Fara á efnissvæði
Mínar síður
Fréttayfirlit

LSR einfaldar ávöxtunarleiðir séreignarsparnaðar

7. nóvember 2025

LSR mun breyta séreignarleiðum sínum 1. janúar 2026 til að veita sjóðfélögum skýrari valkosti og auka skilvirkni í rekstri.

Kubbar raðaðir upp í stiga

Breytingin er gerð með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi og er markmiðið að einfalda séreignarþjónustuna, auka gagnsæi, halda rekstrarkostnaði í lágmarki og gera LSR kleift að skila þannig sem mestri ávöxtun beint til sjóðfélaga.

Við breytinguna fækkar séreignarleiðum sjóðsins úr þremur í tvær: 

  • Leið I og Leið II sameinast í nýja leið, Verðbréfaleið.
  • Leið III fær nýtt nafn, Innlánaleið, en breytist að öðru leyti ekki.
  • Eignasafn Tilgreindrar séreignar verður hluti af eignasafni Verðbréfaleiðar

Nánar um Verðbréfaleið

Fjárfestingarstefnu hinnar nýju Verðbréfaleiðar má sjá hér fyrir neðan í samanburði við fjárfestingarstefnu núverandi leiða:

  Verðbréfaleið Leið I Leið II Tilgreind séreign
Skuldabréf 40% 35% 65% 53%
Hlutabréf 60% 65% 35% 47%

Fjárfestingarstefna Verðbréfaleiðar mun taka mið af fjárfestingarstefnu A-deildar, megindeildar LSR, sem er með ríflega 1.300 milljarða eignasafn og hefur sögulega skilað góðri raunávöxtun. Með því næst ákveðin samlegð í starfseminni sem eykur skilvirkni við eignastýringu og umsýslu séreignarleiðanna.

Vægi hlutabréfa er hærra en vægi skuldabréfa, sem þýðir að sveiflur í ávöxtun geta orðið nokkrar, en um leið eru vonir bundnar við hærri ávöxtun til lengri tíma. Hér fyrir neðan má sjá samanburð á gengi Leiðar I, II og III frá byrjun árs 2017:

Með sameiningu eignasafns Leiðar I, Leiðar II og Tilgreindrar séreignar verður til eignasafn sem nemur u.þ.b. 17 milljörðum króna. Með sameiginlegri fjárfestingarstefnu eykst skilvirkni við rekstur þjónustunnar verulega og rekstrarkostnaður lækkar, sem er beinn ávinningur fyrir sjóðfélaga í formi hærri ávöxtunar.
 
Um leið fá sjóðfélagar einfalt og skýrt val milli fjárfestingarleiða: 

  • Verðbréfaleið:
    Fjárfestingarleið sem byggist á blöndu hlutabréfa og skuldabréfa þar sem tekin er skýrt skilgreind áhætta í fjárfestingum með von um hærri ávöxtun til lengri tíma. Hentar best þegar enn eru mörg ár til starfsloka og fyrir þau sem kjósa að taka meiri áhættu í sparnaði.
  • Innlánaleið:
    Fjármunir geymdir á verðtryggðum innlánsreikningum sem lágmarkar áhættu og sveiflur í ávöxtun. Hentar best þegar styttist í útgreiðslur og fyrir þau sem kjósa minni áhættu í sparnaði.

Sjóðfélagar þurfa ekki að bregðast við þessum breytingum með neinum hætti nema þeir óski sérstaklega eftir því. Sjóðfélagar sem í dag safna eða eiga inneign í Leið I eða Leið II munu frá 1. janúar 2026 safna í Verðbréfaleið og inneign þeirra verður færð þar undir. Sjóðfélagar sem safna í Tilgreinda séreign munu halda því áfram – eina breytingin verður sú að inneign þeirra verður hluti af eignasafni Verðbréfaleiðar og mun fylgja sömu fjárfestingarstefnu. Eina breytingin á Leið III verður nafnabreyting.

LSR mun áfram bjóða sjálfvirka færslu fyrir sjóðfélaga úr Verðbréfaleið yfir á Innlánaleið við 55 ára aldur (svokölluð Sér-leið). Þeir sjóðfélagar sem þegar voru skráðir í þjónustuna verða færðir sjálfvirkt af Verðbréfaleið yfir á Innlánaleið samkvæmt upprunalegum samningi. Sjóðfélagar geta jafnframt fært sig milli leiða hvenær sem er með því að senda inn umsókn á Mínum síðum.

 

Spurningar og svör

  • Til að gera þjónustuna einfaldari og skýrari fyrir sjóðfélaga og til að minnka kostnað og auka skilvirkni í rekstri séreignarleiðanna. Flækjustig við rekstur séreignarleiða, t.d. hvað varðar úrvinnslu og þjónustu við sjóðfélaga, fjárfestingar og annað utanumhald, eykst hlutfallslega á hverja leið eftir því sem leiðirnar eru fleiri.

    Með tveimur einföldum valkostum verður valið skýrt fyrir sjóðfélaga og rekstrarkostnaðurinn lækkar, sem skilar sér beint í aukinni inneign sjóðfélaga. Samlegðaráhrifin aukast enn meira við að láta fjárfestingarstefnu séreignar taka mið af A-deild, megindeild LSR.

