að kveða á um föst réttindi sjóðfélaga á grundvelli breytilegs iðgjalds í lögum líkt og gert var.

Samkvæmt lögunum er tekið upp breytt réttindakerfi hjá deildinni 1. júní 2017 með aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Þá greiddi ríkissjóður skv. lögunum lífeyrisaukaframlag, sem ætlað er að standa undir óbreyttri ávinnslu framtíðarréttinda og óbreyttum lífeyristökualdri við 65 ár hjá núverandi sjóðfélögum. Með samþykktabreytingunum er komið á nýju kerfi réttindaávinnslu í A-deild og útfært hvernig lífeyrisaukanum eigi að vera háttað. Þetta er meginefni breytinganna.

Hér má lesa nýjar samþykktir LSR og viðauka

Hér má finna frekari upplýsingar um breytingarnar á A-deild LSR