LSR í hópi þeirra sem fjármagna byggingu Ölfusárbrúar
23. október 2025
LSR er einn fjögurra aðila sem hafa skrifað undir samning við ÞG Verk um framkvæmdafjármögnun á byggingu nýrrar Ölfusárbrúar. Aðrir sem taka þátt í verkefninu eru Íslandsbanki, Birta lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna.
Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er 17,9 milljarðar króna og er áætlað að því ljúki haustið 2028. Aðkoma lífeyrissjóðanna þriggja að fjármögnuninni er í gegnum samstarfsvettvang lífeyrissjóða í tengslum við Innviðafélag Íslands.
Með þátttöku í fjármögnun Ölfusárbrúar leggur LSR hönd á plóg í mikilvægu verkefni sem mun auka afkastagetu hringvegarins, bæta umferðaröryggi og létta á umferðarteppum. LSR fagnar því að taka þátt í slíku verkefni, sem fellur ekki einungis að fjárfestingarstefnu sjóðsins, heldur hefur líka samfélagslega þýðingu.
Í aðdraganda verkefnisins tók LSR þátt í stofnun Innviðafélags Íslands, sem sérhæfir sig í fjármögnun innviða. LSR mun í framhaldinu leita fleiri leiða til að taka þátt í innviðaverkefnum sem henta vel fyrir bæði sjóðfélaga og samfélagið í heild.
Myndin hér fyrir ofan er frá vefsvæði Vegagerðarinnar og sýnir fyrirhugað útlit nýrrar Ölfusárbrúar.