RÚV hefur að undanförnu fjallað ítarlega um vafasamar starfsaðferðir erlendra vátryggingarfélaga við öflun séreignarsparnaðar Íslendinga. Umfjöllunina má m.a. finna hér:
Þóknanir sölumanna éta upp sparnaðinn
Sama IP-talan skilaði inn hundruðum séreignarsamninga
Þetta er mjög mikil rándýrshegðun að hringja í ungt fólk og fara með söluræður
Í kjölfar þessarar umræðu er vert að benda á að hjá LSR eru ekki innheimt nein sölulaun þegar byrjað er að safna í séreign, engin aukagjöld eru tekin af iðgjöldum, engin gjöld tekin ef breytingar eru gerðar á söfnun í sjóðinn og kostnaður við að hætta að safna í séreign er enginn. Með öðrum orðum fer allur séreignarsparnaður sjóðfélaga óskertur inn á þeirra eigin sjóð.
LSR er í eigu sinna sjóðfélaga og því hagnast enginn annar af starfsemi sjóðsins. Eini kostnaðurinn við að safna í séreign LSR er hóflegur, beinn rekstrarkostnaður.
Séreignarsjóðir LSR hafa skilað góðri ávöxtun frá upphafi og hægt er að velja um tvær ávöxtunarleiðir:
- Verðbréfaleið, þar sem áhætta er meiri en ávöxtun hefur jafnframt verið meiri síðustu ár
- Innlánaleið, þar sem áhætta er minni og sveiflur í ávöxtun eru í lágmarki
LSR veitir fullt gegnsæi í rekstri séreignarsparnaðarleiða og má m.a. finna mánaðarleg yfirlit yfir ávöxtun og eignasamsetningu verðbréfasafna hér á vef LSR. Á Mínum síðum sérðu jafnframt alltaf núverandi inneign séreignarsjóðsins þíns auk upplýsinga um ávöxtun, iðgjöld og úttektir.
Vandaðu valið
Það er frábær sparnaðarleið að safna í séreignarsjóð, því þannig fæst 2% mótframlag frá vinnuveitanda sem er bein launahækkun fyrir þig. Eins getur tilgreind séreign verið góður kostur fyrir marga sem vilja auka sveigjanleika við lífeyristöku.
Eins og umfjöllun RÚV sýnir getur það skipt verulegu máli hvar þú safnar í séreign. Því skaltu kanna málið vandlega áður en þú tekur ákvörðun. Við erum ávallt tilbúin til að ræða málin – það kostar ekki neitt!