Fjárfestingarstefnur LSR segja til um þær megináherslur sem unnið er eftir við ávöxtun á fjármunum sjóðanna hverju sinni og sett fram markmið um eignasamsetningu hverrar deildar fyrir sig. Farið er m.a. yfir stöðu deildanna, framtíðargreiðsluflæði, áhættustýringu og horfur í efnahagslífinu hér heima og erlendis
Í fjárfestingarstefnu A-deildar, sem er megindeild LSR með eignir upp á ríflega 1.300 milljarða við síðustu áramót, er markmið fyrir 2026 að hlutabréf séu 58% af eignum deildarinnar en skuldabréf 42%. Þá er gert ráð fyrir að auka hlutfall erlendra eigna frá fyrri stefnu. Hlutfall gengisbundinna eigna í stefnunni fyrir 2026 er 51% og í langtímastefnu sjóðsins er gert ráð fyrir að þetta hlutfall hækki enn meira samhliða hækkun á lögbundnu hámarki gengisbundinna eigna.
Fjárfestingarstefna B-deildar tekur mið af því að eignir deildarinnar, sem hefur verið lokuð fyrir nýjum sjóðfélögum frá 1997, fara ört minnkandi. Því er lögð áhersla á að auka seljanlegar eignir og eignir með stuttan líftíma í eignasafni B-deildar.
Fjárfestingarstefna Séreignar og Tilgreindrar séreignar er nú gefin út í fyrsta sinn síðan sjóðurinn tilkynnti að fjárfestingarleiðum Séreignar yrði fækkað úr fjórum í tvær um næstu áramót. Séreign LSR mun eftir það bjóða upp á ávöxtunarleiðirnar Verðbréfaleið og Innlánaleið og verður eignasafn Tilgreindrar séreignar hluti af eignasafni Verðbréfaleiðar.
Fjárfestingarstefna Verðbréfaleiðar tekur jafnframt mið af fjárfestingarstefnu A-deildar, sem eykur enn samlegðaráhrif og hagræði við rekstur séreignardeildar LSR. Þannig er gert ráð fyrir að hlutabréf verði 60% af eignum Verðbréfaleiðar en skuldabréf 40% og stefnt er á að hlutfall erlendra eigna verði 50% á næsta ári.
Eignasafn Innlánaleiðar er ávaxtað að öllu leyti á verðtryggðum og óverðtryggðum innlánareikningum, sem lágmarkar sveiflur í ávöxtun.