  • Þú þarft ekki að gera neitt.

    Ef þú átt inneign eða ert að greiða í Leið I eða Leið II munu greiðslurnar hér eftir fara í Verðbréfaleið og inneignin þín færast þangað líka.

    Ef þú átt inneign eða greiðir í Tilgreinda séreign snýr breytingin að fjárfestingarstefnu og tilfærslu á eignasafni í bakendakerfum LSR sem miðar að því að auka skilvirkni og draga úr rekstrarkostnaði.

    Ef þú átt inneign eða greiðir í Leið III verður engin breyting önnur en að hún heitir hér eftir Innlánaleið. 

    En ef þú vilt er þér velkomið að gera breytingar á vörslu séreignarsparnaðarins. Með umsóknareyðublaðinu „Breyting á samningi um séreignarsparnað“ getur þú skipt um fjárfestingarleið og einnig fært inneign þína milli fjárfestingarleiða að hluta eða öllu leyti. Ekki er þó hægt að færa Tilgreinda séreign í aðra leið.

  • Með nýju séreignarleiðunum, Verðbréfaleið og Innlánaleið, bjóðum við upp á tvo skýra kosti.

    Verðbréfaleið fjárfestir 60% í hlutabréfum og 40% í skuldabréfum, svipað og A-deild LSR. Markmiðið með henni er að ná góðri ávöxtun til langs tíma. Þessi aðferðafræði hefur gefist vel í sögulegu samhengi, en alltaf má búast við tímabundnum niðursveiflum. Þess vegna mælum við með þessari leið annars vegar fyrir yngri sjóðfélaga sem hafa nægan tíma til að ávaxta inneign sína í von um betri langtímaávöxtun og finna lítið fyrir markaðssveiflum og hins vegar fyrir þá sem kjósa að taka meiri áhættu í sparnaði.

    Innlánaleið fjárfestir hins vegar í verðtryggðum og óverðtryggðum innlánsreikningum. Það leiðir til þess að sveiflur haldast í lágmarki og má segja að innlánaleið sé sambærileg við ávöxtun á bankareikningi með hæstu verðtryggðu vexti, sem breytast með almennu vaxtastigi. Þetta er skynsamleg leið fyrir annars vegar sjóðfélaga sem eru komnir á efri ár, mögulega búnir að safna stórum séreignarsjóði og vilja verja hann fyrir mögulegum niðursveiflum þegar styttist í að úttekt hefjist og hins vegar fyrir þá sem kjósa minni áhættu í sparnaði.

    Ef þú vilt nýta kosti beggja þessara leiða getur þú líka flutt hluta af inneign þinni af annarri leiðinni yfir á hina.

    Eins getur þú valið svokallaða Sér-leið, en þá greiðir þú í Verðbréfaleið til 55 ára aldurs og svo færast greiðslurnar yfir á Innlánaleið eftir það. Jafnframt flytjum við inneign þína sjálfvirkt af Verðbréfaleið yfir á Innlánaleið í jöfnum greiðslum yfir þriggja ára tímabil frá 55 ára aldri.

  • Það er beinn ávinningur fyrir þig! Íslenskir lífeyrissjóðir eins og LSR eru alfarið í eigu sjóðfélaga. Það þýðir að engir aðrir en sjóðfélagarnir hagnast á því ef hægt er að lækka kostnað við reksturinn.

    Sumir aðrir aðilar sem bjóða séreignarsparnað á íslenskum markaði eru í eigu stórfyrirtækja sem taka þóknanir af viðskiptavinum og greiða hluta af ávinningnum af rekstrinum til sinna eigin hluthafa. Þess vegna reka þeir til að mynda stór sölunet sem vinna við að safna viðskiptavinum fyrir þessi fyrirtæki og nýta oft fyrstu iðgjöld hvers sjóðfélaga til að greiða sölulaun sölufólksins.

    Þetta gerir LSR ekki og þess vegna tökum við engin upphafsgjöld eða sölulaun þegar þú byrjar að safna í séreign, engar þóknanir þegar þú vilt gera breytingar á séreignarsparnaðinum þínum og tökum engin gjöld ef þú vilt einhvern tímann hætta að greiða í sjóðinn.

    Þú færð líka allan ávinning af ávöxtun hvers árs, að frádregnum rekstrarkostnaði, þ.e. þeim beina kostnaði sem felst í að reka séreignardeildirnar. Slíkur rekstrarkostnaður er t.d. laun starfsfólks sem sér um að þjónusta sjóðfélaga, kostnaður við fjárfestingar, upplýsingatækni og svo framvegis. Rekstrarkostnaður Séreignar LSR hefur sögulega verið lágur og með þessari breytingu er markmiðið að minnka hann enn meira – svo þú fáir enn stærri hluta ávöxtunarinnar beint til þín.

  • Það er aldrei hægt að fullyrða um ávöxtun í framtíðinni.

