Viðurkenning Jafnvægisvogarinnar er veitt fyrirtækjum og stofnunum sem uppfylla markmið verkefnisins um 40/60 kynjahlutfall meðal stjórnenda. Það er Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, sem stendur að verkefninu sem hefur það markmið að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar í atvinnulífinu.
Í ár hlutu 128 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög viðurkenninguna. Við afhendinguna var meðal annars farið yfir tölfræði um hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum í íslenskum fyrirtækjum sem sýnir skýrt að enn sé langt í land með að fullt jafnrétti náist í íslensku atvinnulífi.
Við hjá LSR erum afar stolt af því að hafa hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, nú í sjötta sinn. Sjóðurinn leggur mikla áherslu á jafnrétti í sínum störfum, hefur sett sér jafnlaunastefnu og starfar í samræmi við jafnréttisáætlun. Þá hefur LSR verið með jafnlaunavottun frá 2021.
Nánari upplýsingar um Jafnvægisvogina og verkefnið á vef FKA.