    Hins vegar hefur það sýnt sig sögulega að hlutabréf skili jafnan bestri ávöxtun til lengri tíma en þau sveiflast jafnframt meira og reglulega hafa komið tímabil þar sem ávöxtun er lítil eða jafnvel neikvæð. Þess vegna er ávallt talað um fjárfestingar í hlutabréfum sem langtímafjárfestingar. Skuldabréf eru áhættuminni að því leyti að þau sveiflast jafnan minna og skila jafnari ávöxtun. Verðbréfaleið mun fjárfesta 60% eigna í hlutabréfum og 40% eigna í skuldabréfum, sem samræmist fjárfestingarstefnu A-deildar, megindeildar LSR. A-deild hefur einmitt skilað bestri langtímaávöxtun af deildum LSR síðasta áratuginn eins og sjá má hér:

      A-deild B-deild Leið I  Leið II Leið III
    Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár 3,0% 2,5% 2,6% 0,7% 0,7%
    Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 10 ár 4,4% 4,0% 4,1% 2,7% 1,3%

    Hrein raunávöxtun er ávöxtun umfram verðbólgu hvers árs.

    Innlánaleið fjárfestir eingöngu í verðtryggðum innlánsreikningum. Það þýðir að ávöxtun verður nokkuð svipuð og ef séreignarsparnaðurinn væri geymdur á verðtryggðum bankareikningi. Margir kjósa að færa inneign sína á slíka sparnaðarleið þegar styttist í að hún verði tekin út til að forðast mögulegar niðursveiflur á úttektartímabilinu.

  • Tilgreind séreign verður áfram í boði sem sérstök, aðskilin séreignarleið hjá LSR, enda er hún hluti af skyldubundnu lífeyrisiðgjaldi og er í eðli sínu ólík hinum séreignarleiðunum. Þannig munt þú ekki sjá neinar merkjanlegar breytingar á þjónustunni.

    Hins vegar verða ákveðnar breytingar hvað varðar eignastýringu, sem við teljum að muni verða þér og öðrum sjóðfélögum sem safna í Tilgreinda séreign til hagsbóta. Eignasafn Tilgreindrar séreignar verður hluti af eignasafni Verðbréfaleiðar og mun lúta sömu fjárfestingarstefnu. Þannig næst fram hagræði við rekstur Tilgreindrar séreignar sem lækkar kostnað við reksturinn og skilar sér í hærri ávöxtun. 

  • Nei, það ekki hægt. Um tilgreinda séreign gilda önnur lög en um hefðbundinn séreignarsparnað. Þar er m.a. sagt til um að fjárfestingarheimildir tilgreindrar séreignar skuli miðast við fjárfestingarheimildir samtryggingarsjóða. Fjárfesting í innlánum eingöngu fellur ekki undir þær heimildir. 

  • Leið II var ákveðið millistig milli Leiðar I og Leiðar III, þar sem meiri áhersla var á skuldabréf en hlutabréf. Mögulegt er að ávöxtun Verðbréfaleiðar muni sveiflast meira en Leið II gerði en um leið er markmiðið að ávöxtun verði betri til lengri tíma.

    Ein leið fyrir þig til að draga úr sveiflum á inneigninni er að flytja hluta hennar úr Verðbréfaleið yfir á Innlánaleið. Sá hluti inneignarinnar mun haldast stöðugri og sveiflur verða hlutfallslega minni á heildarinneign þinni. Þú getur óskað eftir flutningi inneignar milli leiða með eyðublaðinu „Breyting á samningi um séreignarsparnað“ á Mínum síðum.

  • Allar breytingar á séreignarsparnaði eru gerðar með eyðublaðinu Breyting á samningi um séreignarsparnað, sem er á Mínum síðum. Þar getur þú:

    • Breytt iðgjaldagreiðslum, þannig að framtíðariðgjöld séu greidd í aðra séreignarleið en þú ert að greiða í nú.
    • Fært núverandi inneign milli séreignarleiða, ýmist að hluta eða fullu
    • Breytt iðgjaldi þínu (t.d. úr 2% af launum í 4% eða öfugt)

    Ef þú ætlar að færa inneign milli séreignarleiða, sér í lagi ef um háa inneign er að ræða, mælum við jafnan með að það sé gert yfir lengra tímabil til að jafna út sveiflur og draga úr áhættu við flutning fjármagnsins. Sú aðferðafræði minnkar sem dæmi hættuna á að inneign sé flutt í heild sinni af Verðbréfaleið þegar hún er í tímabundinni niðursveiflu, sem myndi „læsa inni“ tap áður en að næstu uppsveiflu kemur. Flutningar í smærri skrefum yfir lengra tímabil geta jafnað betur út slíkar tímabundnar sveiflur.

    Á eyðublaðinu getur þú t.a.m. valið að flytja inneignina með jöfnum greiðslum í 36 mánuði, eða slegið inn annan fjölda mánaðarlegra greiðslna fyrir flutninginn.

    Flutningur inneignar milli fjárfestingarleiða er þér að kostnaðarlausu.

  • Nei, það eru engin gjöld tekin við breytingu á greiðslum eða tilfærslu inneignar milli séreignarleiða LSR.